Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

569. fundur 17. ágúst 2021 kl. 08:15 - 11:00 í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir formaður
  • Magnús Smári Snorrason áheyrnarfulltrúi
  • Silja Eyrún Steingrímsdóttir varamaður
  • Guðveig Eyglóardóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri
  • Flosi Hrafn Sigurðsson Sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Fagráð slökkviliðsins - fundargerðir 2021

2105172

Framlögð fundargerð fagráðs slökkviliðsins frá 14. fundi fagráðs ásamt fylgiskjölum. Á fundinum var farið yfir framkomna skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um slökkvilið Borgarbyggðar, dags. 16. júlí sl.
Í niðurstöðum fagráðs eftir yfirferð á framkominni skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er lögð áhersla á að loftfylling lofthylkja verði endurnýjuð í samræmi við niðurstöðu skýrslu HMS til að bæta loftgæði lofthylkjanna og keypt ný loftpressa. Óskar fagráð eftir að ný loftpressa og aðstaða fyrir hana verði keypt á árinu 2021 og gerður viðauki við fjárhagsáætlun.

Byggðarráð bendir á að endurnýjun loftpressu og aðstöðu til loftfyllinga var ekki á forgangslista slökkviliðs Borgarbyggðar sem byggðarráð óskaði eftir fyrir gerð fjárhagsáætlunar 2021. Fyrst í forgangsröðun var að fá fleiri bil í húsi slökkviliðsins að Sólbakka og er verið að vinna að því að finna nýtt húsnæði fyrir safngeymslu Safnahúss Borgarbyggðar til þess að slökkvilið fái það aukna rými sem þörf er á. Númer tvö í forgangsröðun var að fá herbergi til kennslu og funda, þ.e. herbergið sem Sögufélag Borgarfjarðar hafði til umráða. Slökkviliðið hefur fengið herbergið til umráða og verður herbergið nýtt á sem bestan hátt til að leysa aðstöðuleysi slökkviliðsins tímabundið. Í nýrri samantekt forgangsröðunar í 10 ára uppbyggingaráætlun slökkviliðsins er í fyrsta forgangi að fá allt húsnæðið að Sólbakka 13-15, sem er í vinnslu. Stærra húsnæði er ætlað að leysa nokkur þeirra atriða sem gerðar eru athugsemdir við í úttekt slökkviliðs Borgarbyggðar, svo sem búningaraðstöðu og þvotta- og hreinlætisaðstöðu. Ný loftpressa í öðrum forgangi.

Allar fjárfestingar og rekstur sveitarfélaga þurfa að vera ákvarðaðar í fjárhagsáætlun ársins. Sveitarstjórn getur þó ákveðið að gera viðauka við fjárhagsáætlun þegar upp koma óviðráðanlegar aðstæður eða með samþykki sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur unnið að því undanfarin ár að bæta þau atriði sem gerð er athugasemd við í úttektum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Sem dæmi má nefna var ráðinn aðstoðar slökkviliðstjóri og eldvarnarfulltrúi m.a. til að bæta eldvarnareftirlit sveitarfélagsins, vinna með slökkviliðsstjóra að ýmsum lögskyldum áætlunum og auka þjálfun og menntun slökkviliðsmanna. Búnaður slökkviliðsmanna hefur verið bættur og keyptur körfubíll og byrjað á endurnýjun bifreiða. Eins og að framan segir hefur slökkviliðið á árinu 2021 fengið herbergi til afnota sem áður var notað af Sögufélagi Borgfirðinga, áætlað er að allt húsnæðið að Sólbakka 13-15 verði nýtt af slökkviliðinu þegar önnur húsnæðismál leysast og verið er að skoða nýtt húsnæði fyrir slökkviliðið og bifreið þess á Bifröst.

Byggðarráð bendir sérstaklega á að rekstrarkostnaður slökkviliðsins hefur á þremur árum meira en tvöfaldast. Á árinu 2018 var kostnaður við slökkviliði tæpar 35 milljónir króna en á árinu 2021 er áætlað að kostnaðurinn verði tæpar 77 milljónir króna. Það gefur því auga leið að miklar breytingar hafa átt sér stað í rekstri slökkviliðsins og eru í farvatninu og unnið sé að því að koma til móts við athugasemdir úttektar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á slökkviliðinu.

