Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

631. fundur 19. apríl 2023 kl. 08:15 - 10:45 í fundarsal að Digranesgötu 2
Nefndarmenn
  • Davíð Sigurðsson formaður
  • Guðveig Eyglóardóttir varaformaður
  • Bjarney Bjarnadóttir áheyrnarfulltrúi
  • Thelma Dögg Harðardóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sigurður Guðmundsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri
  • Lilja Björg Ágústsdóttir Sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri
Dagskrá

1.Ársreikningur Borgarbyggðar 2022

2303271

Lagður fram ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2022. Eiríkur Ólafsson, forstöðumaður fjármálasviðs, og Kristín Lilja Lárúsdóttir aðalbókari, koma til fundarins.
Drög að ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2022 sýna mun betri afkomu heldur en áætlun hafði gert ráð fyrir og talsverðan afkomubata milli ára.
Rekstrarniðurstaða samstæðu Borgarbyggðar var jákvæð um 368 m.kr. á árinu 2022. Tekjur jukust um 19,2% og voru 6.053 m.kr. Rekstrargjöld samstæðunnar án afskrifta jukust á sama tíma um 9,0%.
Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir afskriftir var jákvæð um 824 m.kr. sem samsvarar 13,6% af tekjum. Veltufé frá rekstri samstæðunnar var 846 m.kr. eða 14,0% af tekjum og handbært fé frá rekstri var 549 m.kr.
Rekstrarniðurstaða A- hluta var jákvæð um 305 m.kr. á árinu 2022. Tekjur A-hluta jukust um 18,3% milli ára og námu 5.193 m.kr. Vöxtur skatttekna var þó heldur minni eða tæp 11% en framlög Jöfnunarsjóðs og aðrar tekjur voru hvorutveggja talsvert yfir áætlun auk þess sem munar um talsvert lægri gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga milli ára.
Hagnaður fyrir afskriftir var 561 m.kr. á árinu eða 10,8% af tekjum samanborið við 120 m.kr. eða 2,7% af tekjum árið áður. Veltufé frá rekstri A-hluta var 749 m.kr. á árinu eða 14,4% af tekjum og handbært fé frá rekstri 481 m.kr.
Fjármagnsliðir höfðu heldur minni neikvæð áhrif heldur en áætlað hafði verið en neikvæð áhrif þeirra voru 108 m.kr. á A-hluta og 225 m.kr. á samstæðuna.
Á árinu 2022 námu fjárfestingar A-hluta Borgarbyggðar í fastafjármunum 349 m.kr. og færðust heldur í aukana er leið á árið en voru þó talsvert undir áætlun. Heildareignir A-hluta Borgarbyggðar voru um áramót liðlega 9,1 ma.kr., eigið fé 5,2 ma. og eiginfjárhlutfall um 57%. Skuldaviðmið A-hluta skv. reglugerð var 32% um áramót. Hreinar vaxtaberandi skuldir A-huta, án lífeyrisskuldbindinga, voru liðlega 1,5 ma.kr. um áramót og lífeyrisskuldbindingar stóðu í 1,3 ma.kr.
Heildareignir samstæðunnar voru um 11,5 ma.kr. í árslok og eigið fé um 5,2 ma.kr.

Það er ánægjuefni fyrir íbúa Borgarbyggðar að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk og undirliggjandi afkoma batnar verulega með fjölgun íbúa og auknum umsvifum. Skuldastaðan er viðráðanleg við erfiðar aðstæður á fjármagnsmarkaði. Trausta fjárhagsstöðu má þakka aðhaldi og aga í fjármálum síðustu ár en fjölgun íbúa að undanförnu og sterkt atvinnulíf skipta sköpum um raunvöxt tekna og afkomubata. Þess ber að geta að nánast allir málaflokkar hafa haldist innan áætlunar og á starfsfólk og stjórnendur stofnana þakkir skildar fyrir vel unnin störf.
Framundan eru fjárfestingar í innviðum sveitarfélagsins svo sem í skólum, gatnagerð og íþróttamannvirkjum. Ein forsenda fjárfestinga er að rekstur sveitarfélagsins ráði við aukna skuldsetningu sem fylgir þeim fjárfestingum. Það er því mikilvægt að viðhalda góðri afkomu og sjóðstreymi af undirliggjandi rekstri.
Ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2022 er vísað til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

2.Tilboð í tryggingaráðgjöf

2304081

Lagt fram erindi Consello ehf um tilboð í ráðgjöf og útboð vegna trygginga sveitarfélagsins.
Framlagt og sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.

