Fara í efni

Breytingar á framkvæmdartíma Borgarbrautarinnar

Breytingar á framkvæmdartíma Borgarbrautarinnar

Byggðarráð fjallaði nýverið um framkvæmdaráætlun Borgarbrautarinnar. Fyrsta áfanga verkefnisins lauk í byrjun desember sl. að undanskildum yfirborðsfrágangi. Þá var ákveðið hefjast handa við seinni áfanga og nýta áfram hjáleiðina um Berugötu og halda áfram vinnu upp fyrir gatnamót við Skallagrímsgötu. Var það gagngert gert til að flýta fyrir framkvæmdum við seinni hluta verksins og þar með stytta lokunartíma Borgarbrautarinnar fram eftir sumri 2023. Því miður stöðvaðist vinnan vegna kuldatíðar en henni verður hins vegar haldið áfram eins og veður leyfir. 

Ljóst er að framkvæmdatími hefur tekið breytingum sem fela í sér að verktökum er heimilt að vinna áfram í seinni áfanga yfir vetrartímann eins og veður leyfir, upp fyrir Skallagrímsgötu og þaðan áfram eftir Borgarbraut. Upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir því að framkvæmdir við seinni áfanga myndu ekki hefjast fyrr en í apríl á þessu ári. Hins vegar eru framkvæmdirnar komnar vel af stað og eru bundnar vonir við að verkið verði langt komið þegar sumarið gengur í garð. Þessar breytingar fela einnig í sér að framkvæmdartíminn færist til og byrji þá fyrr heldur en gert var ráð fyrir.

Það er miður að ekki sé búið að loka hjáleiðina um Berugötuna eins og vonir stóðu til en allir framkvæmdaraðilar eru sammála um að ofangreind breyting sé vænlegasti kosturinn í stöðunni og líkt og fyrr segir, flýtir fyrir verklokum síðari áfanga verksins.

Íbúum er sérstaklega þakkað fyrir þolinmæðina og gott samstarf það sem af er þessa verkefnis og jafnframt beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.