Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

491. fundur 06. júní 2019 kl. 08:15 - 11:17 í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir formaður
  • Lilja Björg Ágústsdóttir aðalmaður
  • Magnús Smári Snorrason áheyrnarfulltrúi
  • Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri
Starfsmenn
  • Eiríkur Ólafsson
Fundargerð ritaði: Kristján Gíslason
Dagskrá

1.Samanburður við fjárhagsáætlun 2019

1903152

Framlagðar niðurstöður úr rekstri Borgarbyggðar fyrir tímabilið jan - apríl 2019 ásamt samanburði við niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir sama tímabil. Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kynnti niðurstöðurnar. Frávik milli rauntalna og áætlunar eru óveruleg í heildina tekið.

2.Orkuveita Reykjavíkur - samningar

1904152

Lögfræðiráðgjöf vegna yfirferðar samnings Borgarbyggðar og OR. Kristinn Bjarnason hrl., lögmaður hjá Lagastoð, mætti til fundarins. Hann fór yfir ýmis atriði sem varða innihald og efni samninga milli Borgarbyggðar og Orkuveitu Reykjavíkur um veitumál.
Formaður byggðarráðs lagði fram tillögu þess efnis að gengið verði til samninga við Kristinn Bjarnason hrl. um að annast lögfræðiráðgjöf vegna yfirferðar á samningum milli Borgarbyggðar og Orkuveitu Reykjavíkur. Sveitarstjóra var falið að annast samninga við Kristinn um málið. Byggðarráð samþykkti ráðninguna og leggur þá ákvörðun fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.

3.Áskorun um húsnæðismál

1905134

Björn Traustason, framkvæmdastjóri byggingarfélagsins Bjargs, mætti til fundarins og kynnti starfsemi félagsins. Byggðarráð felur sveitarstjóra að hafa samband við Stéttarfélags Vesturlands til að kanna þörf fyrir uppbyggingu á húsnæði af þessu tagi.

4.Umsókn um lóð - Brákarsund 5

1906003

Framlögð umsókn Hoffells ehf um lóðina Brákarsund 5.
Framlögð umsókn Hoffells ehf um lóðina Brákarsund 5. Kt. 5001180670, til heimilis að Þrúðsölum 3. 201 Kópavogi.
Byggðarráð úthlutar Hoffelli ehf lóðinni með þeim fyrirvara að það takist samningar um eðlilegt endurgjald fyrir grunn þann sem er til staðar á lóðinni. Byggðarráð felur sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að annast samningana.

5.Refir í Borgarbyggð vor 2019

1906001

Framlagt minnisblað Hrafnhildar Tryggvadóttur um niðurstöður samtala við refaskyttur um refi og refaveiði vorið 2019 ásamt ábendingu um refi og umgengni í friðlandi í Andakíl.
Byggðarráð samþykkir að auka framlag til eyðingar refa um kr. 600.000.-

6.Fundargerð byggðarráðs nr. 490 - liður 4, leiðrétting

1906008

Framlögð ábending um að nafn hafi ranglega hafi verið skráð undir lið 4 í fundargerð byggðarráðs nr. 490. Skráð var í fyrrgreinda fundargerð að Ásgeir Sæmundsson hefði lagt fram stjórnsýslukæru vegna málsmeðferðar Bæjargils á Húsafelli. Hið rétta er að Haukur Ásgeirsson, Lækjasmára 2, 201 Kópavogi, lagði fram fyrrgreinda kæru. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

7.Metangasbrennari - Kyndill gangsettur 19. júní kl. 17

1906021

Framlagt til kynningar boð Sorpurðunar Vesturlands, dags. 3. Júní sl. til sveitarstjórnar Borgarbyggðar á opinn dag að Fíflholtum þann 19. júní. Þennan dag verður metangasbrennari í Fíflholtum tekinn formlega í notkun. Byggðarráð þakkar boðið og hvetur kjörna fulltrúa í sveitarstjórn Borgarbyggðar til að mæta í boðið og kynna sér starfsemi urðunarstaðarins að Fíflholtum.

8.Grænbók - stefna um málefni sveitarfélaga

1905168

Grænbók um stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga var lögð fram til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í lok apríl. Í henni koma fram fyrstu drög að niðurstöðum starfshóps sem skal vinna að stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga í landinu. Skjalinu er ætlað að hvetja til umræðu um núverandi stöðu, helstu viðfangsefni og framtíðarsýn fyrir sveitarstjórnarstigið ásamt áherslum og ólíkum leiðum. Þann 16. maí sl. var haldinn kynningarfundur um verkefnið fyrir fulltrúa sveitarfélaganna á Vesturlandi. Á fundinum komu m.a. fram þau viðhorf að sá tími sem sveitarfélögunum er ætlaður til að fjalla um verkefnið sé of skammur svo hægt sé að setja fram ítarlega og vel unna umsögn. Þá er bæði tekið mið af bæði umfangi verkefnisins svo og þeirri vinnuáætlun sem kynnt var á fundinum.

