Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

605. fundur 18. ágúst 2022 kl. 08:15 - 11:45 í fundarsal að Digranesgötu 2
Nefndarmenn
  • Davíð Sigurðsson formaður
  • Guðveig Eyglóardóttir varaformaður
  • Lilja Björg Ágústsdóttir, aðalmaður boðaði forföll og Sigurður Guðmundsson varamaður, sat fundinn í hans stað.
  • Bjarney Bjarnadóttir áheyrnarfulltrúi
  • Thelma Dögg Harðardóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Flosi Hrafn Sigurðsson Sviðsstjóri
  • Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Flosi H. Sigurðsson sviðsstjóri
Dagskrá

1.Breyting á samþykktum og skipuriti Borgarbyggðar

2208021

Framlögð til umræðu fyrstu drög að breytingum á samþykktum um stjórn Borgarbyggðar.
Byggðarráð samþykkir framlagðar breytingar á samþykktum sveitarfélagsins í samræmi við umræður á fundinum. Óskar byggðarráð eftir því að fá lokaútgáfu af samþykktum inn á fund byggðarráðs 1. september nk. Sveitarstjóra er falið að óska eftir áliti Innviðaráðuneytis á framlögðum breytingum og þær liggi fyrir áður en málið verði afgreitt í fyrri umræðu hjá sveitarstjórn.

2.Endurnýjun rammasamninga

2104165

Eftirtaldir rammasamningar eru til endurnýjunar í byrjun september. Óskað er eftir afstöðu byggðarráðs hvort sveitarfélagið skuli vera aðili að þeim:

RK 17.02 Blikksmíði
RK 17.03 Dúka- og teppalagning
RK 17.04 Málmiðnaður
RK 17.05 Málaraiðn
RK 17.06 Múrverk
RK 17.07 Pípulagnir
RK 17.08 Rafiðnaður
RK 17.09 Skrúðgarðyrkja
RK 17.10 Húsasmíði

Byggðarráð felur sveitarstjóra að segja upp eftirtöldum rammasamningum.

RK 17.02 Blikksmíði
RK 17.03 Dúka- og teppalagning
RK 17.04 Málmiðnaður
RK 17.05 Málaraiðn
RK 17.06 Múrverk
RK 17.07 Pípulagnir
RK 17.08 Rafiðnaður
RK 17.09 Skrúðgarðyrkja
RK 17.10 Húsasmíði

3.Brákarey - framtíðarskipulag

2111213

Framlögð drög að samstarfssamningi við Festir ehf. um hugmynda- og skipulagsvinnu í Brákarey sbr. bókun á 603. fundi byggðarráðs dags. 28. júlí 2022.
Byggðarráð samþykkir framlögð drög að samstarfssamningi við Festir ehf. og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins með fyrirvara um samþykkt sveitarstjórnar.

Byggðarráð tilnefnir Eðvar Ólaf Traustason og Sigurð Guðmundsson sem fulltrúa sveitarstjórnar.

4.Grímshús - Afstaða til afnota og viðhalds

2206170

Sveitarfélagið finnur fyrir vaxandi áhuga á nýtingu Grímshúss fyrir mismunandi starfsmemi. Á sama tíma er framundan skipulagsvinna fyrir Brákarey sem taka þarf tillit til með langtímarekstur í húsinu í huga. Óskað er eftir afstöðu byggðarráðs til nýtingar og viðhalds hússins.
Byggðarráð styður að Grímshús nýtist til að efla menningar- og mannlíf í Borgarbyggð. Vinna við skipulag í Brákarey leiðir hins vegar til þess að ekki er æskilegt að gera rekstrarsamning til langs tíma, ekki síst þar sem frágangur innandyra kallar á talsverða fjárfestingu. Þegar skýr mynd fæst á framtíðarskipulag í Brákarey er ástæða til að endurskoða þessa afstöðu. Þangað til er Byggðarráð hins vegar opið fyrir nýtingu hússins fyrir staka viðburði eins og húsið leyfir. Byggðarráð felur sveitarstjóra að leita leiða til að tryggja viðunandi viðhald hússins t.d. vegna veðurs þegar vetur skellur á.

5.Félagsleg leiguíbúð við Brákarsund 5

2003174

Á 583. fundi byggðarráðs Borgarbyggðar samþykkti byggðarráð beiðni Hoffells ehf. um framlengingu afhendingartíma íbúðar við Brákarsund 5 til 1. júní 2022. Fyrir liggur að húsið sem var í byggingu á þeim tíma sem um ræðir brann fyrr á þessu ári og hafa engar framkvæmdir orðið á húsnæðinu frá þeim tíma. Taka þarf ákvörðun um hvort rifta skuli samningi vegna afhendingardráttar og leita annarra leiða til þess að fjölga félagslegum íbúðum hjá sveitarfélaginu.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að kanna möguleika á riftun samnings við Hoffell ehf. vegna byggingar og afhendingar félagslegs húsnæðis við Brákarsund 5

