Fara í efni

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd

9. fundur 16. janúar 2020 kl. 13:00 - 15:45 í stóra fundarsal í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Margrét Vagnsdóttir formaður
  • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir varaformaður
  • Davíð Sigurðsson aðalmaður
  • Sigurjón Helgason aðalmaður
Starfsmenn
  • Ragnar Frank Kristjánsson forstöðumaður umhverfis- og skipulagssviðs
  • Hrafnhildur Tryggvadóttir verkefnisstjóri
Fundargerð ritaði: Hrafnhildur Tryggvadóttir Verkefnisstjóri
Dagskrá

1.Umgengni utanhúss í Borgarbyggð

1907179

Drög að samþykkt um umgengni utanhúss í Borgarbyggð lögð fram.
Drög að samþykkt um umgengni utanhúss lögð fram. Umhverfis- og landbúnaðarnefnd leggur til að áfram verði unnið að samþykktinni í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands. Nefndin felur Umhverfis- og skipulagssviði að senda drögin til Heilbrigðisnefndar Vesturlands og óska eftir áliti hennar um möguleika á sameiginlegri samþykkt fyrir allt starfssvæði nefndarinnar, líkt og gert er t.d. á Austurlandi.

2.Verndun bæjarlandslags í Borgarnesi

1912046

Erindi vísað til nefndarinnar af 510. fundi byggðaráðs. Erindið hefur áður verið til umfjöllunar hjá nefndinni, og óskaði Umhverfis- og skipulagssvið eftir fjármagni til að gera faglega úttekt á útbreiðslu ágengra tegunda í Borgarnesi. Því var hafnað á 487. fundi byggðaráðs.
Umhverfis-og landbúnaðarnefnd bendir á að stefnumótun um verndun sérstæðra náttúruminja er sett fram í aðalskipulagi sveitarfélaga, undir hverfisvernd. Við endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar 2011-2022 verður þessi kafli skoðaður sérstaklega.

Þá leggur nefndin til að lögð verði áhersla á að kortleggja útbreiðslu kerfils í Borgarnesi og á Hvanneyri. Nefndin felur Umhverfis-og skipulagssviði að kanna möguleikann á að nemendur Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri komi að slíku verkefni. Þegar það liggur fyrir verður gerð áætlun um næstu skref.
Nefndin telur æskilegt að sporna við útbreiðslu lúpínu í þéttbýli.

3.Magn úrgangs í Borgarbyggð 2019

2001063

Lagt fram yfirlit yfir magn úrgangs í Borgarbyggð 2019 samkvæmt upplýsingum frá þjónustuaðila sorphirðu. Heildarmagn úrgangs hefur aukist en sé tillit tekið til íbúafjölda, þá er magn úrgangs 863 kg. á íbúa, sem er samdráttur um eitt kíló frá árinu 2018. Meira er flokkað af endurvinnslustöðvum en áður, en heldur minna er flokkað frá heimilum og af gámastöð. Þegar horft er á heildarmagn úrgangs, þá fer 60% í urðun, 35% í flokkun og 5% á Bjarnhóla.
Þegar sorphirða frá heimilum er skoðuð eingöngu, þá minnkar magn úrgangs úr 197 kg. pr íbúa niður í 190 kg. Þá kemur í ljós að mjög hátt hlutfall heimilisúrgangs fer til urðunar eða 78% úrgangs en 22% fer til endurvinnslu.
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd telur jákvætt að magn úrgangs minnki milli ára og að 60% af úrgangi fari til endurvinnslu þegar heildarmagnið er skoðað. Því er mikilvægt að auka fræðslu og hvatningu til íbúa.

4.Söfnun lífræns úrgangs

1804032

Rætt um kynningarmál í tengslum við innleiðingu á hirðingu á lífrænum úrgangi sem áætlað er að hefjist 1. apríl.
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd mun kynna verkefnið á íbúafundum í sveitarfélaginu. Íbúafundur verður haldinn í Hjálmakletti þann 28. janúar kl. 20:00. Þar munu fulltrúar Íslenska Gámafélagsins kynna þriggja tunnu kerfið og svara fyrirspurnum.
Nefndin mun efna til íbúafunda og kynna breytt fyrirkomulag sorphirðu og tilraunaverkefni um söfnun og förgun dýraleifa af lögbýlum á eftirfarandi stöðum: Lyngbrekku, Þinghamri, Logalandi og Hvanneyri sem auglýstir verða nánar í næstu viku.

5.Landspildur í landi Hamars og Kárastaða

1312042

Lögð fram gögn um landspildur sem einstaklingar eru með til umráða í nágrenni við Borgarnes.
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd leggur til að öllum samningum um afnot af spildum í eigu sveitarfélagsins í landi Hamars, Borgarlands og Kárastaða verði sagt upp. Í framhaldinu verði gerðir nýjir samningar við hestamannafélagið Borgfirðing um beitarafnot, umgengni og umhirðu landsins. Umhverfis- og landbúnaðarnefnd óskar eftir því að stofnaður verði vinnuhópur sem skipaður er fulltrúum hagsmunaaðila til að vinna drög að nýjum samningi og reglum og vísar þeirri tillögu til sveitarstjórnar til samþykktar.

6.Skipulagsmál í eldri hluta Borgarness, framtíðarsýn

2001064

Lögð fram tillaga Umhverfis- og skipulagssviðs um deiliskipulagsverkefni ársins 2020 til kynningar.
Umhverfis og landbúnaðarnefnd þakkar fyrir góða kynningu á skipulagsverkefnum.

7.Endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar 2010-2022

1809125

Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022. kafli 4.4 Samgöngur bls. 17-24.
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd fjallaði um samgöngur í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022. Nefndin tekur undir bókun Skipulags- og byggingarnefndar um að skoða þurfi legu stofnvega og Hringvegar um sveitarfélagið í samvinnu við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Þá er það álit nefndarinnar að taka beri hjáleið um Borgarnes út af aðalskipulagi sbr. bókun sveitarstjórnar þann 10.11.2016 og nýta fjármagn sem er á Samgönguáætlun í stofn- og tengivegi í sveitarfélaginu t.d. nýja brú yfir Hvítá við Stafholtsey, tvöföldun brúar yfir Norðurá, lagningu bundins slitlags á tengivegi, uppbyggingu göngu -og hjólastígs með Borgarfjarðarbraut. Þá er brýnt að tryggja öryggi gangandi vegfarenda meðfram Hringvegi í Borgarnesi.

Fundi slitið - kl. 15:45.