Fara í efni

Talning á sorpílátum - „Borgað - þegar - hent er“

Talning á sorpílátum - „Borgað - þegar - hent er“

Með nýjum lögum sem tóku í gildi um áramótin um hringrásarhagkerfi er sveitarfélögum nú gert að innleiða nýtt kerfi við innheimtu gjalda vegna meðhöndlunar úrgangs, svokallaða "Borgað - þegar - hent - er" aðferð. Með lagabreytingunum er sveitarfélögum gert að tryggja að innheimta verði sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs og að fast gjald skuli takmarkast við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það.

Þessar breytingar hafa í för með sé að aðlaga þarf gjaldskrár og innheimtukerfi, þannig að gjald á hverja íbúðareign breytist. Fast gjald verður lægra en innheimtukerfið sniðið að því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér, þ.e.a.s. innheimt verður fast gjald og því til viðbótar verður innheimt gjald fyrir hvert ílát. Með þessu fyrirkomulagi er unnt að uppfylla skyldur sveitarfélagsins sem ber að tryggja að greitt sé í samræmi við magn og tegund úrgangs sem til fellur hjá viðkomandi úrgangshafa.

Stefnt er að því að innleiða breytingar í sorphirðu á árinu, og mun sveitarfélagið fara svokallaða rýmisleið með álagningarkerfi Húsnæðis -og mannvirkjastofnunar. Gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs, sem uppfyllir ofangreindar kröfur hefur þegar verið samþykkt og verða gjöldin innheimt með fasteignagjöldum. Gjaldskráin gerir ráð fyrir að breytingar geti orðið á úrgangsþjónustu og tunnum fjölgað á árinu, og munu þá gjaldaliðir breytast. Sjá gjaldskrá hér.

Fyrsta skrefið í þeirri vinnu að aðlaga innheimtu að nýju innheimtukerfi er að telja og skrá ílát niður á staðföng frá Húsnæðis-og mannvirkjsastofnun og er sú vinna hafin. Starfsmaður á vegum sveitarfélagsins hóf strax eftir áramót talningu á ílátum við einstök hús og gera má ráð fyrir að sú vinna taki nokkra daga. Því mega íbúar eiga von á því að sjá fólk á á ferli á lóðum sem hefur það hlutverk að telja ílát.