Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

501. fundur 26. september 2019 kl. 08:15 - 11:22 í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir formaður
  • Lilja Björg Ágústsdóttir aðalmaður
  • Davíð Sigurðsson aðalmaður
  • Magnús Smári Snorrason áheyrnarfulltrúi
  • Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri
Starfsmenn
  • Eiríkur Ólafsson
Fundargerð ritaði: Kristján Gíslason
Dagskrá
Samþykkt í upphafi fundar að bæta við tveimur liðum á dagskrá fundar - um framtíðarskipan leikskóla og endurbætur á Sólbakka 13 - 15.

1.Samanburður við fjárhagsáætlun 2019

1903152

Framlagður samanburður rauntalna úr rekstri fyrstu átta mánuði ársins 2019 við fjárhagsáætlun 2019. Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs kynnti niðurstöðurnar. Tekjur eru 18,5 m.kr. hærri en áætlað var. Heildarlaunakostnaður er í heildina tekið um 16 m.kr. lægri en ætlað var á tímabilinu en nokkur munur er á milli einstakra deilda til beggja átta hvað þessa stöðu varðar. Einnig var lagt fram yfirlit um stöðu framkvæmda miðað við fjárhagsáætlun ársins. Fyrstu átta mánuði ársins hefur verið framkvæmt fyrir 516,3 m.kr. en heildarfjárfestingaráætlun fyrir árið hljóðar upp á 865 m.kr.

2.Bifröst - elstu húsin, undirbúningur friðlýsingar

1909129

Framlagt bréf Minjastofnunar Íslands dags. 5. september 2019, þar sem kynnt eru áform um undirbúning fyrirhugaðrar friðlýsingar elstu skólahúsanna á Bifröst.
Byggðarráð Borgarbyggðar lýsir ánægju sinni með fyrirhuguð áform að friðlýsingu elstu skólahúsanna að Bifröst. Það hafa um áratugaskeið gefið skólasetrinu á Bifröst og nánasta umhverfi þess sterkt og virðulegt yfirbragð. Í þessu sambandi er þó rétt að minna á að friðlýsing húsnæðis eins og hér um ræðir má ekki verða til þess að þau nýtist ekki á eðlilegan hátt þeirri starfsemi sem fer fram í Háskólanum á Bifröst. Friðlýsingu húsa fylgja allnokkrar kvaðir. Því er það mikilvægt þegar opinberir aðilar eins og Minjastofnun Íslands leggur til við Mennta- og menningarmálaráðuneytið að umrædd hús verði friðlýst að þá sé tryggt eftir því sem kostur er að nauðsynlegir fjármunir fylgi friðlýsingunni svo öruggt sé að umræddum mannvirkjum sé sýndur sá sómi sem þeim ber hvað varðar viðhald og möguleikum á eðlilegri notkun þeirra.

3.Heimild landeig. v. lagningu ljósleiðara á Holtavörðuheiði

1909112

Framlagður samningur milli Orkufjarskipta og Borgarbyggðar, dags. 12. September 2019, um legu ljósleiðara um land Borgarbyggðar á Holtavörðuheiði.
Erindið lagt fram til kynningar. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.

4.Fundur með þingmönnum Norðvesturkjördæmis, okt 2019

1909146

Framlögð tilkynning um fund með þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem haldinn verður á Akranesi þann 2. okt. 2019. Byggðarráð hvetur kjörna fulltrúa og sveitarstjóra til að mæta til fundarins.

5.Beiðni um aukið fé til íþrótta

1811071

Framlagt ódagsett erindi UMSB þar sem óskað er eftir hækkun fjárframlaga til starfsstyrkja fyrir komandi ár. Sigurðður Guðmundsson framkvæmdastjóri UMSB ásamt Bjarna Þór Traustasyni og Sigríði G Bjarnadóttur stjórnarmönnum UMSB mættu til fundarins og skýrði erindið.
Byggðarráð þakkar UMSB gott samstarf í málefnum barna og unglinga á sambandssvæðinu á liðnum árum. Erindinu er vísað til fjárhagsáætlunar.

