Fara í efni

Framkvæmdafréttir í upphafi haustmánaðar

Framkvæmdafréttir í upphafi haustmánaðar

Það er í nógu að snúast hjá starfsfólki umhverfis- og framkvæmdadeildar í sveitarfélaginu um þessar mundir.

Skólalóðin í Grunnskólanum í Borgarnesi

Gaman er að segja frá því að á næstu vikum mun rísa glæsilegt sjóræningjaskip á skólalóðinni við Grunnskólann í Borgarnesi. Beðið er með eftirvæntingum eftir leiktækinu en það voru börnin sjálf sem völdu þetta tiltekna tæki fyrir skólalóðina sína.

Dúkskipti í útisundlauginni í Borgarnesi

Það gengur afar vel að skipta um dúk á útisundlauginni í Borgarnesi. Verkið hefur staðið yfir frá því í lok júlí og eru áætluð verklok um miðjan október. Um er að ræða vandasamt verk sem er háð ákveðnum veðurskilyrðum en fljótlega ættu íbúar sem og aðrir gestir að geta stungið sér til sunds í lauginni.

Gatnaframkvæmdir á Borgarbraut

Gatnaframkvæmdirnar á Borgarbrautinni eru í fullum gangi. Eins og fram hefur komið er um að ræða framkvæmdir Veitna, RARIK, Vegagerðarinnar og Borgarbyggðar þar sem verið er að endurnýja fráveitu-, hitaveitu- og vatnslagnir ásamt endurnýjun á yfirborð götu og gangstíga á um 550 m kafla. Í dag er búið að leggja fráveitulagnir í fyrsta áfanga verksins og verið er að undirbúa lagnir fyrir vatns- og hitaveitulagnir. Það er sameiginlegt markmið allra sem að verkefninu koma að það gangi hratt og vel fyrir sig að klára fyrsta áfanga verksins áður en veðurfar byrjar að hafa áhrif á framkvæmdirnar. Vonir standa til þess að ná að malbika götuna um miðjan október, þ.e. gatan frá Egilsgötu og upp fyrir Borgarbraut 15.

Ákveðið hefur verið að lengja áfanga 1 upp fyrir Skallagrímsgötu og ná þar með að nýta hjáleiðina framhjá íþróttahúsinu í áfanga 2 og 3, sem áætlað er að hefja næsta sumar. Með þessari aukningu standa vonir til að áfanga 1 ljúki í nóvember í stað október líkt og gert var ráð fyrir í upphafi.

Stenst framkvæmdin því enn sem komið er áætlun og standast vonir til þess að svo verði áfram í góðu samstarfi við verktaka.

Endurbætur á Óðali

Þessa dagana er verið að ljúka endurbótum á húsnæði Óðals og er lokafrágangur á næstu dögum. Búið er að skipta um parket, mála, skipta út húsgögnum og stækka anddyrið svo fá eitt sé nefnt.

Gatnagerð á Varmalandi

Á komandi vikum hefst gatnagerð við Birkihlíð á Varmalandi. Borgarverk bauð lægst í verkið og mun fyrirtækið sjá um þessar framkvæmdir.

Frisbígolfvöllur í Skallagrímsgarði

Áhaldahúsið setti upp Frisbígolfvöll í Skallagrímsgarði núna á haustmánuðum. Um er að ræða verkefni á vegum Hollvinasamtaka Borgarness og sá Borgarbyggð um uppsetningu á körfunum.

Strandstígur við Kveldúlfsgötu

Áfram verður unnið við lagningu strandstígs við Borgarvog í haust og verður farið í yfirborðsfrágang í október ef veðurskilyrði verða áfram hagstæð.

Almennt viðhald á götum.

Á Bifröst hefur hinn svokallaði strætóhringur verið malbikaður. Þá er einnig búið að leggja klæðningu á Réttarholt, Höfðaholt, Austurholt og hluta Bjarnarbrautar í Borgarnesi. Þá hafa starfsmenn einnig staðið í ströngu við holufyllingar á þeim götum sem eru illa farnar í sveitarfélaginu.

Reynt verður eftir fremsta megni að klára sem flest framkvæmdarverkefni áður en veðrið fer að vera verulegur áhrifavaldur. Íbúar eru hvattir til þess að senda inn ábendingu um það sem má laga og bæta í gegnum ábendingagátt sveitarfélagsins.