Fara í efni

Ráðherrafundur EFTA í Borgarnesi

Ráðherrafundur EFTA í Borgarnesi

Ráðherrar, þingmenn og samstarfsaðilar aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) koma saman til árlegs sumarfundar í dag, mánudaginn 20. júní og gaman er að segja frá því að fundurinn fer fram í Hjálmakletti.  Undirbúningurinn hefur staðið yfir í marga mánuði og hefur Stefán Ólafsson, umsjónarmaður Hjálmakletts verið í forsvari fyrir hönd sveitarfélagsins í þessu verkefni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir stýrir fundinum en hann markar lok formennsku Íslands í EFTA-ráðinu undanfarið ár. Með henni á fundinum verða Dominique Hasler utanríkisráðherra Liechtenstein, Jan Christian Vestre, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, Marie-Gabrielle Ineichen-Fleisch, ráðuneytisstjóri í efnahagsmálaráðuneyti Sviss og Henri Gétaz, framkvæmdastjóri EFTA. 

Samvinna EFTA-ríkjanna, staða fríverslunarviðræðna við önnur ríki og samskiptin við Evrópusambandið verða aðalumræðuefni hins formlega ráðherrafundar.. Þá funda ráðherrarnir jafnframt með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafarnefnd EFTA. Auk þess verður efnt til viðburða með fulltrúum þriggja ríkja sem eiga í fríverslunarviðræðum við EFTA: Kósovó, Taílands og Moldóvu.