Fara í efni

Vel heppnað sumarfjör eldri borgara í Borgarbyggð

Vel heppnað sumarfjör eldri borgara í Borgarbyggð

Það var eflaust kærkomið fyrir marga að geta tekið þátt í félagsstarfi í sumar í góðum félagsskap eftir inniveruna og einangrun vegna Covid-19 faraldursins. 

Í sumar var ráðinn starfsmaður í gegnum úrræði á vegum Vinnumálastofnunnar auk þess sem sótt var um styrk hjá félagsmálaráðuneytinu til að efla félagsstarf aldraða. Borgarbyggð fékk úthlutað 350.000 kr. styrk sem nýttur var í afþreyingu af ýmsum toga og til að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá í júní og júlí.

Dagskráin í sumar var fjölbreytt og allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. Hún samanstóð af heimsóknum, þar á meðal Ullarselið á Hvanneyri, ísrúntum, fræðslu frá Safnahúsi, bingói og tónlistaratriðum. Þá var einnig hreyfing í fyrirrúmi en hægt var að spreyta sig í Boccia, fara í léttar göngur, sund og taka þátt í stólaleikfimi í hverri viku.

Ferðirnar í Geirabakarí slógu heldur betur í gegn að ógleymdu frábærum hádegistónleikum á miðvikudögum. Diddú kom og tók nokkur lög, Reynir Hauksson gítarleikari spilaði Flamingo-tónlist og sagði skemmtisögur af Spáni og Flamingo-tónlist. Það var síðan Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri tónlistarskólans sem var með síðustu hádegistónleikana þann 29. júlí. 

Borgarbyggð þakkar öllum sem að tóku þátt í félagsstarfinu í sumar og hvetur eldri borgara til þess að kynna sér dagskrá félagsstarfsins fyrir haustið.