Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

599. fundur 23. júní 2022 kl. 08:15 - 10:51 í fundarsal að Digranesgötu 2
Nefndarmenn
  • Davíð Sigurðsson formaður
  • Guðveig Eyglóardóttir varaformaður
  • Lilja Björg Ágústsdóttir aðalmaður
  • Bjarney Bjarnadóttir áheyrnarfulltrúi
  • Thelma Dögg Harðardóttir áheyrnarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Kristján Gíslason
Dagskrá
Hlöðver Ingi Gunnarsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs situr fundinn undir liðum 1 - 3.

1.Færanlegar kennslustofur fyrir Grunnskóla Borgarfjarðar - vor 2022

2204107

Lagt fram tilboð í færanlegar kennslustofur fyrir GBF Kleppjárnsreykjardeild.
Hlöðver Ingi Gunnarsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs fer yfir innkomið tilboð frá Stólpi Gámar og forsendur fyrir því. Byggðarráð samþykkir tilboðið og vísar fjármögnun til gerðar viðauka. Ennfremur óskar byggðarráð eftir frekari upplýsingum um fyrirhugaða nýtingu á næsta fundi byggðarráðs.

2.Útboð í skólaakstri - Tillaga að vali

2206120

Tillaga að vali á bjóðenda í útboði 21649 skólaakstur fyrir Borgarbyggð.
Niðurstöður útboðs kynntar og farið yfir tillögu Ríkiskaupa

Borgarbyggð hefur borist tillaga að vali á bjóðenda í útboði 21649 skólaakstur fyrir Borgarbyggð.

Byggðarráð ákveður að fara að tillögu Ríkiskaupa og mun tilkynning um val tilboðs verða send bjóðendum. Tilkynnt verður um töku tilboðs þegar biðtíma er lokið, ef engin kæra berst til kærunefndar útboðsmála. Við töku tilboða er komið á samningssamband milli kaupanda og seljanda.

Byggðarráð, sem hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu, samþykkir framlagða tillögu.

3.Eignasjóður GBF Varmalandi

2203179

Til fundarins kemur Guðni Rafn Ásgeirsson, umsjónarmaður eigna til þess að upplýsa um stöðu vinnu í kjölfar eldvarnarúttektar á húsnæði Varmalandsdeildar Grunnskóla Borgarfjarðar.
Guðni Rafn Ásgeirsson umsjónarmaður fasteigna fer yfir niðurstöður eldvarnarúttektar á grunnskólahúsnæðinu á Varmalandi. Byggðarráð óskar eftir kostnaðargreiningu á nauðsynlegum framkvæmdum og áætlun um úrbætur.

4.Erindi til sveitarstjórnar vegna 6.gr. fjallskilasamþykktar

2206163

Eftirfarandi bókun fjallskilanefndar Þverárréttar lögð fram:
"Fjallskilanefnd Þverárréttar óskar eftir því að sveitarstjórn nýti heimild 6. gr. fjallskilasamþykktar og skyldi ábúendur jarða í fjallskilaumdæmi Þverárréttar sem afnotarétt hafa, til að flytja fé sitt á fjall, nema fjárheld girðing sé til staðar á heimalandi."
Byggðaráð tekur vel í erindið og vísar því áfram til umsagnar í Fjallskilanefnd Borgarbyggðar fyrir næstu áramót.

5.Flýting leita 2022

2206129

Eftirfarandi bókun fjallskilanefndar Þverárréttar er lögð fyrir byggðaráð:
"Samþykkt að óska eftir að flýta öllum leitum í haust.
Fjallskilanefnd Þverárréttar óskar eftir heimild til að flýta öllum leitum um eina viku haustið 2022.Fyrstu leitir hefjist þá aðra helgina í september.
Óskað er eftir staðfestingu sveitarstjórnar og að sveitarstjórn leggi tillöguna fyrir stjórn fjallskilaumdæmis Akraneskaupstaðar, Borgarbyggðar, Hvalfjarðarsveitar og Skorradalshrepps til ákvörðunar."
Byggðaráð, sem fer með fullnaðarákvörðunarvald sveitarstjórnar, samþykkir fyrir sitt leyti að flýta göngum og þar með réttum í Þverárrétt og leggur þá tillögu fyrir stjórn fjallskilaumdæmis Akraneskaupstaðar, Borgarbyggðar, Hvalfjarðarsveitar og Skorradalshrepps til staðfestingar. Um er að ræða fullnaðarákvörðun innan sveitarfélagsins.

6.Kosningar í ráð og nefndir 2022-2026

2205140

Framlögð tillaga um 1 fulltrúa til viðbótar í stjórn nemendagarða Menntaskóla Borgarfjarðar en fyrirhugað er að fjölga fulltrúum í stjórn nemendagarða úr 2 í 5 og á Borgarbyggð að skipa einn af þremur fulltrúum.
Byggðarráð samþykkir að tilnefna Sigurð Guðmundsson til að taka sæti í stjórn Nemendagarða MB ehf. og Lilju Björg Ágústsdóttir sem varamann. Byggðarráð felur Davíð Sigurðssyni að fara með atkvæði Borgarbyggðar á aðalfundi Nemendagarða MB.

7.Stefnumótandi áætlanir í málefnum sveitarfélaga 2019-2033

2206166

Framlagt erindi Innviðaráðuneytisins, dags. 20. júní 2022 þar sem óskað er eftir upplýsingum vegna fyrirhugaðra breytingar á stefnumótandi áætlunum í málefnum sveitarfélaga, Landsskipulagsstefnu og Húsnæðisstefnu.
Erindið lagt fram og sveitarstjóra falið að vinna að afgreiðslu þess.

8.Fagráð slökkviliðsins - fundargerðir

2105172

Framlögð fundargerð fagráðs slökkviliðsins frá fundi ráðsins 13. maí sl.
Fundargerðin lögð fram.

9.Aðalfundur Faxaflóahafna sf. - FUNDARBOÐ.2022

2206063

Byggðarráð samþykkir að taka til umræðu breytingar á samþykktum Faxaflóahafna.
Magnús Smári Snorrason fráfarandi fulltrúi í stjórn Faxaflóahafna sf. mætir til fundar og fer yfir fyrirhugaðar breytingar á samþykktum félagsins. Byggðarráð þakkar Magnúsi yfirferðina.

Byggðarráð samþykkir að leggja fram svohljóðandi bókun á aðalfundi Faxaflóahafna sf. "Byggðarráð Borgarbyggðar styður í grunninn þær breytingar sem lagðar eru til á sameignarfélagssamningi fyrir Faxaflóahafnir í því skyni að bæta faglega stjórnarhætti. Byggðarráð Borgarbyggðar lýsir þó vonbrigðum með að ósamræmi sé í tillögum og þeirri hugmyndafræði sem lýtur að því að skipta út pólitískt skipaða fulltrúa fyrir faglega. Eins að ekki hafi verið gætt að jafnræði eigenda þegar kemur að þessum breytingum þar sem aðeins tveir eigendur hafa ekki aðkomu að stjórn með pólitískt skipuðum fulltrúum í þeim breytingum sem liggja til samþykktar."

Fundi slitið - kl. 10:51.