Fara í efni

Matur eldaður í nýju mötuneyti Grunnskólans í Borgarnesi

Matur eldaður í nýju mötuneyti Grunnskólans í Borgarnesi

Fyrsti nóvember var merkisdagur í sögu Grunnskólans í Borgarnesi þegar fyrsta máltíðin var elduð í nýju og glæsilegu eldhúsi skólans. Nemendur höfðu lagt inn beiðni um að pizza yrði fyrsta máltíðin í skólanum.

Nemendur grunnskólans hafa undanfarin sautján ár haft aðgang að mötuneyti Hótel Borgarness í góðu samstarfi við rekstraraðila hótelsins. Með eldhúsi og sal í nýrri viðbyggingu gefst nemendum kost á að nærast í skólanum.

Horft verður til þess að Borgarbyggð sé heilsueflandi samfélag og verða viðmið Embætti landlæknis um heilsueflandi grunnskóla lögð til grundvallar í mötuneyti skólans og unnið samkvæmt handbók fyrir skólamötuneyti.  Einnig gerir salur skólans það að verkum að nemendur geta auðveldlega safnast saman í daglegan samsöng, á skólasetningu og skólaslit og aðrar sameiginlegar samkomur sem eru fastir liðir í starfi skólans.

Þar með hefur fyrri áfangi verið tekin í notkun en í honum var gert ráð fyrir viðbyggingu sem inniheldur sal skólans og eldhús ásamt björtu kennslurými fyrir yngsta stig skólans á annarri hæð. Allar list- og verkgreinastofur skólans hafa verið endurgerðar á fyrstu hæð, en þar eru stofur fyrir heimilisfræðikennslu, smíðakennslu, textíl og myndmennakennslu. Öll aðstaða til kennslu fyrir nemendur og starfsfólks er til fyrirmyndar.

Fyrirhugað er að efna til nafnasamkeppni á sal skólans meðal nemenda og kennara og verður íbúum Borgarbyggðar boðið í heimsókn von bráðar.