Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

472. fundur 29. nóvember 2018 kl. 08:15 - 12:55 í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir formaður
  • Lilja Björg Ágústsdóttir aðalmaður
  • Guðveig Eyglóardóttir aðalmaður
  • Magnús Smári Snorrason áheyrnarfulltrúi
  • Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri
Starfsmenn
  • Eiríkur Ólafsson
Fundargerð ritaði: Kristján Gíslason
Dagskrá

1.Umsókn um styrk og ósk um samstarfssamning

1809017

Framlagt erindi frá Skógræktarfélagi Borgarbyggðar þar sem sótt er um styrk til starfsins ásamt ósk um samstarfssamning milli Skógræktarfélagsins og Borgarbyggðar. Erindi félagsins um styrk er vísað til fjárhagsáætlunar. Byggðarráð tekur undir ósk félagsins um að gerður verði formlegur samstarfssamningur milli sveitarfélagsins og Skógræktarfélags Borgarfjarðar. Það á vel við þar sem skógræktarfélagið hefur starfað í 80 ár á yfirstandandi ári. Byggðarráð óskar félaginu allra heilla á þessum tímamótum og þakkar félaginu gifturíkt og árangursríkt starf á liðnum áratugum. Byggðarráð felur sveitarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs að setja upp tillögu að slíkum samstarfssamning.

2.Slökkvilið Borgarbyggðar - úttekt 2018

1810179

Dóra Hjálmarsdóttir, starfsmaður Verkís kynnti bráðabirgðaniðurstöður úr úttekt þeirri sem unnin hefur verið á stöðu slökkviliðs Borgarbyggðar.
Ragnar Frank Kristjánsson sviðsstjóri og Ingibjörg Guðmundsdóttir mannauðsstjóri sátu fundinn undir þessum lið.
Skýrsludrögin verða send sveitarstjórnarfulltrúum til kynningar og áfram verður unnið að málinu.

3.Skátaskálinn Fluga - styrkumsókn

1811116

Framlögð umsókn Skátafélags Borgarness um fjárhagslegan stuðning við viðhald og enduruppbyggingu Skátaskálans Flugu í Einkunnum. Erindinu er hafnað að svo stöddu. Fyrirhugað er að forma reglur um framkvæmdastyrki til félagasamtaka þar sem verður auglýst eftir umsóknum á árinu 2019.

4.Fjallgirðing yfir Kvíafjall - Endurnýjun

1811127

Lagt fram erindi Afréttarnefndar Þverárréttar um endurnýjun fjallgirðingar yfir Kvíafjall. Erindinu vísað til umhverfis - skipulags - og landbúnaðarnefndar.

5.Afskriftir 2018

1811139

Lagt fram yfirlit um afskriftir á árinu 2018. Gögn um málið voru lögð fram á fundinum. Byggðarráð samþykkti framkomnar tillögur að upphæð 866.811 kr. og leggur þá ákvörðun fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.

6.Fjárhagsáætlun 2019

1806099

Vinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019. Framlagt yfirlit um gjaldskrárbreytingar. Einnig var lagt fram vinnuskjal frá KPMG um "Brúna til framtíðar". Tillaga að framkvæmdaáætlun 2019-2022 lögð fram.
Guðveig Lind Eyglóardóttir lagði fram eftirfarandi bókun "Undirrituð leggur til að sveitarstjórn sýni það með afgerandi hætti að vilji sé til þess að skapa aðlaðandi aðstæður og fara í átak til uppbyggingar á atvinnustarfsemi og eflingu markaðs- og kynningarmála í sveitarfélaginu. Nauðsynlegt er að leggja fjármagn í innspýtingu í verkefni þessu tengt ásamt því t.a.m. að lækka gatnagerðargjöld".
Lilja Björg Ágústsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun f.h. meirihluta byggðarráðs "Í fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 kemur fram skýr vilji til þess að styðja við atvinnurekstur í sveitarfélaginu og gera Borgarbyggð að eftirsóknarverðum stað fyrir fyrirtæki til þess að flytja til með starfssemi sína. Lagt er til að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði úr 1,55% niður í 1,39% og mun sú ákvörðun þýða 18,9 milljónir króna lækkun á tekjum Borgarbyggðar. Einnig er lagt aukið fjármagn í markaðs og kynningarmál og munu þau mál fá töluvert aukið rými innan stjórnsýslunnar bæði með nýsamþykktri stefnu um upplýsinga og lýðsræðismál og í nýrri nefnd sem á að stofna þ.e. atvinnu- markaðs og menningarmálanefnd. Rætt hefur verið um að breyta reglum á gatnagerðargjöldum en árið 2015 fór fram heildarendurskoðun á reglum um gatnagerðargjöld og voru þau lækkuð nokkuð þá. Búið er að óska eftir gögnum varðandi samanburð á gatnagerðargjöldum hjá Borgarbyggð og öðrum sambærilegum sveitarfélögum".
Guðveig Lind Eyglóardóttir leggur fram svohljóðandi bókun "Undirrituð leggur áherslu á að þrátt fyrir lækkun á fasteignaskatti til fyrirtækja og takmarkaðs fjármagns til heimasíðugerðar og kynningarmála hafi engin umræða, formleg eða óformleg átt sér stað um stefnumótun um uppbyggingu og eflingu atvinnumála í sveitarfélaginu sem er grundvallaratriði. Undirrituð bendir á að Borgarbyggð geti t.a.m. litið til vinnu við atvinnustefnu í Dalvíkurbyggð".

