Fara í efni

Borgarbyggð hækkar starfsstyrki til félaga innan UMSB um 25%

Borgarbyggð hækkar starfsstyrki til félaga innan UMSB um 25%

Starfsstyrkir til félaga innan UMSB voru hækkaðir um 25% á fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Styrkurinn hefur fram til þessa tekið mið af neysluvísitölu hvers árs. 

Hækkunin á eftir að koma félögum vel en kostnaður félaga hefur hækkað undanfarin ár, meðal annars vegna ferða á mót og launakostnað þjálfara. Með þessari hækkun er verið að undirstrika það mikilvæga starf sem unnið er innan félaga UMSB.

Starfstyrkjum til félaga innan UMSB er ætlað að styrkja starf barna og ungmenna yngri en 16 ára. Styrkjum er deilt til félaga eftir ákveðinni reiknireglu sem tekur mið af fjölda iðkenda og lengd æfingatíma á ári. Einnig er farið eftir launagreiðslum til þjálfara og leiðbeinenda. Þau félög sem eru fyrirmyndarfélög inna ÍSÍ hafa aukið vægi í úthlutun styrkja.   

Rannsóknir hafa sýnt fram á forvarnargildi íþrótta en þau ungmenni sem stunda íþróttir eru líklegri til að standa sig betur í íslensku og stærðfræði í skóla. Þá meta börnin líkamlega og andlega heilsu sína betur eftir því sem þau æfa meira og telja sig í betri líkamlegri þjálfun en þau sem æfa lítið eða ekkert. Sjálfsmynd ungmenna er betri, þau eru ánægð með líf sitt og finnst þau vera sterkari og hamingjusamari. Þegar skoðuð eru tengsl íþróttaiðkunar og vímuefnaneyslu kemur fram að eftir því sem börn og ungmenni stunda íþróttir með íþróttafélagi oftar í viku því ólíklegri eru þau til að neyta vímuefna. 

Með auknum fjárstuðningi Borgarbyggðar til íþróttafélaga innan UMSB eiga félögin auðveldara með að ná fram markmiðum sínum til að efla starf sitt og gera enn betur í þjálfun barna og ungmenna.