Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

463. fundur 26. september 2018 kl. 10:00 - 11:40 í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir formaður
  • Lilja Björg Ágústsdóttir aðalmaður
  • Guðveig Eyglóardóttir aðalmaður
  • María Júlía Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Kristján Gíslason
Dagskrá

1.Grímshús - samningur við MMG

1809137

Í febrúar 2014 gerðu Borgarbyggð og Grímshúsfélagið með sér samning um að Grímshúsfélagið, í umboði Borgarbyggðar, tæki að sér að annast endurbyggingu Grímshúss. Með fyrrgreindu samkomulagi féll úr gildi eldra samkomulag um sama efni frá árinu 2011. Á þeim árum sem liðin eru frá fyrrgreindu samkomulagi hefur Grímshúsfélagið unnið af miklum metnaði og atorku að endurgerð hússins. Á liðnu vori barst sveitarfélaginu erindi frá fyrirtækinu Martins Millers Gin í Englandi þar sem fyrirtækið lýsir yfir áhuga sínum á að leigja Grímshús til 25 ára til að setja upp kynningar- og gestastofu fyrir vínframleiðslu sína. Það er gert í þeim tilgangi að leggja áherslu á þá sérstöðu fyrrgreinds gins sem byggir á notkun vatns frá Borgarnesi við framleiðsluna. Ef fyrirætlanir fyrirtækisins ganga eftir þá er fyrirhugar það að reisa húsnæði í nágrenni Grímshúss til að hýsa framleiðslu og geymslulager fyrir framleiðsluna. Fyrirætlanir fyrirtækisins voru strax í upphafi kynntar fyrir stjórn Grímshúsfélagsins sem hefur fjallað um málið á nokkrum stjórnarfundum. Einnig hefur verið fjallað um málið á félagsfundi þess. Stjórnin hefur fagnað framkomnum hugmyndum um nýtingu Grímshúss. Einnig hefur félagsfundur tekið jákvæða afstöðu til framkomins erindis Martins Millers Gins um leigu á Grímshúsi. Stjórn félagsins hefur í umfjöllun sinni lagt áherslu á eftirfarandi atriði sem m.a. komu fram í fundargerð stjórnarfundar þann 13. september sl.:
a.
Tryggt sé að eignarhald sveitarfélagsins á Grímshúsi verði aldrei skert.
b.
Tryggt sé að afloknum leigutíma þá geti Borgarbyggð leyst húsið til sín án fjárútláta ef samningar um áframhaldandi samstarf takast ekki.
c.
Tryggt verði að ef að einhverjum ástæðum hætti leigutaki starfsemi í húsinu áður en leigutíma líkur, falli eignarhald á öllu sem gert hefur verið í og við húsið til sveitarfélagsins án þess að til greiðslu komi af hendi sveitarfélagsins
d.
Undirbúningsvinna og frágangur innréttinga í húsinu verði unnin í nánu samstarfi við sveitarfélagið.
e.
Tryggt verði það markmið Grímshúsfélagsins að í húsinu verði útgerðarsaga Borgarness varðveitt og sýndur sómi.
f.
Tryggt verði að saga hússins (upprunalegt hlutverk, hnignun þess og endurreisn) verði varðveitt og sé sýnileg gestum.
g.
Tryggt verði að minning þeirra sem höfðu frumkvæði um endurreisn hússins verði varðveitt og sýnileg.
h.
Mögulegt verði að varðveita líkön af skipum sem gerð voru út frá Borgarnesi í húsinu.
i.
Sveitarfélagið hafi möguleika á að nýta húsið fyrir samkomur og minni mannfagnaði.
j.
Stefnt skal að því í eins miklum mæli og mögulegt er að samstarf verði við heimaaðila í öllu því sem varðar þær framkvæmdir sem fram undan eru svo og rekstur hússins til framtíðar.
k.
Stjórnin telur að ekki eigi að nýta uppsagnarfrest þann sem kveðið er á um í samningum milli Grímshúsfélags og Borgarbyggðar, heldur verði húsið afhent Borgarbyggðar strax í þvi ástandi sem það er í nú.
l.
Þess verði gætt að sett verði tímamörk á framkvæmdir þannig að framkvæmdir við frágang dragast ekki óhóflega (með því er átt við meira en ca 3 ár).

