Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

611. fundur 20. október 2022 kl. 08:15 - 13:15 í fundarsal að Digranesgötu 2
Nefndarmenn
  • Davíð Sigurðsson formaður
  • Guðveig Eyglóardóttir varaformaður
  • Lilja Björg Ágústsdóttir, aðalmaður boðaði forföll og Sigurður Guðmundsson varamaður, sat fundinn í hans stað.
  • Bjarney Bjarnadóttir áheyrnarfulltrúi
  • Thelma Dögg Harðardóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Flosi Hrafn Sigurðsson Sviðsstjóri
  • Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri
Dagskrá

1.Íbúðarbyggð í dreifbýli

2208181

Kynning á aðferðarfræði og á nýju líkani við mati á kostnaði og ábata sveitarfélagsins við ákvarðanatöku um nýja íbúðabyggð í dreifbýli. Til fundarins mæti Vífill Karlsson hagfræðingur hjá SSV.
Byggðarráð þakkar Vífli fyrir góða kynningu. Líkanið virðist geta nýst sveitarfélaginu vel við að leggja mat tekju- og kostnaðaráhrif uppbyggingar íbúðabyggðar. Sveitarstjóra er falið að útfæra þannig að nýtist sem best við fjárhags- og skipulagsvinnu hjá sveitarfélaginu.

2.Lokun starfsemi að Brákarbraut 25-27 - Brákarey

2102065

Framlagður úrskurður Úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1097-2022 vegna kæru Ikan ehf.
Kynnt og framlagt en úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál er að vísa kærunni frá.

3.Skaða- og miskabótakrafa vegna uppsagnar á starfi í tengslum við skipulagsbreytingar

2111044

Framlagðar upplýsingar um stöðu dómsmáls vegna skipulagsbreytinga hjá sveitarfélaginu.
Upplýsingar um stöðu máls lagðar fram.

4.Umsókn um styrk vegna aðgengismála

2208225

Framlögð umsókn Sóknarnefndar Bæjarkirkju um styrk vegna aðgengismála.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að verða við umsókn Sóknarnefndar Bæjarkirkju um styrk vegna aðgengismála enda svigrúm innan þess framlags sem áætlað hefur verið til kirkjugarða í fjárhagsáætlun 2022.

5.Meðferð eignarhluta í Orkuveitu Reykjavíkur

2210184

Framlagt minnisblað unnið af KPMG um reikningslega meðferð 0,933% eignarhlutar Borgarbyggðar í Orkuveitu Reykjavíkur í kjölfar breytingar á 20. gr. reglugerðar 1212/2015. Sigurjón Örn Arnarsson endurskoðandi hjá KPMG kemur til fundarins í gegnum fjarfundabúnað.
Af minnisblaði KPMG að dæma kallar breyting reglugerðarinnar ekki á breytingu á meðferð á eignarhlut Borgarbyggðar í OR í reikningsskilum sveitarfélagsins. Til fundarins kom einnig Eiríkur Ólafsson sviðsstjóri fjármála hjá Borgarbyggð. Kynnt var sviðsmynd af áhrifum eignarhlutar í Faxaflóahöfnum á reikningsskil sveitarfélagsins út frá umræddri reglugerðarbreytingu en Borgarbyggð á 4,1356% eignarhlut. Þar kunna áhrifin að verða umtalsverð t.d. til hækkunar á eigin fé en m.v. ársreikning 2021 eru langtímaskuldir Faxaflóahafnar engar og eigið fé 15,6 ma.kr. Fjárhagslegir hagsmunir Borgarbyggðar í gegnum eignarhluti í OR og Faxaflóahöfnum eru verulegir og útfærsla breyttrar reglugerðar kann að hafa umtalsverð áhrif á reikningsskil Borgarbyggðar. Því leggur byggðarráð ríka áherslu á að Borgarbyggð geti haft áhrif á ákvarðanatöku og vel sé gætt sé að hagsmunum minnihlutaeigenda.