Byggðarráð vísar kaupum á loftpressu til fjárhagsáætlun 2022, kostnaðaráætlun verði gerð fyrir kaupin á loftpressu og þeim breytingum sem þarf að gera á húsnæðinu. Byggðarráð leggur til að undirbúningur verði með þeim hætti að hægt sé að ganga frá kaupum í janúar n.k. Önnur þau atriði sem lagt er til að fari á fjárhagsáætlun ársins 2022 skal slökkviliðsstjóri gera ráð fyrir í tillögu sinni að fjárhagsáætlun og í samræmi við framangreinda forgangsröðun í 10 ára uppbyggingaráætlun.

2.Ljósleiðari í Borgarbyggð - framkvæmdir

2001118

Guðmundur Daníelsson, verkefnastjóri ljósleiðaravæðingu Borgarbyggðar, kemur til fundar og fer yfir stöðuna á ljósleiðarauppbyggingu sveitarfélagsins.
Byggðarráð þakkar Guðmundi fyrir yfirferðina.
Guðmundur yfirgaf fundinn klukkan 9:55.
Flosi H. Sigurðsson, sviðsstjóri, yfigaf fundinn kl. 9:30.

3.Endurnýjun rammasamninga

2104165

Rammasamningur um Microsoft hugbúnaðarleyfi rennur út 31. ágúst nk., RK. 03.07. Óskað er afstöðu byggðarráðs hvort eigi að segja sig frá umræddum rammasamningi.

Rammasamningur um kaup á ljósritunarpappír rennur út 30. september 2021. Óskað er afstöðu byggðarráðs hvort eigi að segja sig frá umræddum rammasamningi.

Nýr rammasamningur um rafrænar undirskriftir er í bígerð hjá Ríkiskaupum. Óskað er eftir afstöðu til þess hvort sveitarfélagið eigi að gerast aðili að umræddum rammasamningi um rafrænar undirskriftir.
Byggðarráð fellur frá þátttöku í rammasamningi um Microsoft hugbúnaðarleyfin. En ákveður að taka þátt í rammasamningi um ljósritunarpappír og nýjum rammasamningi um rafrænar undirskriftir.

4.Sáttaumleitan í deiliskipulagsgerð Húsafellssvæðisins

2008016

Framlagt samkomulag milli Borgarbyggðar, Páls Guðmundssonar og Sæmundar Ásgeirssonar, vegna Húsafellsmálsins sem undirritað var 12. ágúst 2021.
Fimmtudaginn 12. ágúst sl. undirrituðu Páll Guðmundsson, Sæmundur Ásgeirsson og Borgarbyggð undir þríhliðasamkomulag um lúkningu mála varðandi skipulags- og byggingarmál er varða Húsafell 1 og Bæjargil. Megin inntak samkomulagsins er að breytingar á aðalskipulagi á svæðinu skuli einungis taka til Bæjargils og Húsafells 1 og að unnið verði nýtt deiliskipulag fyrir sama svæði. Aðilar máls voru sammála um að deiliskipulag yrði unnið í samræmi við teikningu sem er fylgiskjal með samkomulaginu. Borgarbyggð greiddi hvorum aðila fyrir sig 5 milljónir króna við undirritun samkomulagsins vegna kostnaðar tengdum skipulags- og byggingarmálum á svæðinu. Aðilar voru sammála því að þeir geri ekki aðrar kröfur hvor á hendur hinum vegna skipulags- og byggingarmála umfram það sem fram kemur í samningnum.

Byggðarráð Borgarbyggðar fagnar þeirri niðurstöðu sem náðist með samkomulaginu og vinnur nú að þeim ákvörðunum sem teknar voru í samstarfi við aðila samkomulagsins. Það var ekki einsýnt að samkomulag næðist milli aðila en allir lögðu sitt að mörkum til þess að sátt myndi nást.

Málið hefur verið í vinnslu í mörg ár og ljóst er að sveitarfélagið gerði mistök sem höfðu áhrif á framgang málsins og biðst byggðarráð fyrir hönd sveitarfélagsins alla málsaðila innilegrar afsökunar á þeim mistökum.

