Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

83. fundur 06. ágúst 2008 kl. 08:00 - 08:00 Eldri-fundur
Byggðarráð Borgarbyggðar, fundur nr. 83 Dags : 06.08.2008
Mætt voru:
Aðalfulltrúar: Finnbogi Rögnvaldsson
Björn Bjarki Þorsteinsson
Sveinbjörn Eyjólfsson
Skrifstofustjóri: Eiríkur Ólafsson sem ritaði fundargerð
Eftirfarandi var tekið fyrir:
1. Tilboð í gatnagerð
Framlögð tilboð í gatnagerð á Hvanneyri – Túngata og Arnarflöt – sem opnuð voru 01. ágúst s.l.
Fjögur tilboð bárust frá eftirtöldum:
Borgarverk kr. 12.490.430
HS-Verktak “ 10.089.380
Jörvi “ 10.876.900
JBH-vélar “ 9.406.490
Kostnaðaráætlun framkvæmdasviðs var kr. 9.994.500
Samþykkt var að fela forstöðumanni framkvæmdasviðs að ganga til samninga við lægstbjóðanda.
2. Kostnaður við tónlistarnám
Framlagt bréf Friðriks Aspelund dags. 30.07.’08 þar sem farið er fram á greiðslu að hluta vegna tónlistarnáms Gunnars Inga Friðrikssonar.
Byggðarráð vísar til fyrri bókunar þar sem fram kemur að stuðningi við nemendur í tónlistarnámi utan sveitarfélagsins er hætt.
3. Bréf 365 hf.
Framlagt bréf 365 hf. dags. 31.07.´08 varðandi breytt fyrirkomulag á dreifingu Fréttablaðsins.
Samþykkt var að fela sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga.
4. Flugvöllur á Stóra-Kroppi
Framlagðir minnispunktar frá fundi fulltrúa Borgarbyggðar, landeigenda og Flugstoða um málefni flugvallar að Stóra-Kroppi sem haldinn var 01.08.’08 ásamt viljayfirlýsingu um eignarhald á landi.
Samþykkt að óska eftir fundi með samgönguráðherra um málið.
5. Málefni SPM
Á fundinn mætti Kristinn Bjarnason lögfræðingur til viðræðna um málefni Sparisjóðs Mýrasýslu.
 
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Sparisjóðir, ekki síst á landsbyggðinni eiga í verulegum vandræðum vegna endurfjármögnunar. Sparisjóðir hafa gengt veigamiklu hlutverki á sínum svæðum og eru í byggðalegu tilliti mjög mikilvægir. Byggðarráð Borgarbyggðar beinir því til ríkisstjórnarinnar að nú þegar verði gripið til aðgerða til að auðvelda sparisjóðum endurfjármögnun á svipaðan hátt og Íbúðalánasjóði er ætlað að endurfjármagna lán til íbúðarkaupa.
Bjarki og Finnbogi lögðu fram svohljóðandi bókun:
Höfnum ofangreindri tillögu með hliðsjón af því að það er ekki á verksviði ríkisvaldsins að styrkja einstaka fjármálastofnanir.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Öllum trúnaði vegna upplýsinga er varðar sparisjóðinn verði aflétt. Þar sem öllum má nú vera ljóst að SPM á í vandræðum og fyrir liggja tillögur um aukið stofnfé ber sveitarstjórnarfulltrúum skylda til að ræða þetta mál við sína umbjóðendur án nokkurra undanbragða. Það er mitt mat að trúnaður þjóni ekki neinum tilgangi lengur og því beri að aflétta honum.
 
