Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

487. fundur 02. maí 2019 kl. 08:15 - 12:05 í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir formaður
  • Lilja Björg Ágústsdóttir aðalmaður
  • Davíð Sigurðsson aðalmaður
  • Magnús Smári Snorrason áheyrnarfulltrúi
  • Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri
Starfsmenn
  • Eiríkur Ólafsson
Fundargerð ritaði: Kristján Gíslason
Dagskrá

1.Gunnlaugsgata 21b - erindi

1904096

Framlagt til kynningar bréf Jónínu Ernu Arnardóttur varðandi húsið að Gunnlaugsgötu 21b. Í bréfinu kemur Jónína þeim áherslum sínum á framfæri við sveitarstjórn Borgarbyggðar að bjarga húsinu ef engin tilboð koma í húsið eða einungis tilboð til niðurrifs. Frestur til að gera tilboð í eignina var til 12. apríl sl. Byggðarráð þakkar bréfritara erindið en skv. deiliskipulagi þarf húsið að víkja og bendir á bókun undir 11. lið þessarar fundargerðar.

2.Skipun fulltrúa í stjórn Handverkssjóða FIB 2019

1903106

Tilnefning varamanns í stjórn Handverkssjóðs félags iðnaðarmanna í Borgarnesi. Byggðarráð tilnefnir Ragnar Frank Kristjánsson sviðsstjóra sem varamann í stjórn Handverkssjóðs félags iðnaðarmanna í Borgarnesi og leggur þá ákvörðun fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.

3.Ný lög um opinber innkaup og námskeið.

1904146

Framlagt erindi sviðsstjóra lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 17. apríl sl., þar sem kynnt er að frá og með 31. Maí n.k. munu viðmiðunarreglur laga um opinber innkaup nr. 120/2016 gilda um útboðsskyldu sveitarfélaga. Viðmiðunarfjárhæðir um útboðsskyldu eru kynntar í erindinu. Í tengslum við gildistöku fyrrgreindra laga mun Samband íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við Ríkiskaup standa fyrir námskeiði um innkaupamál sveitarfélaga þann 6. Maí n.k. Byggðarráð þakkar erindið og hvetur hlutaðeigandi starfsmenn til að sækja námskeiðið.

4.Úthlutanir lóða og gatnagerðargjöld

1904073

Tekið til umræðu staða lausra lóða og álagning gatnagerðargjalda í Borgarbyggð. Byggðarráð samþykkti eftirfarandi:

Byggðarráð samþykkir að veita afslátt af gatnagerðargjöldum af þeim lóðum sem úthlutað er á tímabilinu 01.01.2019 til 31.12.2019 til að hvetja til byggingaframkvæmda í sveitarfélaginu:
50% afslátt af gatnagerðargjöldum af íbúðarhúsalóðum þ.m.t. par-, rað- og fjöleignarhúsalóðum sem lögð eru á skv. 4. gr. gjaldskrár fyrir gatnagerðargjald í Borgarbyggð.
100% afslátt af lóðagjöldum (lagt á hvern fermetra lóðar) sem lögð eru á skv. 4. gr. gjaldskrár fyrir gatnagerðargjald í Borgarbyggð.
Byggðarráð bendir á að í gildi eru reglur um greiðslufrest og framkvæmdahraða og verður því fylgt fast eftir að þær verði virtar og vísar þeirri ákvörðun til sveitarstjórnar.


5.Ársskýrsla Safnahúss Borgarfjarðar 2018.

1903019

Ársskýrsla Safnahúss Borgarfjarðar. Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður safnahúss mætir til fundarins. Rætt um safnamál á víðum grundvelli.

6.Umsókn um lóð - Brákarsund 5

1901097

Framlögð umsókn Hoffells ehf um lóð að Brákarsundi 5 dags. 29. Apríl 2019. Afgreiðslu umsóknar frestað og sveitarstjóra falið að ræða við umsækjenda.

7.Úthlutun lóða fyrir rað- eða fjölbýlishús

1904126

Framlagt erindi frá Jóhannesi Stefánssyni varðandi fjölbýlishúsalóðir dags. 17. Apríl 2019. Í erindinu er óskað eftir upplýsingum um hvort Borgarbyggð geti eða vilji úthluta lóðum sem hægt er að hefja framkvæmdir á strax. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort Borgarbyggð vilji úthluta landsvæði sem mætti þróa í samvinnu við skipulagsyfirvöld. Byggðarráð þakkar erindið og bendir á að t.d. eru lausar lóðir til úthlutunar við Fjóluklett, Brákarsund, Flatahverfinu á Hvanneyri og á Varmalandi.
Ennfremur er formanni byggðaeráðs falið að óska eftir fundi með bréfritara um útfærslur á hugmyndum sem koma fram í erindinu.