Samþykkt samhljóða.

Kristín Lilja Lárusdóttir fór af fundi að loknum þessum lið.

3.Breyting á skipuriti Borgarbyggðar apríl 2023

2304088

Tillaga lögð fram um breytingar á skipuriti Borgarbyggðar.
Tillaga um breytingar á skipuriti Borgarbyggðar lögð fyrir byggðarráð. Tillagan hefur verið unnin af byggðarráði í samstarfi við sveitarstjóra og sviðsstjóra. Breytingunni er ætlað að auka skilvirkni, flæði og samstarf sviða. Breytingin felur ekki í sér breytingu á fjölda starfa og litla breytingu á verkefnum starfsfólks í ráðhúsinu eða annars staðar hjá sveitarfélaginu. Tillagan felur ekki í sér aukinn rekstrarkostnað hjá Borgarbyggð.
Tillaga að breyttu skipuriti kemur í eðlilegu framhaldi af breytingum sem ráðist var í sumarið 2022. Með þeim breytingum tókst að styrkja skipulags- og byggingarmál hjá sveitarfélaginu. Tillagan nú snýr að því að efla stjórnsýslu þvert á svið sveitarfélagsins og skilgreina málaflokka í samræmi við þróun verkefna. Í tillögunni felst einnig að verksvið sveitarstjóra er betur afmarkað.

Breytingar eru eftirfarandi:
?
Stjórnsýsla og fjármál verða sameinuð í Fjármála- og stjórnsýslusvið sem starfar þvert á önnur svið. Þjónustuver, samskipta- og markaðsmál, mannauðs- og gæðamál, skjalavarsla og tölvuumsjón færast undir stjórnsýsluhluta sviðsins en höfðu áður heyrt beint undir sveitarstjóra. Lögfræðiráðgjöf þvert á starfsemi sveitarfélagsins verður gert hærra undir höfði. Sviðsstjóri fjármálasviðs, Eiríkur Ólafsson, verður deildarstjóri fjármála (fjármálastjóri) Borgarbyggðar. Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs verður Lilja Björg Ágústsdóttir.
?
Skipulags- og umhverfismál heyra undir sérstakt svið og undir það falla Skipulags- og byggingardeild og Umhverfis- og landbúnaðardeild. Nú þegar hefur verið auglýst eftir deildarstjóra Umhverfis- og landbúnaðardeildar. Framundan er að auglýsa eftir sviðsstjóra Skipulags- og umhverfissviðs.
?
Fjölskyldusvið skiptist í félags- og velferðarþjónustu og skóla- og menntun. Þá tilheyrir frístundastarfsemi sviðinu en þar undir heyrir rekstur íþróttamannvirkja og tómstundastarfsemi. Málefni flóttamanna er nú skilgreindur sérstaklega sem málaflokkur undir félags- og velferðarþjónustu. Inga Vildís Bjarnadóttir, deildarstjóri félagsþjónustu (félagsmálastjóri), er á leið í ársleyfi frá störfum og verður ráðið tímabundið í hennar starf. Sviðsstjóri Fjölskyldusviðs er Hlöðver Ingi Gunnarsson.

Jafnframt er lögð fyrir byggðarráð tillaga um að Atvinnu,- markaðs- og menningarmálanefnd Borgarbyggðar verði lögð niður og verkefni nefndarinnar færð beint undir byggðarráð, þar á meðal málefni safnahúss og félagsheimila. Nefndin var sett á fót síðla árs 2019 til reynslu. Með því að leggja niður nefndina næst fram fjárhagslegur sparnaður. Samtímis er lögð meiri ábyrgð á herðar sérfræðinga sveitarfélagsins og sveitarstjóra, með fulltingi byggðarráðs, í þeim málaflokkum sem heyra undir nefndina. Verkefnum sem heyra undir málaflokkinn verður því áfram gert jafn hátt undir höfði.
Verði tillagan samþykkt verða fastanefndir sveitarfélagsins fjórar; Umhverfis- og landbúnaðarnefnd og Skipulags- og byggingarnefnd, sem veita Skipulags- og umhverfissviði leiðsögn í sínum málaflokkum, og Fræðslunefnd og Velferðarnefnd, sem veita Fjölskyldusviði leiðsögn.
Lagt verður til að tillögunum verði vísað til fyrri umræðu í sveitarstjórn. Í tillögunum felast breytingar á samþykktum Borgarbyggðar en slíkar breytingar þarfnast umræðu og staðfestingu á tveimur fundum sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