6.Arfur Þorsteins frá Hamri - stofnsamþykktir

1909148

Framlögð til kynningar samþykktir fyrir félagið „Arfur Þorsteins frá Hamri“ sem samþykktar voru á stofnfundi þess þann 3. maí 2019. Tilgangur félagsins er að gera minningu Þorsteins frá Hamri skil með þeim hætti að verk hans og arfleifð verði sem virkastur þáttur í íslensku menningarlífi á komandi tíð.
Byggðarráð Borgarbyggðar lýsir ánægju sinni með stofnun félagsins og vonast eftir góðu samstarfi við það í framtíðinni.

7.Raforkuverð til stóriðju á Grundartanga - ályktun

1909149

Rætt um þróun raforkuverðs til stóriðju á Íslandi og hvaða áhrif hún getur haft á starfsumhverfi þeirra fyrirtækja sem starfrækt eru á Grundartanga. Í þessum fyrirtækjum vinna tugir starfsmanna sem búsettir eru í Borgarbyggð. Því skiptir framtíð þessara fyrirtækja íbúa Borgarbyggðar miklu máli ekki síður en íbúa Hvalfjarðarsveitar og Akraness.

Núverandi atvinnustarfsemi á Grundartangasvæðinu hefur byggst upp á löngum tíma. Hún hefur verið gríðarlega fyrir þróun byggðar á Vesturlandi. Atvinnulíf á
Akranesi, í Hvalfjarðarsveit og í vaxandi mæli í Borgarbyggð sækir styrk sinn og stöðugleika á verulegan hátt til þessara fyrirtækja. Nærri lætur að um 1.100 bein störf
séu í þeim 20 atvinnufyrirtækjum sem þar reka starfsemi. Annar eins fjöldi afleiddra starfa tengist þjónustu við þessi fyrirtæki og þá sérstaklega stærstu fyrirtækin Elkem
og Norðurál. Mikilvægi þessara vinnustaða er því gríðarlega mikið fyrir samfélagið.
Ekki má í því sambandi heldur gleyma mikilvægi atvinnustarfseminnar á Grundartanga fyrir rekstur fyrrgreindra sveitarfélaga sem hafa það hlutverk að veita íbúunum lögbundna þjónustu.
Ötullega hefur verið unnið að því undanfarin ár á vettvangi samstarfs Þróunarfélags Grundartanga, Norðuráls, Elkem, Faxaflóahafna og fyrrgreindra sveitarfélaga að
finna, greina og nýta þau tækifæri sem svæðið býr yfir til vaxtar og aukinnar verðmætasköpunar. Þar hefur sérstök áhersla verið lögð á umhverfismál, nýsköpun og fullnýtingu efnis- og auðlindastrauma á sviði orkuvinnslu og orkuendurvinnslu sem nýtt verði til uppbyggingar nýrra fyrirtækja með tilheyrandi fjölgun starfa. Því miður er nú margt sem bendir til þess að sú mikla vinna sé unnin fyrir gíg vegna breytinga á rekstrarumhverfi orkukræfs iðnaðar á Íslandi. Afleiðingar þessa má m.a. sjá í
niðurstöðu gerðardóms um orkuverð til Elkem á Grundartanga.
Stjórnvöld á Íslandi sköpuðu orkukræfum iðnaði góð skilyrði til rekstrar með sanngjörnu raforkuverði og fengu með því til sín öflug fyrirtæki sem mörg hver hafa verið í rekstri um áratugaskeið. Þau hafa greitt há laun og haft mjög jákvæð áhrif á uppbyggingu sinna nærsamfélaga. Jafnframt hafa þau lagt mikið af mörkum til uppbyggingar raforkuinnviða samfélagsins í heild. Að auki er rétt að benda á mikilvægi framleiðsluvara fyrirtækja á Grundartanga sem eru lykilframleiðendur ýmissa sérvara sem leitað er eftir til lausnar í þeim orkuskiptum sem nú eru að eiga sér stað og kallað er eftir á heimsvísu.
Nú er hins vegar svo komið að rekstrarumhverfi orkukræfs iðnaðar á Íslandi hefur versnað til muna og það samkeppnisforskot sem hér var í orkuverði er horfið.
Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að minna einnig á það háa orkuverð sem garðyrkjubændur, sem framleiða vörur sem eru í beinni samkeppni við ríkisstyrkta erlenda framleiðslu, þurfa að greiða til Landsvirkjunar. Sú verðstefna sem greinin hefur búið við á undanförnum árum og áratugum hefur gert það að verkum að hún er smám saman að láta undan. Framleiðendum fækkar og endurnýjun í greininni er mjög lítil.
Því vill byggðarráð Borgarbyggðar minna á að í fyrirhugaðri orkustefnu íslenskra stjórnvalda má finna eftirfarandi leiðarljós:

Að hámarka samfélagslegan ávinning af nýtingu orku
Stuðningur stefnunnar við atvinnustefnu og samspil við lykilatvinnugreinar
Stuðningur stefnunnar við byggðastefnu og jákvæða byggðaþróun til lengri tíma.