8.Sóknaráætlun Vesturlands og sviðsmyndagreining um þróun atvinnulífs

1904144

Framlagt til kynningar fundarboð frá SSV, dags. 22. Apríl sl., um íbúaþing á vegum Sóknaráætlunar Vesturlands sem halda á þann 6. maí n.k. kl. 13:00-17:00. Íbúaþingið er haldið undir yfirskriftinni „Mótum framtíð Vesturlands saman“. Byggðarráð þakkar erindið og hvetur kjörna fulltrúa í sveitarstjórn og hlutaðeigandi embættismenn sveitarfélagsins að taka þátt í íbúaþinginu eftir því sem tök eru á.

9.Götulýsing í Borgarbyggð

1904172

Framlagt erindi frá Rarik, dags. 29. Apríl 2019, þar sem kemur fram ósk Rarik að taka upp viðræður við sveitarfélagið um yfirtöku þess á götulýsingu í Borgarbyggð. Sveitarstjóra falið að ræða við Rarik um málið svo og að kynna sér framkvæmd hliðstæðra mála hjá öðrum sveitarfélögum og þær forsendur sem unnið er út frá.

10.Undirbúningur íbúafunda

1904182

Rætt um framkvæmd og fyrirkomulag íbúafunda sem fyrirhugað er að halda í lpk maí og byrjun júní. Sveitarstjóra falið að annast undirbúning í samræmi við umræður á fundinum.

11.Gunnlaugsgata 21b - tilboð

1904149

Framlagt erindi Ámunda Sigurðssonar, dags. 17. apríl 2019, þar sem hann sækir um að fjarlægja húsið að Gunnlaugsgötu 21 B ásamt sökkli af lóð þeirri sem húsið stendur á. Byggðarráð samþykkir erindið og felur sviðsstjóra umhverfis - og skipulagssviðs að ganga frá samningi þar um.

12.Verndun bæjarlandslags í Borgarnesi

1705006

Framlagt erindi umhverfis - og skipulagssviðs, dags. 30. Apríl 2019, þar sem óskað er eftir 3ja m.kr. fjárveitingu til að fjármagna úttekt Náttúrustofu Vesturlands á umfangi og staðsetningu ágengra plöntutegunda í Borgarnesi. Byggðarráð hafnar erindinu og telur að finna þurfi hagkvæmari leiðir að markmiðinu.

13.Ferlagreining

1811144

Framlögð verkefnistillaga Capacent, frá apríl 2019 varðandi ferlagreiningu og gæðastjórnun í stjórnsýslu Borgarbyggðar. Áætlað er að verkinu verði lokið fyrir júnílok 2019. Byggðarráð samþykkir verkefnistillöguna með fyrirvara um að tímaáætlun gangi upp og vísar þeirri ákvörðun til sveitarstjórnar.

14.Arðskrá fyrir Veiðifélag Gljúfurár - úrskurður

1904123

Framlagður til kynningar úrskurður Matsnefndar skv. lögum um lax - og silungsveiði nr. 61/2006 um arðskrá fyrir Veiðifélag Gljúfurár. Úrskurðurinn er dagsettur 9. Apríl 2019. Úrskurðurinn verðar Borgarbyggð vegna Tandrasels og Grísatungu. Mat þeirra hækkar úr 15.1% í 27,03%.

15.Tilkynning um stjórnsýslukæru 24-2019_ IKAN ehf.

1904099

Framlögð tilkynning Úrskurðarnefndar umhverfis - og auðlindamála um stjórnsýslukæru nr. 24/2019 vegna útgáfu byggingarleyfis vegna Egilsgötu 6, Borgarnesi.

16.Fjárhagsáætlun sveitarfélaga - eftirlit_bréf

1904167

Framlagt til kynningar bréf Samgöngu - og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 23. Apríl 2019, þar sem kemur fram niðurstaða úr frumkvæðisathugun ráðuneytisins á hvernig hafi verið staðið að framkvæmd fjárhagsáætlana þar sem frávik voru umfram 5% frá upphaflegri fjárhagsáætlun á árinu 2016.

17.Arðgreiðsla 2019

1904166

Framlögð tilkynning Lánasjóðs sveitarfélaga um arðgreiðslu að upphæð 5.945.690.- að frádregnum fjármagnstekjuskatti.

18.Lánasjóður sveitarfélaga - breytilegir útlánavextir 1. maí 2019

1904129

Framlögð tilkynning frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf um breytta verðtryggða vexti. Vextir sjóðsins lækka úr 2.55% í 2.40% frá og með 1. maí 2019.

