Fara í efni
Strohgäu Sinfonieorchester frá Þýskalandi og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna flytja saman gamanóperuna Leðurblökuna eftir Johann Strauss í Reykholtskirkju 2. júní klukkan 20.

Nú um hvítasunnuna kemur til Íslands sinfóníuhljómsveit frá Þýskalandi, Strohgäu Sinfonieorchester og sækir heim Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Báðar sveitirnar eru skipaðar áhugatónlistarfólki og hafa starfað um áratuga skeið. Þriðjudaginn 30. maí og föstudaginn 2. júní leiða hljómsveitirnar saman hesta sína og flytja tónlistina úr gamanóperunni Leðurblökunni eftir valsakónginn Jóhann Strauss. Fyrri tónleikarnir verða haldnir í Langholtskirkju í Reykjavík en þeir seinni í Reykholtskirkju í Borgarfirði. Fimm einsöngvarar syngja einsöngshlutverk óperettunnar. Aðalhlutverkið syngur Steinunn Sigurðardóttir og gegnir hún einnig hlutverki sögumanns á tónleikunum. Aðrir einsöngvarar eru Helena Donie, Ferdinand Dehner, Jean Philipp Chey og Ruicheng Yin. Stjórnendur á tónleikunum verða Jasper Lecon frá Þýskalandi og Oliver Kentish frá Reykjavík.