Byggðarráð Borgarbyggðar hefur á þeim tíma sem gefist hefur einungis náð að fjalla lauslega um efni Grænbókarinnar. Því er meðfylgjandi samantekt langt í frá endanleg yfirferð eða afstaða kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn Borgarbyggðar um þetta mikilvæga mál. Rétt þykir þó að fara yfir nokkur atriði sem fjallað er um í Grænbókinni.

a.
Gæta skal að sjálfstjórn sveitarfélaga og rétti þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, svo sem verkefnum og fjárhag.

Mikilvægt er að skilgreina vel hvað átt er við með „sjálfstjórn sveitarfélaga“. Alþingi felur sveitarfélögunum margháttuð verkefni með setningu laga. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru tekjustofnar sveitarfélaga skilgreindir. Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um fyrirkomulag á innra vinulagi sveitarfélaga og fastanefnda. Í stjórnsýslulögum er kveðið á um framkvæmd og fyrirkomulag á stjórnsýslu sveitarfélaga. Margháttað eftirlit er með stjórnsýslu sveitarfélaga bæði hvað varðar fræðslumál, félagsþjónustu þeirra, umhverfismálum, byggingar- og skipulagsmálum og fjármálum svo dæmi séu nefnd. Ekki er óeðlilegt að álykta að eftir því sem ríkisvaldið felur sveitarfélögunum fleiri og flóknari verkefni þá aukist eftirlit ríkisvaldsins með framkvæmd sveitarfélaganna á þeim verkefnum sem þeim eru falin og sjálfstjórn þeirra minnki.

b.
„Tryggja skal að sveitarfélög uppfylli allar laga- og reglugerðarskyldur sínar og þannig verði jafnræðis gætt gagnvart íbúum alls landsins. Það komi þó ekki í veg fyrir aðlögun að staðbundnum þörfum og möguleikum á sveigjanlegum lausnum við framkvæmd þjónustu.

Í þessari málsgrein virðist vera ákveðin þversögn þar sem yfirleitt er í lögum og reglugerðum gefið mjög lítið svigrúm á sveigjanlegum lausnum við framkvæmd staðbundinnar þjónustu.

c.
„Við setningu laga og reglugerða um málefni sveitarfélaga skal leitast við að svigrúm einstakra sveitarfélaga verði eins mikið og kostur er með hliðsjón af þörfum íbúanna.“

Ekki liggur ljóst fyrir hvað þessi málsgrein felur í sér.

d.
„Sveitarfélögin á Íslandi eiga að vera öflugar og sjálfbærar staðbundnar stjórnsýslueiningar sem eru ein meginstoð velferðar íbúanna.“

Nauðsynlegt er að ræða hvaða skilyrði sveitarfélag þarf að uppfylla svo hægt sé að kalla það „öfluga og sjálfbæra stjórnsýslueiningu“? Í þessu sambandi er rétt að minna á að ekkert lágmark er lengur á íbúafjölda sveitarfélags. Fram að gildistöku núverandi sveitarstjórnarlaga árið 2010 var kveðið á um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags skyldi vera 50. Er það „öflugt og sjálfbært sveitarfélag“ sem hefur lítið sem ekkert innri stofnanakerfi til að annast þjónustu við íbúa sína heldur byggir starfsemi sína því sem næst alfarið á þjónustusamningum við nágrannasveitarfélag?

e.
„Sveitarfélög þurfa að vera í stakk búin til að takast á við samfélagsbreytingar og byggðaþróun. Þau þurfa að vera afl til uppbyggingar og sóknar til hagsbóta fyrir íbúa sína og landsmenn alla.“

Sveitarfélögunum eru skammtaðir tekjustofnar til að veita íbúum sínum lögskipaða þjónustu. Miðað við fyrirkomulag þeirra hafa þau lítið svigrúm til að takast á við sveiflur í atvinnulífinu ef atvinnuástand versnar. Í samdrætti í atvinnulífinu helst það yfirleitt í hendur við að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins veikist. Sveitarfélögin í landinu eru ekki í stakk búin til að axla ábyrgð á viðbrögðum við óhagstæðri byggðaþróun þar sem þörf reynist á slíku. Það verkefni hlýtur ætíð að vera hlutverk ríkisvaldsins.

f.
Kjörnir fulltrúar

Þegar fjallað er um þróun sveitarstjórnarstigsins og hvernig megi styrkja það til framtíðar litið er óhjákvæmilegt að fjalla ítarlega um hina miklu endurnýjun í hópi kjörinna fulltrúa sem átt hefur sér stað í allnokkrum undanförnum kosningum til sveitarstjórna, ástæður þessarar þróunar og hvernig eigi að bregðast við henni. Styrkur sveitarstjórnarstigsins hlýtur meðal annars að liggja í því að það byggist upp nauðsynleg þekking og reynsla hjá kjörnum fulltrúum sem nýtist við framkvæmd stjórnsýslunnar.

g.
Byggðarþróun og sjálfbærni sveitarfélaga.

