Fara í efni

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd

69. fundur 30. nóvember 2018 kl. 08:30 - 12:45 í fundarsal í ráðhúsinu að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir formaður
  • María Júlía Jónsdóttir aðalmaður
  • Sigurður Guðmundsson aðalmaður
  • Davíð Sigurðsson aðalmaður
  • Orri Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Hrafnhildur Tryggvadóttir verkefnisstjóri
  • Sigurður Friðgeir Friðriksson skipulagsfulltrúi
  • Ragnar Frank Kristjánsson forstöðumaður umhverfis- og skipulagssviðs
Fundargerð ritaði: Hrafnhildur Tryggvadóttir
Dagskrá

1.Beiðni um afgirt svæði fyrir hunda í Borgarnesi

1810048

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd samþykkir framlagða tillögu um staðsetningu hundagerðis sunnan við núverandi tjaldsvæði í Borgarnesi. Nefndin leggur áherslu á að komið verði upp upplýsingaskilti og gengið verði vel um svæðið. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að útfæra og framkvæma verkið.

2.Umsókn um lóð - Berugata 3

1809129

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar leggur til við sveitarstjórn Borgarbyggðar að stofnuð verði lóð við Berugötu 3 og í framhaldinu verði hún auglýst laus til umsóknar.
MJJ leggur fram eftirfarandi bókun:
"Ég er mjög hlynnt þéttingu byggðar, en áður en farið er í að ráðstafa ákveðnum lóðum vil ég sjá heildræna stefnumörkun um hvernig áætlað er að standa að þéttingu byggðar og að farið verði í gerð rammaskipulags."

3.Vatnsveita Varmalands

1811059

Farið yfir stöðu vatnsmála við Varmaland.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar leggur til við sveitarstjórn Borgarbyggðar að samþykkja að farið verði í að kanna möguleika á nýju vatnsbóli við Norðurá fyrir Varmaland og nágrenni.

4.Viðhald gatna

1802016

Sviðsstjóri Umhverfis-og skipulagssviðs fer yfir ástand gatna í þéttbýli í sveitarfélaginu.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd lýsir yfir ánægju sinni með yfirlitið. Nefndin leggur til að skjalið verði fullunnið og gert aðgengilegt íbúum.

5.Leikvellir í Borgarnesi okt. 2018

1810197

Verkefnastjóri á Umhverfis-og skipulagssviði fer yfir ástandsskoðun á leiksvæðum í Borgarnesi.
Ákveðið hefur verið að færa umsýslu með opnum leikvöllum á vegum sveitarfélagsins frá fræðslusviði yfir á umhverfis- og skipulagssvið. Af því tilefni er ástæða til að yfirfara vel ástand þeirra, sérstaklega m.t.t. öryggis leiktækja. Á undanförnum árum hefur lítið fjármagn verið sett í verkefnið og því mikilvægt að gera sér grein fyrir ástandi svæðanna. Verkefnastjóri á Umhverfis-og skipulagssviði kynnti ástand opinna leiksvæða í Borgarnesi. Almennt er ástandið gott, ef frá eru talin leiksvæði í Bjargslandi og Bjössaróló. Nefndin þakkar góða kynningu og leggur til að ástand opinna leiksvæða í öðrum þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins verði kannað.

6.Rammaskipulag

1811122

Skipulagsfulltrúi kynnir skipulagshugtakið Rammaskipulag og tengsl þess við aðrar skipulagsáætlanir.
Umhverfis-,skipulags- og landbúnaðarnefnd þakkar skipulagsfulltrúa kynningu á hugtakinu. Nefndin leggur til að hafin verði vinna við undirbúning að rammaskipulagi fyrir Brákarey og Hamars- og Kárastaðaland þar sem íbúar verði virkjaðir við hugmyndavinnuna. Í framhaldinu verði vinnan og reynslan metin og tekin ákvörðun um hvort farið verði í gerð rammaskipulags á fleiri svæðum í sveitarfélaginu.