19.Niðurfelling héraðsvega í Borgarbyggð_tilkynning

1904114

Framlagt bréf Vegagerðarinnar, dags. 8. Apríl 2019, þar sem tilkynnt er um niðurfellingu nokkurra héraðsvega af vegaskrá. Um er að ræða eftirfarandi vegi:
a.
Ánabrekkuvegur frá Litlu Brekku að Ánabrekku
b.
Brennuvegur
c.
Deildartunguvegur
d.
Kvígsstaðavegur
e.
Munaðarnesnesvegur
f.
Sigmundarstaðavegur
Byggðarráð getir athugasemdir við að Deildartunguvegur skuli felldur af vegaskrá. Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma athugasemd þess efnis á framfæri við Vegagerðina.

20.Reiðhöllin Vindás ehf - aðalfundur 2019

1904121

Framlagt fundarboð á aðalfund Reiðhallar Vindási ehf. sem haldinn verður fimmtudaginn 2. Maí kl. 17:30. Byggðarráð tilnefnir Lilju Björg Ágústdóttir fulltrúa sveitarfélagsins á aðalfundinn.

21.Félagslegt leiguhúsnæði

1810002

Frá velferðarnefnd:
Verkefnissjóri framkvæmdasviðs kom á fund velferðarnefndar og fór yfir viðhaldsþörf á félagslegu leiguhúsnæði sveitarfélagsins. Nefndin telur að marka þurfi stefnu um félagslegt húsnæði sveitarfélagsins og aðkomu sveitarfélagsins að uppbyggingu leiguhúsnæðis í samvinnu við aðra. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að skipaður verði starfshópur til að móta stefnuna.
Byggðarráð ræddi stöðuna varðandi viðhaldsþörf á félagslegu húsnæði í eigu sveitarfélagsins. Byggðarráð samþykktir að fela Halldóru Lóu Þorvaldsdóttir, Magnúsi Smára Snorrasyni og Silju Eyrúnu Steingrímsdóttur ásamt félagssmálastjóra og verkefnisstjóra eignasjóðs að hefja vinnu við samantekt um félagslegt húsnæði og tillögur í framhaldi af því.
Davíð Sigurðsson fer af fundi kl. 11:35.

22.Til umsagnar 778. mál frá Alþingi_Þjóðgarðastofnun

1904116

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða, 778. mál. Byggðarráð samþykkti eftirfarandi umsögn: Starfsemi þjóðgarða hefur aukist verulega á undanförnum árum. Með stofnun miðhálendisþjóðgarðs myndi stærð og umfang þjóðgarða á Íslandi aukast gríðarlega til viðbótar. Í því samhengi hefur verið rædd nauðsyn þess að setja á stofn Þjóðgarðastofnun Íslands. Sveitarstjórn Borgarbyggðar tekur undir þá skoðun. Í því sambandi vill byggðarráð Borgarbyggðar skora á umhverfisráðherra og þingmenn kjördæmisins að beita sér fyrir því að slík stofnun verði sett niður á Hvanneyri í Borgarfirði. Fyrir þeirri afstöðu liggja margvísleg rök sem eru tilgreind hér enn frekar. Mikilvægt er að fagstofnun sem Þjóðgarðastofnun yrði sé fundinn staður þar sem hún yrði landfræðilega vel staðsett, myndi starfa í nánum tengslum við meginviðfangsefni sitt og hefði faglegan og samfélagslegan styrk af sínu nánasta umhverfi. Allar þessar forsendur eru til staðar á Hvanneyri í Borgarfirði. Það er skýrt enn frekar út hér:

