Fara í efni

Tómstundanefnd Borgarbyggðar

5. fundur 01. nóvember 2010 kl. 16:00 - 16:00 Eldri-fundur
Tómstundanefnd, fundur nr. 5 Dags : 01.11.2010
Mánudaginn 1. nóv. 2010 kom tómstundanefnd Borgarbyggðar saman til fundar kl. 16:00 að Borgarbraut 14 í Borgarnesi.
Mætt voru: Eiríkur Jónsson formaður, Hjalti R. Benediktsson, Anna Berg Samúelsdóttir, María Júlía Jónsdóttir og Stefán Ingi Ólafsson.
Auk þess sat Indriði Jósafatsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi fundinn.
Dagskrá
1. Fjárhagsáætlun 2011
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi fór yfir vinnu við fjárhagsáætlun sem unnin hefur verið síðustu vikur.
Rammi málaflokksins er 159.000.000 kr.
Tómstundanefnd leggur til 7% hækkunar á gjaldskrá íþróttamiðstöðva.
Almennar verðhækkanir á aðföngum er á bilinu 3 - 10% en hækkun mest á heitu vatni eða 35%.
Tómstundanefnd mælir með millifærslu upp á 2. millj. frá umhverfssviði inn á vinnuskóla vegna vinnuframlags nemenda vinnuskólans á opnum svæðum sveitarfélagsins.
Tómstundanefnd leggur til að gjaldskrá fyrir eldriborgara og öryrkja verði breytt og verði tekið upp sama gjaldskrá og er fyrir börn.
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúa falið að kanna verð og hvort raunhæft sé að koma fyrir yfirbreiðslum yfir laug og heita potta til langtíma sparnaðar á orkukaupum.
Tómstundanefnd leggur til að aðkoma málaflokksins að rekstri sundlaugarmannvirkis að Brún verði hætt og fari út úr fjárhagsáætlanagerð.
 
2. Akstursstyrkir fyrir börn í dreifbýli
Tómstundanefnd leggur til breytingu á reglum um akstursstyrki fyrir börn í dreifbýli í sveitarfélaginu.
5. grein breytist svo hljóðandi. "Ekki er greitt til íbúa sem búa innan 25 km. (aðra leið) frá æfingastað."
6. grein falli út í núverandi mynd og í staðin kemur." Upphæð styrks fyrir íbúa sem búa í 25 km fjarlægð eða meira greiðast 25.000 kr. á ári.
 
 
3. Bókun frá íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi vill koma á framfæri að hann harmar þá ákvörðun sveitarstjórnar að fella niður starf æskulýðsfulltrúa Borgarbyggðar.
Í rúm tuttugu ár hefur undirritaður byggt upp og varið málefni barna, unglinga og ungmenna og skipulagt faglegt forvarna- og frítímastarf ungs fólks í sveitarfélaginu og tekið þátt í að þróa starf sem litið er til og metið að verðleikum um allt land. Því er það óskiljanleg ákvörðun sveitarstjórnar að leggja niður starf þess sem heldur utan um þennan mikilvæga málaflokk barna og unglinga sérstaklega á þessum erfiðu tímum.
 
Allar rannsóknir sína að í eins erfiðu þjóðfélagsástandi og nú geisar þá er grundvallarnauðsyn að halda úti öflugu og markvissu æskulýðsstarfi sem byggir á fagmennsku. Margir þeir þættir sem okkur finnast miður í lífi barna og ungmenna aukast í svona árferði s.s áfengis- og vímuefnaneysla.
Þessar skiplagsbreytingar sem ekki er séð með góðu móti hvert muni leiða þykir undirrituðum, sem hefur rækt starf sitt af trúmennsku um tuttugu ára skeið kaldar kveðjur.
 
Ég undrast þörf á sviðstjórum þegar að við höfum ekki einu sinni efni á að manna baðvaktir með báðum kynjum í íþróttamiðstöðvum sveitarfélagsins eins og á Varmalandi og Kleppjárnsreykjum og höfum aðeins einn starfsmann í félagsmiðstöð þar sem allt að 80 unglingar koma saman í frítímastarfi sínu daglega..
Að mínu mati er það með öllu óhugsandi að sviðstjóri geti haft yfirsýn yfir allt það sem undir fjölskyldusvið heyrir. Það sýnir reynsla annara að íþrótta- og æskulýðmálum hættir til að týnast í samkeppni við stóru fjárfreku málaflokkana, fræðslumál, félagsþjónustu og nú um áramót yfirtaka málefni fatlaðra sem þetta nýja stöðugildi á einnig að hafa yfirumsjón með.
Á víðsjárverðum tímum eins og nú eru, hefði frekar verið nauðsynlegt að halda í horfinu í stað þessa að hörfa í einum vettvangi langt aftur í tímann - það á æska okkar ágæta samfélags síst skilið.
 
4. Bókun nefndar
Nefndin kallar eftir útreikningum á samþykktum sparnaðartillögum vegna breytinga á fjölskyldusviði.
Einnig lýsir nefndin yfir áhyggjum vegna stöðu æskulýðsmála í ljósi breytinga og óttast að verulega dragi úr faglegu starfi.
 
Fleira ekki gert. Fundargerðin upplesin og samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 21.00
Fundargerð ritaði Indriði Jósafatsson