7.Fossatún - lýsing á breytingu á Aðalskipulagi borgarbyggðar 2010-2022

1811099

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við Sveitarstjórn Borgarbyggðar að samþykkja lýsingu að breytingu á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 fyrir Fossatún til auglýsingar. Verslunar- og þjónustusvæði stækkar til norðausturs. Ástæða fyrir breytingu er aukin eftirspurn gistingar og fjölbreytni í gistimöguleikum í Fossatúni. Smáhýsi verða staðsett á því svæði sem var tjaldsvæði, en sú þjónusta hefur verið lögð niður. Málsmeðferð var samkvæmt 36. grein Skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Iðunnarstaðir breyting á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022

1811097

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við Sveitarstjórn Borgarbyggðar að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 fyrir Iðunnarstaði í Lundarreykjardal til auglýsingar. Fyrirhugað er að breyta landnotkun svæðis í landi Iðunnarstaða úr landbúnaði í verslun- og þjónustu og opið svæði til sérstakra nota. Breytingin mun taka til 4,2 ha. svæðis, verslun- og þjónustusvæði verði 1, 6 ha. og opið svæði til sérstakra nota 2,6 ha. Nýtingarhlutfall fyrir verslunar- og þjónustusvæðis reitinn verði 0,18. Engar ábendingar bárust sveitarfélaginu í lýsingarferli. Tekið verður tillit til umsagna frá lögaðilum í aðalskipulagstillögu. Málsmeðferð var samkvæmt 36. grein Skipulagslaga nr. 123/2010.

9.Iðunnarstaðir - tillaga að nýju deiliskipulagi

1811098

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við Sveitarstjórn Borgarbyggðar að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Iðunnarstaði í Lundarreykjardal til auglýsingar. Markmið skipulagsins er að skapa ramma utan um heilstæðan og vistvænan hótelrekstur. Haft er að leiðarljósi við hönnun svæðisins að mannvirki falli sem best að umhverfi. Stefnt er að því að byggja hótelið úr steypueiningum, gert er ráð fyrir þremur nýjum samtengdum byggingum, tveimur gistiálmum og byggingu sem hýsir veitingaaðstöðu. Byggingar verða tengdar saman með léttu þaki. Hámarksstærð samanlagðra gólfflata bygginga skal ekki vera meiri en 1350 m², gistiálmur skulu vera með hefðbundnu mænisþaki, byggingin fyrir veitingaaðstöðuna skal vera með einhalla þaki. Hámarks salarhæð bygginga skal ekki vera meiri en 6 m. Skipulagsáætlun gerir ráð fyrir 2,6 ha tjaldsvæði. Sameiginleg aðkoma verður að tjaldsvæðinu og hótelinu. Gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir húsbíla ásamt salernishúsi, köldu vatni og rafmagni fyrir tjaldvagna og húsbíla. Málsmeðferð var samkvæmt 41. grein Skipulagslaga nr. 123/2010.

10.Eskiholt 2 lnr. 135027 - breyting á deiliskipulagi

1808023

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundarbyggð í landi Eskiholts 2, landnúmer135027. Tillagan er sett fram í greinargerð og í uppdrætti dags. 11. júlí 2018. Þær breytingar sem um ræðir er stækkun sumarbústaðasvæðisins til norðurs um 28 lóðir, stækkun 2 lóða og sameining 3 lóða, í landi sem búið var að taka úr landbúnaðarnotkun. Stækkunin er innan núverandi deiliskipulagsmarka. Aðkoma að nýja svæðinu er eftir núverandi vegi fyrir neðan Þverbrekku, en þar tekur við nýr vegur sem greinist í fjóra botnlanga. Vatnsból á svæðinu hefur verið lagt af og byggðin er tengd vatnsveitu sveitarfélagsins. Ein athugasemd í tveimur liðum barst sveitarfálaginu á auglýsingar- og athugasemdafestar tímabili, komið verður á móts við athugasemdir. Málsmeðferð verður samkvæmt 43. grein Skipulagslaga nr. 123/2010. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

11.Borgarbraut 55-59 - óveruleg breyting á deiliskipulagi.

1811143

Davíð Sigurðsson og María Júlía Jónsdóttir víkja af fundi undir þessum lið.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd frestar afgeiðslu málsins til 12. des. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að afla frekari upplýsinga og gagna um málið.

