Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

158. fundur 01. júlí 2010 kl. 09:32 - 09:32 Eldri-fundur
Byggðarráð Borgarbyggðar, fundur nr. 158 Dags : 01.07.2010
Mættir voru:
Aðalfulltrúar: Bjarki Þorsteinsson
Ingibjörg Daníelsdóttir
Finnbogi Leifsson
Áheyrnarfulltrúi: Geirlaug Jóhannsdóttir
Sveitarstjóri: Páll S. Brynjarsson
Fjármálastjóri: Linda B. Pálsdóttir sem ritaði fundargerð
Eftirfarandi var tekið fyrir:
1. Skólamál
Framlögð fundargerð frá verkefnisstjórn um sameiningu Varmalandsskóla og Grunnskóla Borgarfjarðar frá 25. júní 2010. Jafnframt framlögð kostnaðaráætlun vegna sameiningarinnar. Byggðarráð samþykkir kostnaðaráætlun vegna sameiningar og vísar henni til endurskoðunar fjárhagsáætlunar skólans. Lagt fram erindi frá skólastjóra Grunnskóla Borgarfjarðar vegna búnaðarkaupa. Byggðarráð óskar eftir úttekt framkvæmdasviðs á viðhaldsþörf skólahúsnæðisins á Kleppjárnsreykjum ásamt samantekt á ástandi búnaðar og þörfum búnaðarkaupa í grunnskólum Borgarbyggðar. Úttekt þessi liggi fyrir 14. júlí nk.
2. Útboð á skólaakstri
Framlögð tilboð og minnisblað skrifstofustjóra vegna útboðs á skólaakstri. Byggðarráð samþykkir að samið verði við aðila eins og lagt er til í minnisblaðinu, að undanskilinni leið 3, þar sem afgreiðslu var frestað og sveitarstjóra falið að leita frekari upplýsinga.
3. Aðalfundur Orkuveitu Reykjavíkur
Framlögð fundargerð frá aðalfundi Orkuveitu Reykjavíkur sem og skýrsla formanns.
4. Sameining sveitarfélaga
Framlögð skýrsla SSV- þróunar og ráðgjafar um sameiningu sveitarfélaga á Vesturlandi í eitt sveitarfélag.
5. Framhaldsaðalfundur Menningarráðs Vesturlands
Framlagt fundarboð á framhaldsaðalfund Menningarráðs Vesturlands sem fram fer að Búðum föstudaginn 2. júlí n.k. Samþykkt að Ragnar Frank Kristjánsson verði fulltrúi Borgarbyggðar.
6. Grjóteyri- landskiptagerð
Framlagt samkomulag eigenda jarðarinnar Grjóteyri í Borgarbyggð þar sem jörðinni er skipt á milli eigenda, en óskað er samþykki sveitarstjórnar fyrir skiptunum. Jafnframt er framlögð umsókn Knúts Jeppesen þar sem óskað er eftir stofnun nýrrar lóðar sem mun bera heitið Grjóteyrartunga. Vísað til umsagnar í umhverfis- og skipulagsnefnd.
7. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands
Framlögð ársskýrsla frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.
 