7.Borgarbraut 55 - bréf 20.8.2018

1808065

Lagt fram minnisblað Ómars K. Jóhannessonar hdl. og Ásgeirs Jónssonar hrs vegna svars Grana ehf og Bifreiðaþjónustu Harðar ehf við tilboði sveitarfélagsins um lúkningu máls v. Borgarbrautar 55. Í framhaldi verður fundað með lögmönnum og lóðarhafar boðaðir til fundar. Sveitarstjóra falið að boða til fundarins.

8.Gunnlaugsgata 17, Borgarnesi

1811137

Lagður fram tölvupóstur frá fasteignasölu Inga Tryggvasonar þar sem kemur fram að gengið hafi verið að kauptilboði vegna Gunnlaugsgötu 17 og óskað er upplýsinga um hvort sveitarfélagið muni nýta forkaupsrétt sinn. Byggðarráð samþykkti að nýta forkaupsréttinn ekki í þetta sinn og leggur þá ákvörðun fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.

9.Hönnun skólalóðar á Kleppjárnsreykjum - samningur

1811104

Lagður fram verksamningur milli Borgarbyggðar, kt. 510694-2289, og Landlína ehf, kt. 441200-2340, dags. 15. Nóvember 2018 um hönnun lóðar fyrir grunnskóla Borgarfjarðar og leikskólans að Hnoðrabóli að Kleppjárnsreykjum. Byggðarráð samþykkti samninginn og leggur þá ákvörðun fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.

10.Leikskólinn Hnoðraból - viðbygging Kleppjárnsr. - hönnun og ráðgjöf

1811128

Lagður fram verksamningur milli ProArk ehf, kt. 460406-1100 og Borgarbyggðar, kt. 510694-2289 um hönnun og ráðgjöf vegna verksins, Leikskólinn Hnoðraból ? Viðbygging Kleppjárnsreykjum. Byggðarráð samþykkti samninginn og leggur þá ákvörðun fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.

11.Skipun í starfshóp um rafmagn á Mýrum

1811105

Lagt fram erindi sveitarstjóra um skipan í starfshóp sem skal leita leiða til að hraða lagningu þriggja fasa rafmagns í Borgarbyggð. Byggðarráð leggur til að Lilja Björg Ágústdóttir taki sæti í starfshópnum fyrir hönd Borgarbyggðar og leggur þá ákvörðun fyrir sveitarstjórn til staðfestingar. Fyrir hönd Ljósleiðarans í Borgarbyggð leggur byggðarráð til að Guðmundur Daníelsson ráðgjafi taki sæti í starfshópnum og leggur þá ákvörðun fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.

12.Málefni fatlaðra

1811089

Lagt fram minnisblað frá Páli Brynjarssyni, framkvæmdastjóra SSV, þar sem hann rekur eftirfylgni í nokkrum málum sem rædd voru á fundi sveitarstjóra hjá SSV þann 24. Október sl. Þau eru endurskipan á svæðaskiptingu í þjónustu við fatlað fólk, fyrirkomulag sameinaðrar almannavarnarnefndar og möguleikar á sameiginlegu starfi að innkaupamálum.
Magnús Smári víkur af fundi kl. 12:00. Hádegishlé milli kl. 12 og 12:30.

13.Málefni Orkuveitu Reykjavíkur

1811130

Framlögð drög að ályktun um málefni OR.
Málefni Orkuveitu Reykjavíkur.Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir skýrði frá því starfi sem unnið hefur verið að innan OR á síðustu tveimur mánuðum frá því Helga Jónsdóttir tók tímabundið við starfi forstjóra OR. Einnig var skýrt frá niðurstöðum úr úttekt sem Innri endurskoðun Reykjavíkur vann ásamt fleirum um innra starf OR og aðdraganda þeirra mála sem urðu til þess að framkvæmdastjóra ON var sagt upp störfum og forstjóri OR vék tímabundið úr starfi. Byggðarráð þakkar markviss viðbrögð við þeirri stöðu sem kom upp innan OR á haustdögum. Mikilvægt er að bregðast markvisst við þeim atburðum sem áttu sér stað til að orðspor fyrirtækisins og starfsfólks þess verði fyrir sem minnstum álitshnekki. Einnig var mikilvægt að kannað væri til hlítar hvort um undirliggjandi vanda væri að ræða í starfsmannamálum og samskiptum starfsmanna innan fyrirtækisins. Í ljós kom að svo var ekki heldur er innra starf að mannauðsmálum og staða þeirra á flestan hátt til fyrirmyndar. Í úttektinni komu fram ýmsar ábendingar um það sem betur má fara í þessum efnum. Byggðarráð tekur undir nýlega ályktun starfsmannafundar OR um að mikilvægt sé að umræða um fyrirtækið og það starfsfólk sem hjá því vinnur byggi á staðreyndum en ekki upphrópunum og rangfærslum. Í þessu sambandi er rétt að minna á að framlegð og afkoma reksturs OR og dótturfélaganna voru betri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en 2017. Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins var 5.9 ma.kr. Í ljósi þessarar góðu afkomu fyrirtækisins er eðlilegt að knýja á að jafnræði ríki í álagningu þjónustugjalda milli þeirra íbúa sem búa á starfssvæði fyrirtækisins. Íbúar Borgarbyggðar greiða um 42% hærra fastagjald og 62% hærra fermetragjald fyrir neysluvatn og 32,5 % hærra fráveitugjald en íbúar höfuðborgarsvæðisins og á Akranesi.

14.Öldungaráð 21.11.2018 - fundargerð

1811115

Framlögð fundargerð 1. fundar Öldungaráðs frá fundi ráðsins þann 21.11.2018

15.Byggingarnefnd Grunnskólans í Borgarnesi - verkfundir

1806018

Lögð fram fundargerð 22. verkfundar vegna endurbóta grunnskólans í Borgarnesi.

Fundi slitið - kl. 12:55.