Fara í efni

Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar 2022 veittar

Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar 2022 veittar

Á fundi umhverfis- og landbúnaðarnefndar þann 17. nóvember 2022 sl. voru veittar viðurkenningar fyrir umhverfismál í Borgarbyggð.

Líkt og fyrri ár var kallað eftir tilnefningum íbúa og það var ánægjulegt að sjá hversu margir tóku sér tíma til að senda inn tilnefningar.

Eftirfarandi aðilar fengu viðurkenningu fyrir árið 2022:

Falleg lóð við íbúðarhús

Í þessum flokki eru það íbúar að Kjartansgötu 20 sem hljóta nafnbótina í ár.

Þar segir í niðurstöðu dómnefndar að lóðin er virkilega snyrtileg og bersýnilegt að henni sé haldið við af kostgæfni. Bæði húsið og lóðin eru mjög snyrtileg, gróður vel snyrtur og augljóst að mikil vinna er lögð í umhirðu.

Snyrtileg lóð við atvinnuhúsnæði

Í þessum flokki er það Hótel Varmaland sem hlýtur nafnbótina í ár. Herborg Svana Hjelm hótelstjóri tók við verðlaunum fyrir hönd hótelsins.

Þar segir í niðurstöðu dómnefndar að lóðin í kringum hótelið er snyrtilegt og aðgengið að húsinu er aðlaðandi, skemmtilegt samspil þess gamla og nýja. Viðbyggingin er einnig einstaklega vel heppnuð.

Snyrtilegt bændabýli

Í þessum flokki er það Gunnlaugsstaðir sem hlýtur nafnbótina í ár. Bændur eru þau Þórður Einarsson, Jórunn Guðsteinsdóttir og Guðmundur Eggert Þórðarson. Caroline Langhein tók við viðurkenningunni fyrir hönd Gunnlaugsstaða.

Þar segir í niðurstöðu dómnefndar að það er mikil enduræktun í gangi og stöðug þróun í uppbyggingu. Nýtt stórglæsilegt fjós stendur við bæinn en einnig hefur verið lagt upp úr því að viðhalda gömlu húsunum, sem er dæmi um góða samvinnu milli kynslóða. Það er virkilega ánægjulegt að sjá svona þróun í sveitum Borgarbyggðar.

Samfélagsviðurkenning umhverfis- og landbúnaðarnefndar vegna umhverfismála.

Í þessum flokki er það Steinunn Árnadóttir sem hlýtur nafnbótina í ár.

Þar segir í niðurstöðu dómnefndar að dýravelferð þarf alltaf að vera í hávegum höfð ekki síst í stóru og öflugu landbúnaðarhéraði eins og Borgarbyggð. Mikilvægt er að einstaklingar láti sig hag dýranna varða og leggi þeirra málstað lið þegar þurfa þykir. Það þarf kjark, þor og þrautseigju að standa upp og taka afstöðu með erfiðum málum með vindinn í fangið. Það hefur Steinunn svo sannarlega gert þegar um er að ræða erfið dýravelferðamál. Af einstakri elju hefur hún fylgt málum eftir af eldmóði sem eftir er tekið.