6.Bréf til sveitarstjórnar og sveitarstjóra vegna ástands við Bjarnhóla

2210097

Framlagt ódags. erindi, sem barst 11. október 2022 frá Haraldi Frey Helgasyni og Davíð Ólafssyni vegna ástands á losunarstað sveitarfélagsins við Bjarnhóla.
Við Bjarnhóla er móttaka jarðvegsúrgangs sem m.a. fellur til vegna byggingarframkvæmda í sveitarfélaginu. Móttakan fer hins vegar ekki fram með skipulegum hætti og aðkoma og aðstaða er lítt mótuð. Borgarbyggð hefur ekki virkjað gjaldskrá á svæðinu og hefur því hingað til eingöngu borið af því kostnað. Sá kostnaður er kominn að mörkum fjárhagsáætlunar. Byggðarráð beinir því til sveitarstjóra að reyna eftir megni að viðhalda lágmarksþjónustu við Bjarnhóla ef svigrúm er til staðar. Um leið þá styður Byggðarráð að svæðinu sé lokað þegar starfsfólk Borgarbyggðar metur aðstæður óboðlegar svo sem vegna aurbleytu eða ekki er svigrúm til að sinna lágmarksþjónustu. Byggðarráð beinir til því til umhverfis- og landbúnaðarnefndar að útfæra gjaldtöku á svæðinu eins fljótt og auðið er og vísar til vinnu í sveitarstjórn við fjárhagsáætlun 2023 að færa aðstæður á svæðinu til betri vegar.

7.Fjárhagsáætlun fyrir leikskóla 2023

2210111

Kynning og umræða um helstu atriði fjárhagsáætlunar leikskóla Borgarbyggðar. Ástríður Guðmundsdóttir, leikskólastjóri á Andabæ, Sjöfn Vilhjálmsdóttir, leikskólastjóri á Hnoðrabóli, Kristín Gísladóttir, leikskólastjóri á Uglukletti og Steinunn Baldursdóttir leikskólastjóri á Klettaborg mæta til fundarins.
Byggðarráð þakkar leikskólastjórum kynninguna og fyrir gott starf sem fram fer í leikskólum sveitarfélagsins. Samtalið mun nýtast vel við vinnu við fjárhagsáætlun.
Mikill metnaður er í starfi leikskólanna og kannanir sýna almennt ánægju meðal foreldra. Skólarnir eru ólíkir en eiga það sammerkt að áskoranir liggja aðallega í starfsumhverfinu. Stjórnendur skólanna hvöttu byggðarráð til að hafa það í huga í vinnu við fjárhagsáætlun og voru ýmsar hugmyndir reifaðar.

8.Fjárhagsáætlun skipulags- og byggingardeildar 2022

2209235

Kynning og umræða um helstu atriði draga að fjárhagsáætlun skipulags- og byggingardeildar. Flosi Sigurðsson sviðstjóri mætir til fundarins.
Ásamt Flosa mættu til fundarins Hrafnhildur Tryggvadóttir, deildarstjóri umhverfismála, og Guðni Rafn Ásgeirsson, umsjónarmaður fasteigna Borgarbyggðar. Byggðarráð þakkar góða kynningu og gott starf. Samtalið mun nýtast vel við komandi vinnu við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

9.Kynning frá Menntaskóla Borgarfjarðar, Skólaþróunarverkefni MB - Menntun fyrir störf framtíðar

2203124

Framlögð drög að samningi milli Borgarbyggðar og Menntaskóla Borgarfjarðar um Kviku. Verkefnið var kynnt á fundi fræðslunefndar þann 17. október. Framlag Borgarbyggðar inn í verkefnið er áætlað 500 þús.kr. á mánuði í fjögur ár. Með því er Borgarbyggð að tryggja aðgang að Kviku fyrir allar skólastofnanir, tómstundir og aðrar helstu þjónustustofnanir sveitarfélagsins.
Framlögð drög að samstarfssamningi við Menntaskóla Borgarfjarðar um Kviku. Byggðarráð tekur undir bókun 212. fundar fræðslunefndar og telur að samstarfið muni gagnast stofnunum Borgarbyggðar vel. Byggðarráð felur sveitarstjóra að fullvinna og undirrita samkomulagið, sem byggist á framlögðum drögum, með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar.