Byggðarráð tekur undir þær áherslur stjórnar Grímshúsfélagsins sem koma fram í fyrrgreindri bókun og leggur áherslu á að unnið verði eftir þeim í fyrirhuguðum samningaviðræðum við Martins Millers Gin um leigu fyrirtækisins á Grímshúsi. Byggðarráð felur sveitarstjóra og Inga Tryggvasyni lögmanni að annast samningaviðræður fyrir hönd Borgarbyggðar um frágang leigusamnings á Grímshúsi til fyrirtækisins. Byggðarráð leggur áherslu á að afhending Grímshúsfélagsins í núverandi mynd fari fram með formlegum hætti til heiðurs þeim einstaklingum sem hafa borið hitann og þungann af björgun og endurreisn Grímshúss. Með þeim hugmyndum, sem fyrir liggja um nýtingu hússins, hafa upphafleg markmið um endurgerð og nýtingu Grímshúss náðst, samfélaginu til heilla.

2.Grímshús - tilboð

1808190

Tilboð Sigvalda Arasonar, Borgarbraut 65, frá 28. ágúst 2018, um kaup eða leigu á Grímshúsi. Byggðarráð þakkar framkomið erindi en með hliðsjón af afgreiðslu 1. dagskrárliðar telur byggðarráð ekki fært að ganga til samninga við Sigvalda Arason um kaup eða leigu á Grímshúsinu og hafnar því framkomnu erindi hans.

3.Yfirlýsing vegna jafnvægisvogar

1809043

Framlögð til kynningar yfirlýsing vegna jafnvægisvogar sem send er frá Félagi kvenna í atvinnulífinu, dags. 11. September sl.

4.Endurgreiðsla fasteignagjalda af lóðum í landi Eskiholts II, bréf

1807011

Framlögð krafa um endurgreiðslu fasteignagjalda vegna sumarhúsalóða við Birkibrekku, Furubrekku og Þverbrekku í landi Eskiholts II, dags. 20. Júní 2018, frá eigendum lóðanna Birnu Kristínu Baldursdóttur og Bergi M. Jónssyni. Einnig er óskað eftir því að deiliskipulag fyrir svæðið verði sett í ferli á nýjan leik. Erindinu vísað til Umhverfis- og skipulagssviðs til umfjöllunar.

5.Yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga

1809114

Lagt fram til kynningar yfirlit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 21. September 2018, um lögmælt verkefni sveitarfélaga, skv. 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Yfirlitinu er ætlað til leiðbeiningar fyrir sveitarfélög við stefnumótun og áætlanagerð ásamt því að auðvelda umræðu og yfirsýn yfir skyldur og hlutverk sveitarfélaga. Byggðarráð þakkar fyrrgreint yfirlit sem er gagnlegt fyrir þá sem starfa að sveitarstjórnarmálum.

6.Húsnæðisframlag 2019 - erindi.

1809115

Lagt fram erindi framkvæmdastjóra Brákarhlíðar, dags. 21. September 2018, þar sem kynnt er upphæð framlags þeirra sveitarfélaga sem eru aðilar að Hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð á hvern íbúa. Framlagið er óbreytt frá fyrra ári eða 6.960.- kr. Byggðarráð samþykkir erindið og vísar því til fjárhagsáætlunar.

7.Fjárhagsáætlun Faxaflóahafna 2019

1809124

Fjárhagsáætlun Faxaflóahafna fyrir árið 2019 lögð fram til kynningar.

8.Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2018

1809092

Lögð fram til kynningar dagskrá Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin verður á Hilton Reykjavík Nordica dagana 11. og 12. október n.k. Byggðarráð hvetur kjörna fulltrúa í sveitarstjórn og hlutaðeigandi starfsmenn til að sækja ráðstefnuna.

9.Fundur með þingmönnum Norðvesturkjördæmis

1809122

Framlagt til kynningar erindi SSV, dags. 23. September sl., þar sem kynntur er fyrirhugaður fundur þingmanna kjördæmisins með fulltrúum sveitarstjórna á vesturlandi. Fundurinn verður haldinn í Borgarnesi þann 4. Október n.k.

10.Sóltún 15 - Umsókn um lóð

1809126

Framlögð umsókn Ómars Péturssonar f.h. PJ bygginga ehf kt: 6701032260 Hvanneyrargötu 3 um lóð að Sóltúni 15. Hvanneyri. Fyrir liggur jákvæð umsögn sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs. Byggðarráð samþykkti umsóknina.