6.Staðsetning mögulegs nýs flugvallar

2208123

Umfjöllun um mögulega uppbyggingu nýs flugvallar til stuðnings núverandi flugvöllum og Borgarbyggð sem valkost í þeim efnum.
Borgarbyggð er steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu en liggur jafnframt á krossgötum milli landshluta. Samgöngur innan sveitarfélagsins og til höfuðborgarsvæðisins eru nær undantekningalaust greiðar. Fyrirhugaðar þjóðhagslega hagkvæmar samgöngubætur á borð við Sundabraut munu stytta ferðatíma og auka öryggi enn frekar. Lega sveitarfélagsins hlýtur að kalla á að landsvæði í Borgarbyggð, t.d. Mýrar, verði tekin til ítarlegrar greiningar ef ákveðið verður að ráðast í umfangsmikla fjárfestingu í flugvelli, hvort sem hann er hugsaður til vara við núverandi millilandaflugvelli eða til að létta álagi af öðrum flugvöllum á suðvesturhorni landsins. Hér má t.d. horfa til kennslu- og æfingaflugs, einkaflugs og vöruflutninga. Byggðarráð Borgarbyggðar felur sveitarstjóra að koma skoðun byggðarráðs á framfæri við yfirvöld samgöngumála og leggja mat á hvort ástæða sé til að sveitarfélagið hafi frumkvæði að frumathugun á mögulegum kostum.

7.Íþróttahús - Frumhönnun

2110088

Framlagt erindi frá stjórn Körfuknattleiksdeildar Skallagríms vegna uppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarbyggð. Fram kemur sú skoðun að fram fari þarfagreining og kostnaðarúttekt varðandi nýtt parkethús. Skorað á sveitarfélagið að fara samhliða í uppbyggingu á parkethúsi og aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkendur. Bent er á mikilvægi þess til framtíðar að skipuleggja nýtt íþróttasvæði í samhengi við uppbyggingu næsta skóla.
Byggðarráð þakkar stjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms fyrir afar þarft innlegg í þá hugmyndavinnu nú stendur yfir um næstu íþróttamannvirki og vel ígrundaða skoðun. Bréfinu er vísað til byggingarnefndar íþróttamannvirkja.

8.Innleiðing Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í íslenskum sveitarfélögum - stuðningsverkefni

2109147

Framlagt erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags 12. júlí 2022 þar sem boðað er til upplýsinga-og samráðfundar um möguleika til áframhaldandi stuðnings og samstarfs um innleiðingu Heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna.
Hrafnhildur Tryggvadóttir deildarstjóri umhverfis- og framkvæmdamála mætir til fundar.
Byggðarráð er jákvætt fyrir því að sveitarfélagið haldi áfram vinnu í átt til innleiðingar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarstjóra er falið að leiða næstu skref í þeirri vinnu.

9.Gæðahandbók

2201036

Framlögð drög að verklagsreglum um málefnastjórnun og orðsporsáhættu.
Byggðarráð samþykkir framlögð drög að verklagsreglum um málefnastjórnun og orðsporsáhættu og felur sveitarstjóra að innleiða þær í starfsemi sveitarfélagsins.

10.Heimasmölun í Lundarreykjadal - erindi

2208039

Framlagt erindi ábúenda tveggja jarða í Lundarreykjadal, þar sem vakin er athygli á að smölunarskyldu nokkurra jarða sé ekki sinnt. Farið er þess á leit að sveitarstjórn gerir úrbætur á þessum vanda.
Fjallskilanefndir senda ábúendum og jarðaeigendum fjallskilaseðil, þar sem m.a. kemur fram hvenær heimalandasmölun skuli fara fram. Smölun heimalanda er ekki eitt af hlutverkum fjallskilanefnda, og því hlutast þær ekki til um heimasmölun að öðru leyti. Byggðarráð telur sig ekki geta hlutast til um smölun heimalanda að svo stöddu en leggur áherslu á að þetta er víða vandi og leita þarf lausna þar sem um mikið hagsmunamál er að ræða.

11.Erindisbréf atvinnu-, markaðs- og menningarmálanefndar

2206042

Afgreiðsla 36. fundar atvinnu-, markaðs- og menningarmálanefndar:

"Framlagt erindisbréf atvinnu-, markaðs- og menningarmálanefndar Borgarbyggðar sem samþykkt var árið 2020.
Nefndin telur nauðsynlegt að bæta því við verkefni nefndarinnar að starfa sem stjórn Safnahúss Borgarfjarðar. Jafnframt skuli breyta erindisbréfi til samræmis við að fundargerðir nefndarinnar séu nú undirritaðar rafrænt. Nefndin felur samskiptastjóra að leggja til slíkar breytingar og senda á byggðarráð til samþykkis samhliða því sem nauðsynlegt er að endurskoða samþykkt um stjórn Borgarbyggðar svo samræmi sé milli umræddra tveggja skjala".
Byggðarráð samþykkir að gerðar verði kynntar breytingar á erindisbréfi Atvinnu- markaðs og menningarmálanefndar og er þeim breytingum vísað til staðfestingar sveitarstjórnar.

Fundi slitið - kl. 11:45.