I.
Jörðin Hvanneyri og nánasta umhverfi hennar í Andakíl í Borgarfirði hefur hlotið formlega viðurkenningu sem friðland. Landsvæðið var friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum árið 2002 og friðlandið síðan stækkað enn frekar árið 2011. Árið 2013 fékk landsvæðið viðurkenningu sem Ramsarsvæði, en það er alþjóðlegt búsvæði fugla. Það undirstrikar enn frekar sérstöðu þessa svæðis. Gömlu húsin á Hvanneyri og engjarnar voru síðan friðlýst í heild sinni sem sérstakt búsetuminjasvæði árið 2015. Það er einstakt á Íslandi að heilt búsetuminjasvæði, sem nær bæði yfir byggingar og nærliggjandi landsvæði, sé friðlýst sem ein heild.
II.
Í Borgarbyggð eru sex önnur friðlönd og fjöldi landsvæða á náttúruminjaskrá. Hluti sveitarfélagsins nær inn á miðhálendið eins og það hefur verið skilgreint. Þar má nefna stóran hluta Langjökuls, Eiríksjökul, Geitland, Hallmundarhraun, Arnarvatnsheiði og Tvídægru.
III.
Hvanneyri er í þjóðbraut eins og leið liggur milli Snæfellsnes, Vestfjarða, Norðurlands, Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins. Fjarlægðir frá Hvanneyri til Borgarness eru 12 km, að Þingvöllum rúmir 50 km eftir Uxahryggjaleið, til Reykjavíkur eru 70 km og vestur á Snæfellsnes eru 80 - 100 km.
IV.
Við Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) hefur undanfarin 15 ár verið starfrækt kennslubraut í þjóðgarðafræðum og náttúruvernd. Fjöldi B.s. og M.s. nema hafa verið útskrifaðir frá námsbrautinni á þeim tíma sem hún hefur starfað.
V.
LbhÍ er með fjölbreytt nám í landnýtingu s.s. búfræði, búvísindum, umhverfisskipulagi, skógrækt og landgræðslu. Landsvæði skólans er tilraunastöð í landnýtingu s.s. í landbúnaði, náttúruvernd og minjavernd. Umhverfi skólans bíður upp á fjölbreytta möguleika fyrir tilraunir í mannvirkjagerð sem víða er notuð á friðlöndum s.s. stígagerð.
VI.
Vorið 2019 var opnuð gestastofa í Halldórsfjósi á Hvanneyri. Gestir stofunnar fá þar tækifæri til að fræðast um fuglalífið í friðlandinu Andakíl.
VII.
Gamli skólinn og skólastjórahúsið eru nátengd þróun og uppbyggingu búfræðimenntunar á Íslandi. Þessar byggingar eru í eigu ríkisins en hafa lítið verið nýttar eftir að hinu upprunalega hlutverki þeirra lauk þrátt fyrir að vera í mjög góðu ástandi. Kjörið tækifæri er því til að koma þar fyrir starfsemi sem tengist opinberri stjórnsýslu og náttúruvernd. Þjóðgarðastofnun Íslands er tilvalinn kostur í því sambandi.
VIII.
Á Hvanneyri er að finna leikskóla, grunnskóla, háskóla, ráðgjafaþjónustu í landbúnaði, landgræðslu og skógrækt svo nokkuð sé nefnt af þeirri starfsemi sem er að finna á staðnum. Mötuneyti er við LBHÍ og við háskólann er starfrækt endurmenntunar-deild. Gistiheimili hefur verið rekið á staðnum á sumrin.

Byggðarráð Borgarbyggðar lýsir sig reiðubúið til að ræða áherslur sveitarfélagsins um stofnun miðhálendisþjóðgarðs við umhverfisráðherra í tengslum við ofangreinda umsögn. Einnig lýsir byggðarráð því yfir að það telur stofnun miðhálendisjóðgarðs jákvætt skref til að efla vörslu og verndun hálendisins.“

23.Til umsagnar 784. mál frá Alþingi - eftirlit með gististarfsemi

1904111

Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (stjórnvaldssektir og eftirlit með gististarfsemi), 784. mál.

24.Til umsagnar 775. mál frá Alþingi - mat á umhverfisáhrifum

1904112

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum (EES-reglur, stjórnvaldssektir o.fl.), 775. mál.

25.Frá Alþingi - 792, 791 og 782. mál til umsagnar

1904117

Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku), 792. mál.
Tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 791. mál.
Frumvarp til laga um breytingu á raforkulög8um og lögum um Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði), 782. mál

26.221. fundur í Safnahúsi

1904127

Framlögð fundargerð starfsmanna Safnahúss nr. 221.

27.Fundargerð 870. fundar stjórnar sambandsins

1904102

Fundargerð 870. fundar stjórnar sambandsins framlögð

28.Byggingarnefnd Leikskólans Hnoðrabóls - fundargerðir

1810004

Framlagðar fundargerðir 7. fundar byggingarnefndar Leikskólans Hnoðrabóls f. 2.4. 2019

29.Fagráð Slökkviliðs Borgarbyggðar - fundargerðir 2019

1901163

Framlögð fundargerð 4. fundar fagráðs Slökkviliðs Borgarbyggðar

30.Fundargerðir siglingaráðs nr. 10-13

1904101

Framlagðar fundargerðir Siglingaráðs nr. 10-13.

31.Fundargerð 411. og 412. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands

1904100

Framlögð fundargerð 412. fundar stjórnar Hafnasambands íslands

32.Aðalfundur Veiðifélags Gljúfurár 8.4.2019

1903204

Framlögð fundargerð aðalfundar Veiðifélags Gljúfurár frá 8. apríl 2019.

Fundi slitið - kl. 12:05.