Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

467. fundur 25. október 2018 kl. 08:15 - 11:12 í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Lilja Björg Ágústsdóttir varaformaður
  • Guðveig Eyglóardóttir aðalmaður
  • Magnús Smári Snorrason áheyrnarfulltrúi
  • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir varamaður
  • Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri
  • Eiríkur Ólafsson sviðsstjóri fjármála - og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði: Kristján Gíslason
Dagskrá

1.Samanburður fjárhags við fjárhagsáætlun 2018

1806098

Eiríkur Ólafsson kynnti samanburð fjárhags við fjárhagsáætlun 2018. Rekstur er vel innan marka þótt einstakir liðir víki aðeins frá áætlun.

2.Fjárhagsáætlun 2019

1806099

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Eiríkur Ólafsson, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs lagði fram áætlun fyrir tekjur og rekstrarútgjöld sveitarfélagsins fyrir árið 2019. fór yfir það sem unnið hefur verið frá síðasta fundi við undirbúning fjárhagsáætlunar hvað varðar tekjur og rekstrarkostnað sveitarfélagsins. Eftir er að vinna framkvæmdaáætlun og setja ramma fyrir það fjármagn sem fer til viðhalds mannvirkja. Áætluninni vísað til næsta fundar sveitarstjórnar til fyrri umræðu með þeim fyrirvara að unnið verður áfram að endanlegri uppsetningu hennar á þeim tíma sem til ráðstöfunar er.

3.Tækjakaup 2018

1810110

Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs um tilfærslu milli liða í fjárhagsáætlun í þeim tilgangi að fjármagna hluta af endurnýjun Avant vél áhaldahússins. Eldri vél verður sett upp í kaupverð hinnar nýju. Milligjöf verður 2.5 m.kr. Byggðarráð samþykkti erindið og leggur það fyrir næsta fund sveitarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

4.Söfnun lífræns úrgangs

1804032

Lögð fram minnisblöð (vinnuskjöl) verkefnisstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs um annars vegar kostnaðarauka við söfnun lífræns úrgangs og hins vegar um hvernig staðið er að þeim málum hjá nokkrum áþekkum sveitarfélögum. Byggðarráð þakkaði minnisblöðin og felur umhverfis- og skipulagssviði að vinna málið áfram m.a. greina kostnaðaráhrif og áhrif annarra samverkandi þátta. Ljóst er að skv. væntanlegri löggjöf verður sveitarfélagið bundið af reglum um söfnum lífræns úrgangs frá 1. janúar 2021.

5.Ósmalaðar jarðir 2018

1810127

Framlagt bréf frá formanni afréttarnefndar Þverárréttaruppreksturs, dags. 23. Október 2018, þar sem hann vekur athygli á að heimalönd jarðanna Skarðshamra, Hafþórsstaða, Hamars, Höfða og Grjóts hafa ekki sinnt lögboðinni skyldu sinni að smala heimalönd jarðanna í tengslum við skilaréttir haustsins. Sveitarstjóra falið að senda viðkomandi landeigendum bréf þar sem þeir eru minntir á fyrrgreindar skyldur sínar sem og hvatt til að uppfylla þær. Að öðrum kosti verði heimalöndin smöluð á kostnað landeigenda.

6.Mannauðsmál

1810095

Lagt fram minnisblað mannauðsstjóra Borgarbyggðar, dags. 20. Október 2018, þar sem farið er yfir stöðu starfsmannamála annars vegar í tengslum við starf byggingarfulltrúa og hins vegar varðandi aukna áherslu á að sinna eldvarnareftirliti í sveitarfélaginu. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að ráða starfsmann til starfa á skipulagssviði í fullt starf, tímabundið í eitt ár.

