Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

644. fundur 07. september 2023 kl. 08:15 - 11:30 í fundarsal að Digranesgötu 2
Nefndarmenn
  • Davíð Sigurðsson formaður
  • Guðveig Eyglóardóttir varaformaður
  • Bjarney Bjarnadóttir áheyrnarfulltrúi
  • Thelma Dögg Harðardóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sigurður Guðmundsson, aðalmaður boðaði forföll og Ragnhildur Eva Jónsdóttir varamaður, sat fundinn í hans stað.
Starfsmenn
  • Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri
Dagskrá

1.Viðauki við fjárhagsáætlun 2023

2304017

Lögð fram tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2023. Eiríkur Ólafsson fjármálastjóri Borgarbyggðar og Lilja Björg Ágústsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs koma til fundarins.
Lögð fram tillaga að viðauka V við fjárhagsáætlun 2023. Í tillögunni er gert ráð auknum kostnaði við flutning á gögnum í Safnahús, kostnað vegna niðurstöðu dómsmáls og lögfræðikostnað vegna þess og aukinn kostnað vegna nýbúakennslu í grunnskólum. Þá er einnig gert ráð fyrir auknum kostnaði við aukningu stöðugilda í íþróttamiðstöð, ýmsa ráðgjöf m.a. í barnaverndarmálum og kostnað vegna kynnisferðar.
Á móti koma auknar tekjur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og einnig er gert ráð fyrir lægri launakostnaði í leikskóla.
Á framkvæmdaáætlun er bætt við kaupum á tankbifreið fyrir slökkvilið en á móti kemur lækkun á framkvæmdakostnaði við slökkvistöð.
Heildaráhrif viðaukans eru lækkun á handbæru fé fyrir 25,7 m.kr.

Samþykkt samhljóða.

2.Fjárhagsáætlun 2024

2307011

Framlögð drög að tímaramma vinnu við fjárhagsáætlun 2024.
Vinna við fjárhagsáætlun 2024 hófst síðsumars og stendur nú yfir. Forstöðumenn stofnana vinna nú tillögu að ramma fyrir sínar stofnanir í samstarfi við fjármála- og stjórnsýslusvið. Skipulags- og umhverfissvið vinnur að nú að tillögu um fjárfestingar og viðhald í samræmi við útistandandi leiðsögn sveitarstjórnar. Í október eru áætlaðir vinnufundir sveitarstjórnar um rekstur og fjárfestingar til næstu ára. Áætlað er að tillaga að fjárhagsáætlun verði lögð fram til fyrri umræðu þann 9. nóvember og til seinni umræðu 14. desember.

Eiríkur Ólafsson fór af fundi að afloknum þessum lið.

3.Hvalfjarðarsveit - Beiðni um samning vegna barnaverndarþjónustu og annarrar félagsþjónustu Borgarbyggðar

2010038

Drög að samningi við Hvalfjarðarsveit um barnaverndarþjónustu lögð fram.
Lagt fram og vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

4.Umræða um Slökkvilið Borgarbyggðar

2309048

Umræða um málefni Slökkviliðs Borgarbyggðar; verkefnin, rekstur og fjárfestingarþörf. Heiðar Örn Jónsson slökkviliðsstjóri mætir til fundarins.
Byggðarráð þakkar slökkviliðsstjóra fyrir gott samtal. Heiðar Örn tók við starfi slökkviliðsstjóra þann 1. apríl sl. og fór hann yfir fyrstu mánuði í starfi og áherslur í rekstri og fjárfestingum í komandi áætlanagerð. Slökkviliðsstjóri lýsti breyttum áherslum svo sem í boðun slökkviliðsmanna á vettvang og æfingar til að halda aftur af kostnaðarþróun á móti auknu álagi. Slökkvilið Borgarbyggðar er afar vel mannað af vel menntuðu slökkviliðsfólki. Fram kom hjá slökkviliðsstjóra að þörf er á aukinni mönnun til að sinna eldvarnareftirliti.
Það sem af er þessu ári eru útköll slökkviliðsins samtals 48 sem er u.þ.b. tvöföldun frá því árin þar á undan. Verulegur hluti útkalla er vegna slysa á þjóðvegum á starfssvæði slökkviliðsins.
Að mati byggðarráðs Borgarbyggðar er full ástæða til að sveitarfélögin eigi samtal við ríkisvaldið um að brunavarnir, eldvarnareftirlit og viðbragð á þjóðvegum sé hluti af almannavörnum landsins. Byggðarráð vill vekja sérstaka athygli á því að viðbragð vegna eldgosa er í auknum mæli til að verjast útbreiðslu gróðurelda. Baráttu við gróðurelda þekkir slökkviliðsfólk úr Borgarbyggð mjög vel. Byggðarráð Borgarbyggðar hvetur til þess að almannavarnir í samstarfi við sveitarfélög standi að uppbyggingu á nauðsynlegum búnaði til að verjast gróðureldum.