Bjarki og Finnbogi lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fram til þessa hefur verið nauðsynlegt að halda ákveðinn trúnað vegna stöðu SPM til að verja hagsmuni sveitarfélagsins og viðskiptavina hans. Í ljósi stöðu viðræðna við Kaupþing samþykkja undirritaðir þessa tillögu.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Ástæða er til að gagnrýna vinnubrögð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Borgarlista eftir að ljós voru vandræði SPM. Hér er um veruleg verðmæti að ræða og því mætti ætla að ástæða hefði verið til að vanda sérstaklega til verka. Sérstaklega er gagnrýnt að:
engin óháður aðili hefur verið fenginn til aðmeta stöðu sjóðsins og gera tillögur að framtíðarfyrirkomulagi
engin skrifleg gögn hafa verið lögð fyrir sveitarstjórn eða byggðarráð þannig að þær stofnanir geti byggt ákvarðanatöku sína á faglegum staðreyndum
vegna trúnaðarskyldu hafa fulltrúar í þessum ráðum ekki getað leitað sér sérfræðiaðstoðar á eigin vegum
enn hefur enginn fundur verið haldinn með endurskoðanda SPM þrátt fyrir skriflega beiðni þar um
sveitarstjórn var haldið frá málinu í upphafi og það var einungis fyrir þrábeiðni mína og skriflega tillögu að sveitarstjórn var kynnt málið
fulltrúaráð SPM var ekki kallað saman fyrr til að fjalla um breytingar á rekstri sjóðsins
Bjarki og Finnbogi lögðu fram svohljóðandi bókun:
Byggðarráð Borgarbyggðar hefur unnið náið saman í þessu stóra máli sem snertir samfélag okkar verulega. Hagur viðskiptavina sjóðsins, starfsfólks hans og sveitarfélagsins hefur verið hafður að leiðarljósi í þeirri vinnu og þar hafa byggðarráðsmenn allir búið yfir og haft aðgang að sömu upplýsingum. Byggðarráði var kynntur rekstrarvandi SPM þann 19. júní s.l. og hefur síðan verið unnið að því að finna leið til að endurfjármagna sjóðinn. Undirritaðir telja að samkomulag það við Kaupþing sem kynnt hefur verið sé til þess fallið að tryggja áframhaldandi rekstur sjóðsins og þá hagsmuni sem menn einsettu sér að verja í upphafi. Því er alfarið hafnað að ekki hafi verið vandað til verka í þeim viðræðum sem staðið hafa síðan staðan var kynnt byggðarráði.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Stend við þá gagnrýni sem ég set fram í bókuninni en vil þó taka fram í ljósi bókunar meirihlutans að gagnrýni mín beinist ekki að Kaupþingi.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Ég legg til að þeim fulltrúum í sveitarstjórn Borgarbyggðar sem ekki eiga sæti í fulltrúaráði SPM verði boðið að sitja fund fulltrúaráðsins þann 15. ágúst með málfrelsi og tillögurétti.
Bjarki og Finnbogi lögðu fram svohljóðandi bókun:
Samþykkjum að beina þeim tilmælum til stjórnar að þeir aðilar í sveitarstjórn Borgarbyggðar sem ekki eiga sæti í fulltrúaráði SPM fái að sitja fund fulltrúaráðsins.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi tillögu:
Legg til að öll gögn er varða stöðu sjóðsins og framtíðartilhögun verði send óháðum aðila og hann fenginn til að fara yfir þau. Niðurstöður verði lagðar fyrir ekki síðar en á sveitarstjórnarfundi þann 14. ágúst n.k.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Samþykkt að halda opinn íbúafund um málefni Sparisjóðsins. Nánari tímasetning liggur ekki fyrir.
6. Erindi frá ferðaþjónustuaðilum
Framlagt bréf frá nokkrum ferðaþjónustuaðilum dags. 04.08.’08 þar sem skorað er á Borgarbyggð að senda umsókn um “Green Globe – vottun” fyrir sveitarfélagið.
Samþykkt að vísa erindinu til umsagnar atvinnu- og markaðsnefndar.
7. Fjárhagsáætlun 2009
Rætt um vinnu við fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2009.
Ákveðið að leggja fram þróunaráætlanir stofnana á fundi byggðarráðs 20. ágúst og stefna að fundi sveitarstjórnar, formanna nefnda, forstöðumanna stofnana og embættismanna 25. - 26. ágúst.
8. Menntaskóli Borgarfjarðar
Samþykkt að óska eftir fundi með menntamálaráðherra um málefni skólans.
Fleira ekki gert.
Fundargerðin upplesin og samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl.12,15.