Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

441. fundur 01. febrúar 2018 kl. 08:15 - 11:00 í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Geirlaug Jóhannsdóttir formaður
  • Björn Bjarki Þorsteinsson varaformaður
  • Guðveig Eyglóardóttir aðalmaður
  • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Kristján Gíslason
Dagskrá

1.Ljósleiðari í Borgarbyggð

1602023

Ljósleiðaramál í Borgarbyggð. Til fundarins mætti Guðmundur Daníelsson ráðgjafi. Einnig sat Eiríkur Ólafsson sviðsstjóri fundinn undir þessum lið. Guðmundur fór yfir fyrirliggjandi verkefni til undirbúnings ljósleiðaravæðingar í Borgarbyggð. Meðal annars ræddi hann um undirbúning og framkvæmd útboðs á verkefninu og áherslur í því sambandi. Unnið verður að uppsetningu heimasíðu í febrúar. Þar verður unnt að fylgjast með framvindu verkefnisins ásamt öðru sem málinu tengist, s.s. tímalínu framkvæmda.

2.Borgarljós - stofnun B hluta fyrirtækis

1801174

Framlögð bókun vegna stofnunar Borgarljós - B hluta fyrirtækis.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkir að stofna fyrirtækið Borgarljós sem verður rekið sem deild innan sveitarfélagsins og á ábyrgð þess. Verkefni fyrirtækisins er að annast lagningu og rekstur ljósleiðara í Borgarbyggð. Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur yfirumsjón með Borgarljósi.
Bókhaldi Borgarljóss skal halda aðskildu frá bókhaldi sveitarfélagsins með skýrum hætti. Sveitarstjórn skal fylgjast með rekstri, bókhaldi og fjárhagsstöðu verkefnisins. Í samræmi við góðar reikningsskilavenjur skal fara fram árleg endurskoðun á bókhaldi verkefnisins.
Ljósleiðarakerfið verður alfarið í eigu sveitarfélagsins.
Inntak hinnar opinberu þjónustu sem Borgarljósi er ætlað að framkvæma er að leggja ljósleiðaranet um sveitarfélagið til þeirra sem það kjósa og falla undir þær reglur sem verkefninu eru settar. Það svæði sem verkefnið tekur til skal vera afmarkað við Borgarbyggð.
Engin sérstök réttindi eða einkaréttindi verða veitt vegna verkefnisins.
Borgarljós verður fjármagnað af sveitarfélaginu, þeim tekjum sem af þjónustunni hljótast og með styrk frá íslenska ríkinu. Sveitarstjórnin hefur kynnt sér og samþykkir frumhönnun og kostnaðarmat verkefnisins, unnið af Guðmundi Daníelssyni. Þar er lýst fyrirkomulagi á fjármögnun verkefnisins, kostnaðaráætlun, forendum fyrir útreikningum og hvernig eftirliti með greiðslum verður háttað og endurskoðun á greiðslum vegna verkefnisins.
Framkvæmdastjóri og prókúruhafi Borgarljóss verður Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri.

3.Samningur um styrk v. ljósleiðaravæðingar Borgarbyggðar

1801178

Framlagður samningur milli Borgarbyggðar og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins varðandi styrk að upphæð 12,1 millj. kr. til ljósleiðaravæðingar í dreifbýli sveitarfélagsins. Einnig var lögð fram sérstök yfirlýsing sveitarstjóra Borgarbyggðar um ráðstöfun styrksins dags. 26. janúar 2018. Byggðarráð samþykkti samninginn.

4.Samningur um verkefnastjórn v. ljósleiðaravæðingar.

1801179

Framlagður samningur milli Snerru ehf og Borgarbyggðar um verkefnastjórn vegna ljósleiðaravæðingar í dreifbýli Borgarbyggðar. Byggðarráð samþykkti samninginn.

5.Vinnuhópur um safna - og menningarmál.