5.Fornbílafjelag Borgarfjarðar - samskipti vegna húsnæðismála

2205035

Stjórn Fornbílafjelags Borgarfjarðar kemur á fund byggðarráðs til að ræða húsnæðismál félagsins.
Gott samtal fór fram við stjórnarmenn í Fornbílafjelagi Borgarfjarðar. Það kom fram vilji frá þeim þess efnis að stefnt yrði sem fyrst að uppgjöri á milli aðila um bætur frá sveitarfélaginu til Fornbílafjelagsins vegna lokunar aðstöðu þeirra í Brákarey árið 2021. Byggðarráð felur sveitarstjóra að halda áfram viðræðum við stjórn félagsins.

Samþykkt samhljóða.

6.Brákarey - framtíðarskipulag

2111213

Lögð fram drög að samningi við ráðgjafarsvið KPMG um að móta tillögur að stofnun þróunarfélags um uppbyggingu í Brákarey ásamt framkvæmd hagsmunamats við slíka uppbyggingu fyrir samfélagið.
Byggðarráð samþykkir framlögð drög og felur sveitarstjóra að undirrita með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

Lilja Björg Ágústsdóttir fór af fundi að afloknum þessum lið.

7.Starfshópur um skattalegt umhverfi orkuvinnslu

2307228

Framlögð drög að umsögn eða sjónarmið Borgarbyggðar til starfshóps um skoðun á skattalegu umhverfi orkuvinnslu sem nú eru til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda.
Byggðarráð samþykkir framlögð drög og felur sveitarstjóra að fullvinna og koma á framfæri.

Samþykkt samhljóða.

Davíð Sigurðsson fór af fundi að afloknum þessum lið.

8.Hvatning til sveitarstjórna um mótun málstefnu

2309029

Framlagt bréf Innviðaráðuneytisins þar sem sveitarfélög eru hvött til að setja sér málstefnu í samræmi við lagaákvæði þar um.
Lagt fram til kynningar.

9.Beiðni um framlag til starfsemi Stígamóta 2024.

2309014

Beiðni Stígamóta um fjárframlag fyrir árið 2024.
Framlögð umsókn Stígamóta um styrk til rekstrar fyrir árið 2024. Stígamót veita mikilvæga þjónustu fyrir landsmenn alla, þar á meðal íbúa Borgarbyggaðr. Byggðarráð leggur til að veittur verði 100.000 kr. styrkur, sem er í samræmi við styrk yfirstandandi árs, til Stígamóta og vísar afgreiðslu til fjárhagsáætlunar.

Samþykkt samhljóða.

10.Haustþing SSV 2023

2309025

Framlagt fundarboð á haustþing SSV sem fram fer fram á Fosshótel Reykholti miðvikudaginn 4 október n.k..
Fundarboð framlagt og er aðalfulltrúum Borgarbyggðar á aðalfund SSV 2022-2026 falið að mæta á þingið fyrir hönd sveitarfélagsins en þeir eru Bjarney L. Bjarnadóttir, Brynja Þorsteinsdóttir, Eva Margrét Jónudóttir og Sigrún Ólafsdóttir.

Samþykkt samhljóða.

11.Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2023

2309008

Framlagt fundarboð á aðalfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn verður þann 20. sept. 2023.
Fundarboð framlagt og felur byggðarráð Eiríki Ólafssyni fjármálastjóra að mæta á fundinn fyrir hönd Borgarbyggðar.

Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 11:30.