Fara í efni
Þann 15. janúar 2021 verður Föstudagurinn DIMMI haldinn í fimmta skiptið. Hvert ár hefur haft sitt sérstak þema en megin tilgangurinn er að efla raunveruleg tengsl og samskipti, órafmögnuð og á eigin skinni. Að þessu sinni er stefnt á að gæta að sóttvarnareglum og gæta þess að hafa ekki viðburði með sambærilegum hætti og undanfarin ár. Áskorunin er að halda í upplifunina en nýta jafnframt tækni samtímans þrátt fyrir að meginhugmynd Föstudagsins DIMMA sé að stuðla að hvíld frá raftækjum.

Þema ársins 2021 verður Sagnaarfurinn og við stefnum á að vekja upp baðstofustemmninguna með því að útvarpa (og hlaðvarpa) sögum sem tengjast Vesturlandi. Blásið hefur verið til sagnasamkeppni þar sem allir eru hvattir til að taka þátt og skila sögu í einhverju formi. Allt frá skúffuskáldum og leikskólabörnum yfir í teiknara og kvikmyndagerðarfólk. Dómnefnd hefur verið skipuð þeim: Önnu Dröfn Sigurjónsdóttur og Sigrúnu Elíasdóttur sem starfrækja hlaðvarpið Myrka Ísland (og hlaðvarpið Þjóðlegir þræðir), Sævari Inga Jónssyni héraðsbókaverði Héraðsbókasafns Borgarfjarðar, Evu Hlín Alfreðsdóttur og Heiði Hörn Hjartadóttur verkefnastjórum Föstudagsins DIMMA.