Fara í efni

Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar 2020

Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar 2020

Á fundi Umhverfis-og landbúnaðarnefndar þann 17. september s.l voru veittar viðurkenningar fyrir umhverfismál í sveitarfélaginu. Að þessu sinni var boðið upp á þá nýjung að mögulegt var að senda inn tilnefningar í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins. Það var ánægjulegt að sjá hversu margir voru tilbúnir að benda á það jákvæða sem gert er í umhverfismálum í Borgarbyggð.

Eftirfarandi aðilar fengu viðurkenningu árið 2020:

Falleg lóð við íbúðarhús: Smátún á Kleppjárnsreykjum (Eva Lind Jóhannsdóttir og Unnar Bjartmarsson)

Umsögn dómnefndar:

Lóðin umhverfis Smátún er stór og gróðurmikil, fallega máluð brú sem er yfir lækinn og lítið hringtorg eru mikil prýði. Einnig er mikill og fjölbreyttur gróður á lóðinni. Hænur og endur eru í garðinum ásamt tjörn og gróðurhúsum þar sem ávaxtatré og ýmis grænmetisræktun fer fram. Miklar endurbætur hafa farið fram á lóðinni að undanförnu og þar er nú einkar gróðursælt og snyrtilegt.

Snyrtileg lóð við atvinnuhúsnæði: Límtré -Vírnet í Borgarnesi

Umsögn dómnefndar:

Límtré - Vírnet er sérlega snyrtileg atvinnulóð í hjarta bæjarins, húsum vel við haldið og ávallt til sóma fyrir Borgarnes. Blóm eru í kerjum, plön sópuð og efni er ávallt snyrtilega raðað við húsin.

Snyrtilegt bændabýli: Hvammur í Hvítársíðu (Torfi Guðlaugsson)

Umsögn dómnefndar:

Hvammur hefur í mjög langan tíma verið eitt snyrtilegasta bændabýli í Borgarbyggð og varð fyrst til að fá þessi verðlaun 2006.  Byggingum, aðkeyrslu, girðingum, lóð og umhverfi er nú sem áður, vel við haldið og vélum ávallt vel upp raðað. Öll umgengni er til fyrirmyndar og Borgarbyggð til mikills sóma.

Samfélagsviðurkenning umhverfis- og landbúnaðarnefndar vegna umhverfismála: Steinunn Pálsdóttir

Umsögn dómnefndar:

Steinunn hefur unnið við umhirðu í Skallagrímsgarði í mörg ár og á stóran þátt í því hversu vel garðurinn lítur út. Garðurinn á hug hennar hvert vor og sumar og er hún mætt þar við fyrsta tækifæri. Natni, skipulag og dugnaður er lýsing sem á vel við Steinunni en auk þess að sinna garðinum ár hvert tekur hún einstaklega vel á móti ungmennum úr Vinnuskóla Borgarbyggðar, kennir þeim rétt handtök og hvernig þau stígi sín fyrstu skref í garðyrkju. 

Viðurkenningar voru birkitré frá Grenigerði, gjafapoki frá Ljómalind og viðurkenningarskjal. Bændabýlið fékk venju samkvæmt skilti til að festa á vegvísi heim að bænum.

Varaformaður Umhverfis- og landbúnaðarnefndar og sveitarstjóri afhentu viðurkenningar.