10.Breyting á stjórn Brákarhlíðar

2205140

Páll Snævar Brynjarsson hefur óskað eftir því að láta af störfum í stjórn Brákarhlíðar en eiginkona hans hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Brákarhlíðar.
Byggðarráð þakkar Páli Snævari gott starf og samþykkir að skipa Lilju Björgu Ágústsdóttur í stjórn Brákarhlíðar í hans stað.

11.Umsókn um stofnframlög til HMS vegna uppbyggingar á íbúðarhúsnæði

2210182

Send hefur verið inn umsókn til Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar um stofnframlög til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Verkefnið er í samvinnu við Hrafnshól ehf. sem unnið hefur sambærileg verkefni í öðrum sveitarfélögum þar sem áherslan hefur verið á blöndu af hagkvæmum leiguíbúðum og jafnframt stefnt að því að þær íbúðir sem til sölu í þessum eignum falli undir reglur um hlutdeildarlán og henti því sem úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga til þess að kaupa sína fyrstu fasteign.
Byggðarráð telur mikilvægt að stuðla að uppbyggingu hagkvæms húsnæðis bæði til eignar og leigu í Borgarbyggð. Umsóknarfrestur í síðari úthlutun stofnfjárframlaga HMS á þessu ári rann út 16. október og mikilvægt að koma umsókn í farveg áður en frestur rann út. Ef til fjárhagslegrar skuldbindingar kemur af hálfu sveitarfélagsins verður það skref tekið fyrir hjá byggðarráði og síðan vísað til sveitarstjórnar.

12.Hreðavatnsvegur 5258-01 - tilkynning um niðurfellingu

2210175

Framlagt bréf Vegagerðarinnar þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða niðurfellingu Hreðavatnsvegar 5258-01 af vegaskrá.
Bréf framlagt. Byggðarráð felur sveitarstjóra að kanna hvort búseta eða atvinnustarfsemi er við veginn eða treystir á veginn.

13.Straumfjarðarvegur 5359-01- tilkynning um niðurfellingu

2210174

Framlagt bréf Vegagerðarinnar þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða niðurfellingu Straumfjarðarvegar 5359-01 af vegaskrá.
Bréf framlagt. Byggðarráð felur sveitarstjóra að kanna hvort búseta eða atvinnustarfsemi er við veginn eða treystir á veginn.

14.Strandstígur við Borgarnes

2110092

Framlögð gögn vegna hönnunar á strandstíg í Borgarnesi. Finnur Kristinsson og Svava Þorleifsdóttir frá Landslagi koma til fundarins.
Kynning á strandstíg frá íþróttamiðstöð að kirkjugarði. Í hönnunargögnum er gert ráð fyrir tveimur timburbrúm en stígur að öðru leyti að megninu til úr ecoraster-grindum líkt og núverandi stígar. Byggðarráð vísar frekari áformum til vinnu við fjárfestingaráætlun.