7.Samþykkt um stjórn Borgarbyggðar - endurskoðun

1808212

Rætt um endurskoðun á samþykktum Borgarbyggðar. Byggðarráð ræddi framkomnar hugmyndir sem lúta að aukinni skilvirkni hjá fastanefndum sveitarfélagsins. Byggðarráð samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að breyta nefndaskipan Borgarbyggðar í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi að skipta Umhverfis, skipulags og landbúnaðarnefnd upp í tvær nefndir, umhverfis-og landbúnaðarnefnd og skipulagsnefnd. Þessar nefndir verði hvor fyrir sig skipuð fimm einstaklingum. Síðan leggur byggðarráð til við sveitarstjórn að sett verði á fót atvinnu, markaðs- og menningarmálanefnd. Sú nefnd verði skipuð þremur einstaklingum. Tillögunni er vísað til fyrri umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar.

8.Ungmennaráð 2018-2019

1810122

Framlagður listi um þá sem skipa ungmennaráð næsta ár ásamt erindisbréfi.
Skipan ungmennaráðs: Byggðarráð leggur til við sveitarstjorn að eftirtaldir verði skipaðir í Ungmennaráð Borgarbyggðar:

Frá Grunnskólanum í Borgarnesi

Elín Björk Sigurþórsdóttir

Elinóra Ýr Kristjánsdóttir


Frá Grunnskóla Borgarfjarðar

Kristján Bjarni Jakobsson

Elías Andri Harðarson


Frá Menntaskóla Borgarfjarðar

Dagbjört Diljá Haraldsdóttir

Arna Hrönn Ámundadóttir

9.Ungmennaþing Vesturlands

1810015

Lögð fram til kynningar dagskrá ungmennaþings sem haldið verður á Laugum í Sælingsdal dagana 2. - 3. nóv. Byggðarráð fagnar því framtaki að komið verði á samræðuvettvangi milli ungmenna á Vesturlandi og kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. Tveir fulltrúar sveitarstjórnar Borgarbyggðar mæta til þings.

10.Heilbrigðisþing 2. nóvember 2018

1810128

Lögð fram til kynningar dagskrá heilbrigðisþings sem haldið verður þann 2. nóvember nk. á Grand hótel, Reykjavík.

11.Aðalfundur Grundartanga ehf þróunarfélags 16.nóv. 2018

1810135

Lagt fram fundarboð aðalfundar Þróunarfélags Grundartanga ehf.
sem haldinn verður í fundarsal stjórnsýsluhúss Hvalfjarðarsveitar þann 16. Nóvember 2018 kl. 15:00. Dagskrá fundarins er í
samræmi við 13 gr. samþykkta félagsins. Byggðarráð tilnefndi Gunnlaug A Júlíusson sveitarstjóra til að sitja fundinn. Byggðaráð leggur til við sveitarstjórn að Guðveig Eyglóardóttir taki sæti í stjórn félagsins fyrir hönd Borgarbyggðar.

12.Persónuvernd heimsækir landsbyggðina

1810129

Lagt fram til kynningar erindi Persónuverndar, dags. 10. Október 2018, um kynningarfund um persónuverndarmál sem haldinn verður í Hjálmakletti. Tímasetning fundarins hefur verið ákveðin fimmtudaginn 22. Nóvember n.k. milli kl. 12:30 og 14:30.

13.Frá nefndasviði Alþingis - 172. mál til umsagnar

1810080

Lögð fram drög að bókun vegna tillögu að samgönguáætlun Alþingis fyrir árin 2019-2028 og 2033: Byggðarráð bókaði eftirfarandi:

Á fundi byggðarráðs þann 18. október 2018 voru lagðar fram til kynningar tvö erindi frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þau voru tillaga til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019 - 2023 og tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019 - 2033. Óskað var umsagnar sveitarfélagsins um fyrrgreindar tillögur. Sveitarstjóra var falið að undirbúa umsögn fyrir næsta fund byggðarráðs. Þar sem fyrrgreindar tillögur eru svo nátengdar er sá kostur valinn að fjalla um þær í einni umsögn.

