Fara í efni

Mikill fjöldi námsmanna í sumarstörfum hjá Borgarbyggð

Mikill fjöldi námsmanna í sumarstörfum hjá Borgarbyggð

Í byrjun maí kynntu stjórnvöld markvissar aðgerðir til að tryggja námsmönnum sumarstörf, um var að ræða átaksverkefni vegna Covid-19. Borgarbyggð hóf strax undirbúningsvinnu sem miðaði að því að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Það er ánægjulegt að segja frá því að Borgarbyggð gat boðið öllum þeim námsmönnum sem sóttu um störf ráðningu.

Í áhaldahúsinu hafa námsmenn verið að sinna ýmsum verkefnum til þess að fegra bæinn, má þar helst nefna sláttur á lúpínu, málun leikskólalóða og grindverka í sveitarfélaginu, snyrting gróðursvæða og þökulagning svo fátt eitt sé nefnt. Elís Dofri G. Gylfason, Bjartur Daði Einarsson og Karvel Lindberg Karvelsson eru á meðal þeirra námsmanna sem hófu störf í áhaldahúsinu í sumar. Elís og Bjartur eru sammála því að það sé ómetanlegt að geta haft áhrif á þetta fallega sveitarfélagið með þessum hætti. Þeir segja að vinnan sé fjölbreytt og að verkefnin séu mismunandi og skemmtileg. Þeim líður vel í áhaldahúsinu og telja að það sé frábær vinnustaður fyrir ungmenni á sumrin. Þá tala þeir einstaklega vel um verkstjórann Ámunda Sigurðsson, segja hann vera góðan yfirmann sem vilji að starfsmönnum líði vel í vinnunni. Karvel tekur í sama streng og segir að vinnan sé fjölbreytt og skemmtileg þó hún geti stundum verið einhæf, honum finnst það þó ekki alltaf vera verra. Hann bætir við að vinnuumhverfið sé jákvætt og að vinnufélagarnir séu skemmtilegir. Auk þess segist Karvel vera þakklátur fyrir starfið.

Í Ráðhúsinu tóku til starfa þrír námsmenn, þau Sóley Birna Baldursdóttur, Viktor I. Jakobsson og Ester Alda Hrafnhildardóttir. Sóley Birna er að kortleggja og greina þarfir barna í sveitarfélaginu, er sú vinna hluti af innleiðingarferlinu til að öðlast vottun fyrir barnvænu sveitarfélagi. Sóley segist vera þakklát og stolt að taka þátt í þessu verkefni og telur að þessi innleiðing eigi að hafa góð áhrif á samskipti og sýn fólks á unga fólkið okkar. Hún er jafnframt þakklát fyrir hversu vel var tekið á móti henni og segir að það sé gott að vera nýr starfskraftur hjá Borgarbyggð.

Viktor hefur verið að komið að skjalavörslu fyrir sveitarfélagið og finnst það standa upp úr hversu skemmtilegt er að vinna í Ráðhúsinu og að kynnast góðum hóp starfsfólks. Hann hefur fengið tækifæri til þess að fara á milli deilda og unnið að ýmsum verkefnum. ,,Þetta starf hefur gefið mér góða innsýn í opinbera stjórnsýslu og það góða starf sem unnið er hér í Ráðhúsinu.“ segir hann.

Ester Alda er að vinna verkefni í samstarfi við Nýsköpunarsjóð násmanna sem snýr að heimsmarkmiðum hjá Borgarbyggð. Henni finnst það frábært og forréttindi að geta unnið að þessu málefnum sem er viðfangsefnið hennar í náminu í Hollandi. ,,Ég kann vel að meta það frelsi og traust sem mér er veitt innan veggja Borgarbyggðar.“ segir hún jafnframt.

Ljóst er að Borgarbyggð er ríkt af flottu ungmennum og einstaklingum og framtíðin er svo sannarlega björt með svona kröftugu fólki í framlínunni.