4.Vatnsveitur í Borgarbyggð

2203242

Afgreiðsla Umhverfis- og landbúnaðarnefndar af 46. fundi nefndarinnar 14. apríl 2023: "Miðað þau gögn sem starfsmenn hafa aflað og þá vinnu sem fram hefur farið, má áætla að tveir raunhæfir kostir séu í stöðunni:þ.e. að halda fyrirkomulagi vatnsveitumála í dreifbýli óbreyttu, eða að sveitarfélagið stofni formlega vatnsveitu sem haldi utanum öll veitumál á forræði sveitarfélagsins. Umhverfis-og landbúnaðarnefnd telur mikilvægt að fá ráðgjöf sérfræðinga við útfærslu á valkostagreiningu og mögulegu rekstrarformi vatnsveitna í dreifbýli. Horft verði til fordæma hjá sveitarfélögum sem eru með veiturekstur og reynslu þeirra. Nefndin vísar erindinu til byggðaráðs til umfjöllunar og afgreiðslu."
Byggðarráð tekur undir með Umhverfis- og landbúnaðarnefnd og felur sveitarstjóra að hefja viðræður við ráðgjafa KPMG um að vinna valkostagreiningu.

Samþykkt samhljóða.

Eiríkur Ólafsson fór af fundi að loknum þessum lið
Lilja Björg Ágústsdóttir fór af fundi að loknum þessum lið.

5.Verkefni vegna innleiðingar hringrásarkerfis

2111023

Afgreiðsla Umhverfis - og landbúnaðarnefndar af 46. fundi nefndarinnar 14. apríl: "Umhverfis-og landbúnaðarnefnd felur deildarstjóra að vinna minnisblað varðandi mögulegar leiðir í kynningu á nýju fyrirkomulagi í úrgangsmálum og leggja fyrir byggðaráð til umfjöllunar og ákvörðunar."
Byggðarráð samþykkir að útbúinn verði einblöðungur á íslensku, pólsku, ensku og úkraínsku í samræmi við framlagt tilboð ÍGF. Þá samþykkir byggðarráð að haldinn verði íbúafundur um málið þar sem ÍGF kynnir breytingar og svara fyrirspurnum. Sveitarstjóra falið að útfæra ásamt deildarstjóra umhverfismála.
Byggðarráð vísar erindi um fjölda og staðsetningu grenndarstöðva til Umhverfis- og landbúnaðarnefndar með ósk um tillögur frá nefndinni.

Samþykkt samhljóða.

Hrafnhildur Tryggvadóttir deildarstjóri umhverfis- og framkvæmdamála sat fundinn undir þessum lið.

6.Auka sveitarstjórnarfundur í apríl 2023

2304087

Framlögð tillaga um aukafund sveitarstjórnar Borgarbyggðar í apríl.
Byggðarráð leggur til að haldinn verði aukafundur í sveitarstjórn Borgarbyggðar miðvikudaginn 26. apríl kl. 10.00 en þar verða tillögur um breytingu á skipuriti og ársreikningur Borgarbyggðar teknar fyrir ásamt öðrum málum sem fram kunna að koma.

Samþykkt samhljóða.

7.Samræming gjaldskráa fyrir námsfólk í íþróttamiðstöðvum

2304086

Tillaga til byggðarráðs frá Bjarneyju Lárudóttur Bjarnadóttur um að sérkjör fyrir námsfólk á gjaldskrám íþróttamiðstöðva gildi óháð því í hvaða skóla þeir stunda nám.
Byggðarráð samþykkir að sama gjaldskrá skuli gildi í íþróttamiðstöðvum Borgarbyggðar óháð því hvar námsfólk stundar nám. Vísað til sveitarstjóra að útfæra í samstarfi við forstöðumann íþróttamannvirkja.

Samþykkt samhljóða.

8.Aðalfundur Orkuveitu Reykjavíkur 2023

2304051

Framlagt fundarboð á aðalfundi Orkuveitu Reykjavíkur og OR eigna 26. apríl 2023.
Fram lagt og sveitarstjóra falið að mæta á fundinn fyrir hönd sveitarfélagsins.

9.Samband ísl.sveitarfélaga - fundagerðir 2023.

2301193

Framlögð fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 921 dags. 30. mars 2023.
Fundargerð framlögð

10.Hafnasamband Íslands - fundargerðir 2023

2301206

Framlögð fundargerð 451. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands dags. 24. mars 2023
Fundargerð framlögð.

Fundi slitið - kl. 10:45.