Umsögn Byggðarráðs um framlagðar tillögur að samgönguáætlun:

Borgarbyggð er með landstærstu og víðfeðmustu sveitarfélögum landsins. Það gefur sveitarfélaginu ákveðna sérstöðu á landsvísu. Ein af sérstöðu sveitarfélagsins er hve búseta er dreifð um sveitarfélagið. Því er vegakerfi mjög umfangsmikið innan þess. Miklu máli varðar að samgöngur séu greiðar í svo landstóru sveitarfélagi, hvort sem er fyrir íbúa í dreifbýlinu til að sækja atvinnu eða þegar þörf er á að að veita þeim margháttaða þjónustu. Um 60% vega á Vesturlandi eru ekki lagðir bundnu slitlagi. Stór hluti þessara malarvega eru innan Borgarbyggðar. Í allri þeirri umræðu um að þörf sé á að leggja sérstaka áherslu á að taka þurfi sérstakt tillit til aukningar á ferðamannastraumi til landsins við áherslur um aðgerðir í vegamálum þá má ekki gleyma því að vegir eru einnig og ekki síður fyrir þá íbúa sem landið byggja. Um 300 km. af vegakerfi Borgarbyggðar eru malarvegir. Víða er ástand þeirra mjög slæmt. Með grófri nálgun má færa að því rök fyrir því að skólaakstur fari fram á um helmingi þessara vega. Þjónusta þarf mjólkurframleiðendur reglubundið á álíka löngum malarvegum. Akstur skólabíla og mjólkurbíla fer þó alls ekki alltaf saman. Mikið af malarvegum og þá sérstaklega á Mýrunum eru illa uppbyggðir og illa viðhaldnir troðningar.

Byggðarráð Borgarbyggðar mótmælir harðlega hve litlir fjármunir eru lagðir til uppbyggingar vegakerfisins innan Borgarbyggðar í langtímaáætlun í samgöngumálum. Ekki er gert ráð fyrir að lagðir séu fjármunir til að ljúka Uxahryggjavegi fyrr en eftir 5-10 ár. Sú leið er gríðarlega mikilvæg hvað varðar bættar samgöngur milli Vesturlands og Suðurlands. Síðan er svokölluð „hjáleið“ framhjá Borgarnesi sett inn á samgönguáætlun eftir 10-15 ár.

Þessi framkvæmd hefur verið inni á samgönguáætlun um áratuga skeið en án þess að af framkvæmdum hafi orðið. Hæpið er því að búast við að úr henni verði á þessu tímabili frekar en á liðnum áratugum. Með hliðsjón af framansögðu þá er ekki að sjá að neinar framkvæmdir í uppbyggingu vega í Borgarbyggð séu fyrirhugaðar á næstu 15 árum þrátt fyrir gríðarlega langt malarvegakerfi sem að verulegu leyti er í mjög lélegu ástandi.

Í samantekt þeirri sem SSV hefur nýlega kemur fram að einungis eigi að leggja 500 m.kr. til nýframkvæmda á Vesturlandi á næstu fimm árum. Það er algerlega óviðunandi niðurstaða. Fjárveitingar til tengivega eru einnig óásættanlegar miðað við umfang og ástand malarvega í sveitarfélaginu.
Þegar litið er til samgönguáætlunarinnar í heild sinni þá vaknar sú spurning hvort eðlilegt sé að setja Vesturland og Vestfirði í einn flokk sem nefnist Vestursvæði. Miklir fjármunir renna til þessa svæðis í samgönguáætlun þeirri sem kynnt hefur verið. Að langstærstum hluta til renna þeir til Vestfjarða vegna þeirra umfangsmiklu framkvæmda sem þar standa yfir eða eru fyrirhugaðar. Ekki skal á nokkurn hátt dregið úr nauðsyn fyrirhugaðra vegabóta á Vestfjörðum. Það kæmi á hinn bóginn miklu skýrar í ljós í þeim tillögum að samgönguáætlun sem lögð hefur verið fyrir Alþingi, hve litla fjármuni er fyrirhugað að leggja í vegaframkvæmdir á Vesturlandi á komandi árum, ef Vesturland stæði eitt og sér í áætluninni.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að óska eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins um samgönguáætlun.

14.Fundargerð Faxaflóahafna sf. 19. október 2018 Fundur nr. 173

1810130

Framlögð fundargerð stjórnar Faxaflóahafna sf. frá 19.10.2018

15.210. fundur í Safnahúsi

1810132

Fundargerð 210. fundar starfsmanna í Safnahúsi lögð fram.

Fundi slitið - kl. 11:12.