Fara í efni

Slökkviliðsmenn Borgarbyggðar á námskeiði

Slökkviliðsmenn Borgarbyggðar á námskeiði

Slökkviliðsmenn Borgarbyggðar hafa undanfarnar vikur setið námskeið á vegum Brunamálaskólans. Til að öðlast löggildingu í faginu þurfa slökkviliðsmenn að sitja samtals fjögur námskeið þar sem farið er markvisst yfir alla þætti starfsins.

Slökkviliðið hefur nú þegar lokið námskeiði I og fyrri hlutanum af námskeiði II. Um síðustu helgi 12. – 14. júní fór seinni hlutinn fram en þá var verið að æfa vatnsöflun, eðli elds, þróun innanhúsbruna, yfirtendrun, kalda og heita reykköfun. Á sunnudaginn lagði slökkviliðið land undir fót og fór í heimsókn til Brunavarna Suðurnesja þar sem æfð var reykköfun við erfiðar aðstæður.

Ánægjulegt er að greina frá því að í fyrsta skipti sinnir slökkviliðið sjálft meirihlutanum af kennslunni í samstarfi við Mannvirkjastofnun þar sem nýráðinn varaslökkviliðsstjóri, Heiðar Örn Jónsson hefur aflað sér kennslureynslu hjá Brunavörnum Árnessýslu. Með þessu móti er hægt að hefja nýliðaþjálfun strax við ráðningu og gera allt fræðslustarf skilvirkara.