Byggðarráð Borgarbyggðar hvetur íslensk stjórnvöld til að beita sér fyrir endurskoðun á núverandi stefnu hvað varðar verðlagningu raforku til orkukræfs iðnaðar og garðyrkju á Íslandi.

8.Gerð hluthafasamkomulags v. Menntaskóla Borgarfjarðar

1908388

Framlagt minnisblöð frá Kristni Bjarnasyni hrl. dags 6. September 2019 og 24. september 2019, þar sem hann leggur fram tillögur að breytingum að samþykktum fyrir Menntaskóla Borgarfjarðar hf. Tillögurnar miða að því að skýra betur stöðu stjórnar Menntaskóla Borgarfjarðar og styrkja stöðu stjórnarformanns félagsins.
Lagðar verða fram tvær tillögur að breytingum a samþykktum félagsins sem kynntar verða hluthöfum. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.

9.Umsókn um lóðir - Fífuklettur 1-8 og Sóleyjarklettur 2 og 4

1909083

Framlögð að nýju umsókn frá Steypustöðinni hf. um tvær raðhúsalóðir við Fífuklett 1-7 og 2-8. Fram kom að Hoffell hf. dró umsókn sína um lóðir að Fífukletti 1-8 til baka með tölvupósti þann 23. september sl.
Byggðarráð úthlutar Steypustöðinni hf. lóðum að Fífukletti 1-8.

10.Sólbakki 13 - 15 - breyting á húsnæði

1909165

Framlögð kostnaðaráætlun og teikningar v. áætlaðra breytinga á húsnæði Slökkviliðs Borgarbyggðar að Sólbakka 13 - 15.
Kristján Finnur Kristjánsson verkefnisstjóri kynnti kostnaðaráætlun fyrir breytingar á slökkviliðsstöð sem fyrirhugaðar eru vegna tilkomu körfubíls. Verkefnisstjóra falið að vinna áætlunina miðað við að þakið verði hækkað yfir einum dyrum.

11.Framtíðarskipan leikskólamála í Borgarnesi

1909168

Frá 188. fundi sveitarstjórnar - mál 1810068. "Tillögu GLE um stofnun starfshóps um framtíðarskipan leikskóla er vísað til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir að stofna starfshóp sem vinna á að framtíðarsýn fyrir húsnæðismál leikskóla í Borgarnesi. Sveitarstjóra og sviðsstjóra fjölskyldusviðs falið að vinna að erindisbréfi. Stefnt er að því að tilnefna fulltrúa í hópinn á næsta sveitarstjórnarfundi.

12.Húsnæðismál

1909156

Umræður um húsnæðismál stjórnsýslunnar. Sindri Sigurgeirsson útibússtjóri Arion banka í Borgarnesi mætti til fundarins.

13.Stýrihópur um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarbyggð

1810067

Lögð fram fundargerð 3. fundar starfshóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja.

14.Fundargerðir OR nr. 277 og 278

1909144

Framlagðar fundargerðir stjórnar OR nr. 277 og 278

15.Byggingarnefnd Grunnskólans í Borgarnesi - verkfundir

1806018

Framlögð fundargerð 55. verkfundar í Grunnskólanum í Bgn.

16.Byggingarnefnd Grunnskólans í Borgarnesi - fundargerðir

1611257

Fundargerð frá 17.9.2019 framlögð ásamt stöðuyfirliti verks.

17.Fundargerð Faxaflóahafna sf. 20.09. 2019 Fundur nr. 183

1909128

Fundargerð Faxaflóahafna sf. 20.09. 2019 framlögð. Fundur nr. 183

Fundi slitið - kl. 11:22.