8. Erindi frá fræðslunefnd
Framlögð erindi frá 66. fundi fræðslunefndar. Byggðarráð samþykkir að farið verði eftir reglum sem settar hafa verið um hámarksfjölda í bekk og samþykkir á þeim forsendum breytingar í Grunnskóla Borgarness og vísar þeim til endurskoðunar fjárhagsáætlunar. Fræðslunefnd falið að gera tillögu að verklagsreglum varðandi hámarksfjölda í bekk. Framlagt minnisblað fræðslustjóra um mötuneyti Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri og minnisblað um opnunartíma leikskóla. Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma með tillögur að útfærslu launadreifingar.
9. Búfjáreftirlitsnefnd fyrir svæði 5
Framlögð fundargerð frá 8. fundi Búfjáreftirlitsnefndar fyrir svæði 5. Jafnframt rætt um skipan í nefndina.
10. Bréf frá starfsfólki Varmalandsskóla vegna húsaleigu
Framlagt bréf frá Ingibjörgu Jónsdóttur og Berki Nóasyni f.h. leigjenda í húsnæði Borgarbyggðar á Varmalandi vegna fyrirhugaðrar hækkunar á húsaleigu. Samþykkt að óska eftir úttekt sveitarstjóra á stöðu leigumarkaðar á svæðinu.
11. Menntaborg ehf.
Rætt um málefni Menntaborgar ehf. og starf húsvarðar við mennta- og menningarhúsið. Sveitarstjóra falið að gera tillögu að starfshlutfalli húsvarðar og markaðssetningu hússins.
12. Fólkvangurinn í Einkunnum
Framlögð fundargerð frá 31. fundi umsjónarnefndar fólkvangsins í Einkunnum, en á fundinum var rætt um úrskurð umhverfisráðherra vegna stjórnsýslukæru umsjónarnefndarinnar. Byggðarráð samþykkir að óska eftir að Hilmar Már Arason komi á næsta fund byggðarráðs.
13. Fjárhagsstaða Borgarbyggðar
Á fundinn mætti Kristján Gíslason, skólastjóri Grunnskóla Borgarness, til viðræðna um fjárhagsstöðu skólans. Byggðarráð óskar eftir að Kristján sendi sundurliðað yfirlit vegna stöðunnar á næsta fund þess. Byggðarráð samþykkir að heimila skólastjóra Grunnskóla Borgarness að ráða í 40% stöðu húsvarðar við skólann.
Á fundinn mætti Indriði Jósafatsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, og fór yfir rekstur íþróttamiðstöðva það sem af er ári 2010. Byggðarráð óskar eftir tillögum frá sveitarstjóra um viðbrögð. Byggðarráð samþykkir að hækka gjaldskrá á stökum miðum fullorðinna í sund í kr. 450 frá og með 2. júlí, hækkunin er m.a. vegna aðfangahækkana.
14. Útboð á sorphirðu
Á fundinn mætti Jökull Helgason forstöðumaður framkvæmdasviðs og greindi frá fundi Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar og Borgarbyggðar um tilboð í sorphirðu sem fram fór 30. júní sl. Byggðarráð samþykkir að fela framkvæmdasviði að ganga frá samningi við Íslenska Gámafélagið ehf.
15. Fjárhagsáætlun 2011
Rætt um vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2011. Samþykkt að halda undirbúningsfund sveitarstjórnar, nefndarmanna og forstöðumanna 10. ágúst nk. Rætt um skipan vinnuhóps um endurskoðun stjórnsýslu Borgarbyggðar.
16. DAB
Rætt um stöðu undirbúnings við byggingu hjúkrunarheimilis við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi.
17. Brákarbraut 65
Framlagt minnisblað sveitarstjóra um framlag Lionsklúbbs Borgarness til uppbyggingar að Borgarbraut 65. Sveitarstjóra falið að leggja fram tillögu að lausn.
18. Starfsmannamál
Framlögð beiðni starfsmanns um tímabundið leyfi frá störfum. Byggðarráð samþykkir beiðnina.
19. Erindi frá sveitarstjórn vegna upprekstrarmála
Sveitarstjórn vísaði til byggðarráðs beiðni eigenda Staðarhúsa varðandi upprekstur á Þverárréttarafrétt. Vegna þessa bókar byggðarráð eftirfarandi:
 
"Nú þegar hefur féð frá Staðarhúsum verið rekið á Þverárréttarafrétt, enda lá fyrir samþykki afréttarnefndar Þverárréttar þar um. Byggðarráð gerir því ekki athugasemd við þá ákvörðun, þrátt fyrir að samþykki sveitarstjórnar hafi ekki legið fyrir. Hins vegar ítrekar byggðarráð að þessi ákvörðun á aðeins við um þetta ár og beinir því til afréttarnefndar Borgarhrepps, Stafholtstungna og Norðurárdals vestan Norðurár og afréttarnefndar Þverárréttarupprekstrar að ræða um upprekstrarmál viðkomandi svæða."
20. Bréf frá Hvalfjarðarsveit vegna kosninga á fulltrúa í stjórn Snorrastofu
Byggðarráð samþykkir að Davíð Pétursson verði sameiginlegur fulltrúi Borgarbyggðar, Hvalfjarðarsveitar og Skorradalshrepps í stjórn Snorrastofu.
21. Upplýsingar til íbúa
Samþykkt að fela sveitarstjóra að kynna nefndarskipan.
22. Önnur mál
a. Fundargerð frá fundi í skólanefnd Fjölbrautarskóla Vesturlands.
b. Bréf frá EBÍ vegna ágóðahlutar 2010.
Fleira ekki gert.
Fundargerðin upplesin og samþykkt.
 
Fundi slitið kl. 12:30