11.Borgarbraut 55 - bréf 20.8.2018

1808065

Framlagt til kynningar uppkast að samkomulagi við lóðarhafa að Borgarbraut 55. Byggðarráð ræddi uppkastið ítarlega og samþykkti að vinna málið áfram á grundvelli þess. GAE sat hjá við afgreiðslu málsins. Lóðarhafar verða boðaðir á fund með byggðarráði innan fárra daga þar sem tillögurnar verða kynntar.

12.Áætlun um ljósleiðara, Reykholt - Húsafell

1804067

Lagning ljósleiðara frá Reykholti að Húsafelli. Sveitarstjóri kynnti viðræður milli Borgarbyggðar og ferðaþjónustunnar í Húsafelli um lagningu ljósleiðara frá Reykholti fram að Húsafelli. Byggðarráð samþykkti eftirfarandi: "Fulltrúar Ferðaþjónustunnar Húsafelli ehf hafa lýst yfir áhuga á að sameinast með Borgarbyggð um lagningu á ljósleiðarastreng frá Reykholti að Húsafelli. Byggðaráð felur verkefnastjóra ljósleiðaraverkefnis, í samráði við sveitarstjóra, að leiða samningaviðræður við fulltrúa Ferðaþjónustu Húsafells ehf á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir."
Byggðarráð lýsir ánægju með samstarf við Ferðaþjónustuna í Húsafelli ehf um verkefnið.

13.Bókun aðalfundar SSV um málefni VÍS

1809138

Byggðarráð Borgarbyggðar tekur undir bókun Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem bókuð var á haustþingi samtakanna síðastliðinn föstudag. Bókun SSV hljómar svo:

„Haustþing Samtaka sveitarfélaga á vesturlandi lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með þér fréttir frá VÍS að loka eigi öllum starfsstöðvum á Vesturlandi um næstu mánaðarmót. Þessi ákvörðun er óásættanleg fyrir viðskiptavini og starfsfólk VÍS á svæðinu sem margir hverjir hafa verið í áratugi í viðskiptum og störfum við og fyrir félagið. Skorað er á sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga á svæðinu að bregðast við þessari ákvörðun VÍS með því að endurskoða viðskipti sín við fyrirtækið.“

Ljóst er að eitt af útibúum VÍS er staðsett í Borgarnesi og á að loka því um næstu mánaðarmót. Byggðarráð ályktar að það sé ljóst að ákveðnar breytingar eru óhjákvæmilegar í ljósi hraðra framþróunar á sviði tækni- og samskiptamála. Þó er ljóst að það er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtæki geti rekið starfsstöðvar sínar annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu og sinnt sínum störfum þaðan en í ljósi þess er eðlilegt að horfa einnig til þróunar í byggðarmálum. Byggðarráð hvetur fyrirtæki til að sína samstöðu um að standa vörð um störf í sinni heimabyggð og úti á landsbyggðinni og tekur áskorun SSV um að endurskoða viðskipti við umrætt fyrirtæki.

Við síðasta útboð um tryggingar fyrir Borgarbyggð áskildi Borgarbyggð sér fullan rétt til að gera það að ákvörðunarástæðu fyrir því að að tilboði yrði tekið, að það tyggingarfélag sem samið verði við hafi opna umboðsskrifstofu í Borgarbyggð með daglegan opnunartíma virka daga. Tekið var tilboði frá VÍS eftir framangreint útboð og í ljósi ofangreinds er um að ræða forsendubrest þar sem áætlað er að loka útbúi tryggingarfélagsins í Borgarbyggð. Því verður þessi samningur tekinn til endurskoðunar af hálfu sveitarfélagsins.

14.Byggingarnefnd Grunnskólans í Borgarnesi - verkfundir

1806018

Fundargerð 14. verkfundar byggingarnefndar GB dags. 18. september 2018.

15.Fundargerð Faxaflóahafna sf. 21. september 2018 Fundur nr. 172

1809113

Framlög til kynningar fundargerð Faxaflóahafna sf. 21. september 2018 nr. 172
Guðveig Eyglóardóttir leggur fram eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar framsóknarflokksins í sveitarstjórn hvetja til þess að Borgarbyggð verði þáttakandi í tilraunaverkefni sem nú er auglýst á vegum Íbúðarlánasjóðs. Markmið verkefnisins er að fjölga íbúðarhúsnæði og bregðast með þeim hætti við húsnæðisvanda sem hamlar uppbyggingu í sveitarfélaginu. Brýnt er að ljúka húsnæðisáætlun sveitarfélagsins sem er grundvallarforsenda fyrir þátttöku."

Fundi slitið - kl. 11:40.