15.Starfsmannamál í leikskólum haust 2022

2209071

Umræða um mönnunarmál á Hnoðrabóli. Fræðslunefnd fjallaði um málið og minnisblað frá sviðsstjóra á fundi 17. október í framhaldi af tilvísun frá byggðarráði. Þar var lýst stuðningi við tillögu sviðsstjóra um tímabundnar aðgerðir þar til bætt verður úr mönnun.
Byggðarráð styður tillögu sviðsstjóra fjölskyldusviðs um tímabundna skerðingu á opnunartíma. Byggðarráð leggur áherslu á að ákvörðunin skal vera tímabundin. Hún felur engan veginn í sér styttingu á vinnuskyldu starfsfólks. Hér er eingöngu tímabundið verið að koma til móts við mjög þunga stöðu í mönnun leikskólans. Byggðarráð vonar að þessi ráðstöfun geti létt álagi af starfsfólki Hnoðrabóls og veitt þeim svigrúm til að viðhalda góðu faglegu starfi. Byggðarráð minnir á að kynning og útfærsla verði í góðu samstarfi við börn, foreldra og aðra aðstandendur og hægt verði að bregðast hratt við og draga úr eða hætta tímabundinni styttingu þegar mönnun færist til betri vegar.

16.Grunnskóli Borgarfjarðar- Kleppjárnsreykjadeild - framkvæmdir á skólahúsnæði

2104092

Framlögð gögn vegna útboðs hönnunar á viðbyggingu skólahúsnæðis GBF á Kleppjárnsreykjum.
Byggðarráð vísar ákvörðun um næstu skref til frekari vinnu og umræðu í sveitarstjórn um fjárhagsáætlun. Í fjárfestingaráætlun fyrir næstu ár sem nú er unnið að mun fara fram faglegt mat á áhrifum af áformaðri fjárfestingu í nýrri viðbyggingu GBF á Kleppjárnsreykjum, sem og áhrifum annarra fyrirhugaðra fjárfestinga á komandi árum, á rekstur, sjóðstreymi og efnahag.

17.Tillaga að breyttum sameignarfélagssamningi Faxaflóahafna til umræðu og samþykktar

2204068

Afgreiðsla 231. fundar sveitarstjórnar Borgarbyggðar: "Sveitarstjórn vísar framlögðum drögum að sameignarfélagssamningi Faxaflóahafna og drögum að eigendastefnu Faxaflóahafna að nýju til umræðu í byggðarráði. Samþykkt samhljóða."
Byggðarráð óskar eftir því að frekari greining fari fram á hagsmunum Borgarbyggðar sem minnihlutaeiganda í Faxaflóahöfnum og fer fram á við sveitarstjóra vinna að slíkri greiningu.

18.Ályktun samþykkt á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2022

2209167

Framlagt bréf Skógræktarfélag Íslands, dags. 22. september 2022 þar sem framlögð er ályktun aðalfundar Skógræktarfélags Íslands.
Framlögð áskorun aðalfundar Skógræktarfélags Íslands þar sem skorað er á sveitarstjórnir að vinna að skipulagsáætlunum í takt við stefnu stjórnvalda um skógrækt á landsvísu og eru sveitarfélög hvött til að koma sér upp skilvirkum verkferlum.

19.Umsagnarmál f. Alþingi 2022

2201097

Framlagt til umsagnar 9. mál f. Alþingi - Endurskoðun á laga- og reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis.
Umsagnarmál framlagt

20.Umsagnarmál f. Alþingi 2022

2201097

Til umsagnar 44. mál frá nefndasviði Alþingis
Velferðarnefnd Alþingis sendir yður til umsagnar frumvarp til laga um almannatryggingar (skerðing á lífeyri vegna búsetu)
Umsagnarmál framlagt

21.Fundagerðir Orkuveitu Reykjavíkur 2022

2203069

Framlögð fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur dags. 22. ágúst 2022
Fundargerð framlögð

22.Samband ísl. sveitarfélaga - fundargerðir 2022

2202060

Fundargerð 913. fundar stjórnar sambandsins
Fundargerð framlögð

23.Byggingarnefnd viðbyggingar við Gbf. á Kleppjárnsreykjum - 7

2210003F

Lögð fram fundargerð 7. fundar byggingarnefndar viðbyggingar við GBF á Kleppjárnsreykjum.

Fundi slitið - kl. 13:15.