Í kafla 5.9. er fjallað um byggðaþróun og sjálfbærni sveitarfélaga. Í kaflanum er dregin fram margháttuð tölfræði um byggðaþróun eftir landshlutum. Athygli vekur að ekki er leiddar fram upplýsingar um þá þróun í íbúafjölda sem hefur átt sér stað innan einstakra landshluta. Almennt má segja að þróunin hafi verið víða í dreifbýlinu á þann veg að þau sveitarfélög og byggðarlög sem liggja lengt frá stærstu byggðarkjörnunum hafi veikst en stærri byggðarkjarnar innan landshlutans styrkst. Þannig getur ákveðin þróun í búsetu hafa átt sér stað innan einstakra landshluta sem kemur ekki fram þegar þróun landshlutans er skoðuð í heild sinni.

h.
Samtök sveitarfélaga

Í umfjöllun um samtök sveitarfélaga er fjallað bæði um Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.

Hvað sambandið varðar er í eftirfarandi texta fjallað um starfsemi þess:
„Stór hluti af starfsemi sambandsins felst í að vinna að hvers kyns hagsmunamálum
sveitarfélaganna, þ.m.t. hagsmunagæslu þeirra gagnvart ríkinu. Þá hefur hlutverk sambandsins í kjaramálum aukist til muna á síðustu árum, svo og þátttaka þess í alþjóðlegu samstarfi, sérstaklega á grundvelli EES-samningsins.“

Eðlilegt hlýtur að vera að ræða hvort fyrrgreindar áherslur séu alfarið í samræmi við þarfir sveitarfélaganna.

Hvað landshlutasamtökin varðar eru lagðar eftirfarandi áherslur um það starf sem framundan er í vinnu starfshópsins.

„Verkefni starfshópsins er því einkum að meta stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga með það að markmiði að skýra hlutverk þeirra og stöðu gagnvart annars vegar sveitarfélögum og hins vegar ríkinu.“

Tekið skal undir það að nauðsynlegt er að ræða stöðu landshlutasamtakanna í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af starfsemi þeirra. Er t.d. verið að að byggja upp þriðja stjórnsýslustigið í landinu án þess að um það hafi verið tekin ákvörðun?

Mikilvægt er síðan að fjalla um hver reynslan var þegar svo flókið og umfangsmikið verkefni eins og málefni fatlaðs fólks var flutt til sveitarfélaganna og byggja þurfti upp umfangsmikið fyrirkomulag samstarfsverkefna milli einstakra sveitarfélaga um framkvæmd þess í framhaldi af yfirfærslunni.

i.
Sveitarfélög á Norðurlöndum (í öðrum norrænum ríkjum).

Í Grænbókinni er stuttlega er minnst á breytingar á skipan sveitarstjórnarstigsins í öðrum norrænum ríkjum frá aldamótum sem áttu það sammerkt að efla og styrkja sveitarstjórnarstigið með sameiningum og fleiri aðgerðum. Athygli vekur að ekkert er minnst á þá uppstokkun skipan sveitarfélaga í Danmörku sem átti sér stað á árunum 2001 ? 2007. Með þeirri aðgerð fækkaði sveitarfélögum í Danmörku úr ca. 285 í 98. Einnig var fyrirkomulag amtanna (þriðja stjórnsýslustigsins) endurskipulagt frá grunni. Í þessu verkefni var beitt ákveðinni aðferðafræði sem þverpólitísk sátt var um.

j.
Lykilviðfangsefni

Í lok Grænbókarinnar eru settar fram 50 spurningar sem eiga að hjálpa til við viðbrögð og álitsgerðir í því samráðsferli sem framundan eru. Ekki hefur á þeim skamma tíma sem liðinn er, síðan verkefnið var lauslega kynnt fyrir kjörnum fulltrúum Borgarbyggðar, gefist tími til að fara efnislega yfir þá umræðu sem tengist fyrrgreindum spurningum. Stefnt er að því að sveitarstjórn nái að ljúka þeirri umræðu fyrir landsþing sveitarfélaganna í byrjun september þar sem fyrrgreint verkefni verður eina viðfangsefni fundarins.

9.Fundargerðir ráðningarnefndar 2019

1902083

Framlögð fundargerð ráðningarnefndar Borgarbyggðar dags. 3.6.2019

10.Fundargerð 871. fundar stjórnar sambandsins

1906025

Framlögð fundargerð 871. fundar stjórnar sambandsins

11.Fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur nr, 274 dags.8.4.2019

1906018

Framlögð fundargerð stjórnar OR nr. 274 frá 8.4.2019

12.Innkauparáð Borgarbyggðar - fundargerð 03.06.2019

1906023

Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 03.06.'19

13.Fundur stofnaðila Hugheima 4.6.2019

1906048

Framlögð fundargerð stofnaðila Hugheima frá 4.6.2019.
Byggðarráð tilnefnir formann Atvinnu - markaðs - og menningarmálanefndar, Sigurð Guðmundsson sem fulltrúa Borgarbyggðar í stjórn Hugheima og Magnús Smára Snorrason til vara og vísar þeirri ákvörðun til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Fundi slitið - kl. 11:17.