5.Kastali á skólalóð GBF Hvanneyri

2105139

Erindi sem vísað var til byggðarráðs af frá 201. fundi fræðslunefndar vegna hönnunar á skólalóð fyrir grunnskólalóðina á Hvanneyri.
Byggðarráð vísar því til fjárhagsáætlunar 2022 að skólalóðin við Grunnskóla Borgarfarðar á Hvanneyri verði teiknuð upp og kaup á nýju leiktæki á lóðina, þar sem sem Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur óskað eftir kastali verði fjarlægður vegna öryggis.

6.Rauðsgilsrétt - girðing

2108059

Framlagt erindi Lárusar Elíassonar, landeiganda á Rauðsgili, dags. 16. ágúst 2021, varðandi girðingu við Rauðsgilsrétt.
Byggðarráð vísar erindinu til umsagnar í fjallskilanefnd Rauðsgilsréttar og afgreiðslu í umhverfis- og landbúnaðarnefnd.

7.Aukning við kennslukvóta við Grunnskólann í Borgarnesi

2108064

Lögð fram beiðni um að auka kennslukvóta við Grunnskólann í Borgarnesi.
Nemendum í einum bekk við Grunnskólann í Borgarnesi fjölgaði úr 22 í 26 milli ára. Áætlað var að bekkurinn hefði einn umsjónarkennara, en vegna framangreindrar fjölgunar sjá skólastjórnendur ekki annan kost en að ráða inn annan umsjónarkennara í a.m.k. 80% stöðu. Um er að ræða aukningu stöðugilda, en þó stöðugildi sem samsvara minna en 80% stöðu vegna annarra breytinga við stofnunina. Byggðarráð samþykkir beiðnina, en mikilvægt er að starfsmaðurinn hefji störf sem fyrst. Byggðarráð felur sveitarstjóra að leita leiða til að færa milli fjárhagsliða í fjárhagsáætlun til að ekki þurfi að gera viðauka vegna viðbótarinnar. Reynist það ógerlegt felur byggðarráð sveitarstjóra að gera drög að viðauka vegna málsins og leggja fyrir byggðarráð.

8.Drög að sjálfbærnistefnu fyrir Borgarbyggð

2009127

Guðný Jórunn Gunnarsdóttir, var ráðin í sumarstarf til að vinna áfram með tillögu að drögum að sjálfbærnistefnu. Lögð fram skýrsla sumarstarfsmanns ásamt kynningu á verkefninu.
Byggðarráð þakkar Guðnýju Jórunni fyrir kynninguna og hennar störf fyrir Borgarbyggð í sumar. Byggðarráð óskar jafnframt eftir því að skýrslan verði kynnt öðrum nefndum og starfsfólki Borgarbyggðar.
Byggðarráð vísar skýrslunni til áframhaldandi vinnu og forgangsröðun í umhverfis- og landbúnaðarnefnd.
Guðný Jórunn og Hrafnhildur yfirgefa fundinn kl. 10:40.

9.Fjárhagsáætlun 2022

2106002

Lagt fram minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga um forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga frá 2022-2025, dags. 13. ágúst sl.
Lagt fram til kynningar.

10.Nýsköpunar - og þróunarsetur á landsbyggðinni - viljayfirlýsing

2106068

Kynning á undirritaðri viljayfirlýsingu vegna Nýsköpunar- og þróunarseturs á Landsbyggðinni, dags. 17. ágúst sl.
Byggðarráð fagnar þeim áfanga sem náðist með undirritun viljayfirlýsingar um að hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst byggist upp nýsköpunar- og þróunarsetur þar sem lögð verður áhersla á að efla nýsköpun, rannsóknir, fræðslu og frumkvöðlastarf á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, sjálfbærni og loftlagsmála.
Borgarbyggð fagnar enn fremur samstarfi háskólanna tveggja í sveitarfélaginu en verðmætasköpun þeirra fyrir sveitarfélagið og landsbyggðanna í heild mun aukast með þeim áherslum sem settar eru fram í nýsköpunar- og þróunarsetrinu.

11.Fundargerð 11. fundar ABHS

2107102

Lögð fram til kynningar fundargerð 11. fundar stjórnar fjallskilaumdæmis Akraneskaupstaðar, Borgarbyggðar, Hvalfjarðarsveitar og Skorradalshrepps.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:00.