Fara í efni

Stofnanir í Borgarbyggð loka vegna Covid-19

Stofnanir í Borgarbyggð loka vegna Covid-19

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis að herða reglur samkomubannsins sem hefur verið í gildi frá því á mánudaginn 16. mars s.l. Viðburðir þar sem einstaklingar koma saman verða takmarkaðir við 20 manns í stað 100 áður frá og með aðfaranótt þriðjudags, 24. mars næstkomandi.

Þessi tilmæli hafa í för með sér að meðal annars sundlaugar og söfn á vegum Borgarbyggðar munu loka á morgun, en takmörkun á skólahaldi verður óbreytt.

Aldan mun alfarið loka ótímabundið frá og með morgundeginum. Þjónusta við viðskiptavini Öldunnar mun halda áfram með breyttu sniði í samstarfi við Búsetuþjónustu Borgarbyggðar.

Félagsmiðstöðin Óðal mun einnig loka á morgun. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með Instagram-síðu Óðals en þar verður sett af stað skemmtilegt verkefni á næstu dögum.

Til viðbótar hefur leikskólinn Ugluklettur verið lokaður. Er það gert til að hefta útbreiðslu kórónuveirusmits þar sem einn starfsmaður á leikskólanum hefur verið greindur með Covid-19 smit. Verið er að vinna í rakningu smita. Þar sem starfsmaðurinn var ekki í beinum samskiptum við börnin er ekki gert ráð fyrir að börn og fjölskyldur í leikskólanum þurfi að fara í sóttkví. 

Stofnanir sem loka eru því eftirfarandi:

-        Íþróttamiðstöðin í Borgarnesi

-        Íþróttamiðstöðin á Varmalandi

-        Íþróttamiðstöðin á Kleppjárnsreykjum

-        Safnahús Borgarfjarðar

-        Aldan

-        Félagsmiðstöðin Óðal

-        Leikskólinn Ugluklettur

Ljóst er að ofangreindar lokanir hafa gríðarleg áhrif á íþrótta- og félagsstarf hér í sveitarfélaginu. Íbúar eru engu að síður hvattir til þess að iðka útivist og hreyfingu, eitt og sér eða í smáum hópum eftir fremsta megni.

Íbúar eru beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.