1710072

Framlögð til kynningar skýrsla vinnuhóps um framtíðarsýn um safna- og menningarmál í Borgarbyggð. Þar koma fram margar áhugaverðar hugmyndir um metnaðarfulla framtíðarsýn í safna- og menningarmálum innan sveitarfélagsins. Við vinnslu skýrslunnar var aflað ráðgefandi álits fagaðila s.s. þjóðskjalavarðar og þróunarstjóra Þjóðminjasafnsins og styrkti það samtal niðurstöðu vinnuhópsins. Byggðarráð felur sviðsstjóra fjármála - og stjórnsýslusviðs að kostnaðarmeta einstaka þætti eftir því sem fært er á þessu stigi. Efni skýrslunnar verður kynnt á næstunni fyrir hlutaðeigandi aðilum.

6.Barnapakki Borgarbyggðar

1801180

Framlagt minnisblað um "Barnapakka Borgarbyggðar". Sveitarstjóri kynnti þá hugmyndafræði sem að baki liggur og þá vinnu sem unnin hefur verið í þessu sambandi. "Barnapakki Borgarbyggðar" yrði afhentur foreldrum nýfæddra barna innan þriggja mánaða eftir fæðingu þeirra. Miðað væri við 1. jan. 2018 sem upphaf verkefnisins. Markmið þess væri að bjóða nýfædda einstaklinga velkomna af samfélaginu. Rætt hefur verið við allnokkur fyrirtæki um að taka þátt í verkefninu og hafa undirtekningar undantekningarlaust verið jákvæðar. Verkefnið verður kynnt betur þegar það er fullmótað. Byggðarráð fagnaði þessu frumkvæði og telur einboðið að það njóti stuðnings sveitarfélagsins á þann hátt sem gefin eru dæmi um í minnisblaðinu.

7.Drög að lagafrumvarpi um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi

1801185

Framlögð drög að frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi sem barst frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þann 30. janúar s.l. Umsagnarfrestur er til 9. febrúar. Óskað er eftir umsögnum hagsmunaaðila um frumvarpið. Byggðarráð bókaði eftirfarandi: Byggðarráð Borgarbyggðar leggur þunga áherslu á mikilvægi þess að öryggissjónarmið gagnvart verndun villtra laxastofna sé haft í fyrirrúmi við mótun laga og reglna sem varða uppbyggingu fiskeldis í sjó og leyfisveitingar í því sambandi. Þetta sjónarmið verður að virða með hliðsjón af hinum gríðarlegu hagsmunum veiðiréttarhafa og landeigenda sem eru til staðar bæði í Borgarbyggð svo og víða um land vegna nýtingu villtra laxastofna í ám.

8.Styrkir til íþrótta - og æskulýðsmála - skilyrði

1801183

Framlögð tillaga að bókun vegna fjárhagslegs stuðnings Borgarbyggðar við íþrótta- og æskulýðsstarfs í sveitarfélaginu. Byggðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
"Borgarbyggð áskilur sér rétt til þess að skilyrða fjárveitingar til íþróttafélaga og annarra félagasamtaka, sem bjóða upp á frístundaiðkun fyrir börn og unglinga, á þann hátt að félögin setji sér siðareglur, viðbragðsáætlanir og fræði þjálfara/umsjónarfólk um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Einnig skulu sömu aðilar hafa skýrt ferli til að taka við ábendingum og kvörtunum iðkenda ef þörf reynist á. Þau íþróttafélög og samtök sem Borgarbyggð styrkir skulu setja sér jafnréttisáætlanir, sýna fram á að farið sé eftir þeim og að aðgerðaráætlun þar að lútandi sé fylgt. Borgarbyggð skal hafa eftirlit með því að fyrrgreind atriði séu uppfyllt hjá þeim aðilum sem sveitarfélagið styrkir til æskulýðs- og íþróttastarfs."

9.Byggingarnefnd Hnoðrabóls - fundargerðir 2018

1801181

Framlögð fundargerð byggingarnefndar Hnoðrabóls frá 17.1.2018

10.Stýrihópur um endurskoðun íþrótta - og tómstundastefnu Borgarbyggðar

1801017

Framlögð fundargerð 1. fundar stýrihóps um endurskoðun stefnu Borgarbyggðar í íþrótta - og tómstundamálum frá 24. jan. 2018.

11.Fundargerð 400. fundar Hafnasambands Íslands

1801176

Framlögð fundargerð 400. fundar Hafnasambands Íslands frá 22. jan. 2018

Fundi slitið - kl. 11:00.