12.Gjaldskrár USL 2019

1811061

Tillögur að gjaldskrám 2019 lagðar fram.
Umhverfis-,skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til eftirfarandi breytingar:
Gjaldskrá fyrir hunda- og kattaleyfisgjöld: lagt er til að leyfisgjald fyrir að halda hunda- og ketti verði haldið óbreyttu frá árinu 2018.
Ekki aðrar athugasemdir gerðar við framlagðar tillögur að gjaldskrám.

Fulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:
"Undirritaðir gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð meirihlutans í umhverfis, skipulags og landbúnaðarnefnd. Ekki er farið eftir samþykktum nefndarinnar þó svo þær hafi verið samþykktar af sveitarstjórn samanber samþykkt nefndarinnar um að bjóða út snjómokstur í Borgarnesi. Var sú samþykkt staðfest síðar af sveitarstjórn en síðar virt af vettugi af meirihlutanum.
Auk þess er algerlega óviðunandi að formaður nefndarinnar skuli ekki fylgja þeim málum eftir af festu sem byggðarráð vísar til nefndarinnar, samanber tvö mál sem liggja fyrir þessum fundi en var vísað til nefndarinnar 30. ágúst síðastliðinn.
Auk ofangreindra atriða hefur aldrei komið inn á borð nefndarinnar framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun sem liggur nú fyrir til seinni umræðu. Þetta eru vinnubrögð sem eru algerlega óviðunandi, sér í lagi í ljósi umræðu um gagnsæi og góð vinnubrögð við slíka vinnu. Óásættanlegt er fyrir fulltrúa í umhverfis, skipulags og landbúnaðarnefnd að fá ekki að fjalla um fjárhagsramma þeirra málaflokka sem heyra undir nefndina eins og hefur tíðkast. Er það sérstakt í ljósi þess að allar aðrar fastanefndir á vegum Borgarbyggðar hafa fjallað um sinn fjárhagsramma en ekki sú nefnd sem hér situr. Vonandi eru ekki fleiri mál sem haldið er frá nefndinni líkt og þetta. Í þeirri fjárhagsáætlun sem nú liggur fyrir sveitarstjórn til seinni umræðu er um töluverða aukningu á framlögum til umhverfis og skipulagsmála að ræða og telja undirritaðir að rétt væri að nefndin myndi að lágmarki fá að fara yfir þau mál. Þessi vinnubrögð eru í engum takti við það vinnulag sem meirihlutinn boðaði varðandi vinnu við fjárhagsáætlun almennt og hvetja undirritaðir meirihlutann til þess að fara yfir eigið vinnulag í þessum samhengi og reyna að gera tilraun til þess að fylgja því. Samkvæmt því vinnulagi sem var boðað af meirihlutanum var ætlunin að bera fjárhagsáætlun undir nefndir 1. - 30. september en núna er komið fram í lok nóvember. Vinnubrögð sem þessi eru fullkomlega óviðunandi og ekki boðleg fyrir kjörna fulltrúa sem og íbúa þegar um jafn mikilvægt plagg og fjárhagsáætlun er að ræða. Ljóst er að meirihlutinn og formaður nefndarinnar telja sig ekki þurfa aðkomu og sjónarmið fulltrúa nefndarinnar að málum og verkefnum.
Ef undirritaðir fá engin rökrétt svör við þessari bókun er eðlilegt að undirritaðir leggji það til við sveitastjórn að hún taki til umræðu tilgang nefndarinnar þar sem hún virðist þjóna afar takmörkuðum tilgangi eins og staðan er í dag, vegna þess að ekki er farið eftir þeim samþykktum sem samþykktar eru af nefndinni, mál eru ekki tekin fyrir á fundum við fyrsta tækifæri sem búið er að vísa til nefndarinnar og fjárhagsáætlun er ekki lögð fyrir nefndina. "

Davíð Sigurðsson
Orri Jónsson
Fulltrúar Framsóknarflokksins

Hlé var gert á fundinum til kl. 12:17

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun :
"Fulltrúar meirihlutans taka undir þau sjónarmið minnihlutans að vinnubrögð varðandi snjómokstursútboð sem samþykkt var af nefndinni 30. ágúst sl er ekki samkvæmt því sem samþykkt var á fundinum.
Skýra þarf verkferla svo mál falli ekki milli skips og bryggju og það er markmið meirihlutans að skýra verkferla með gerð gæðahandbóka.
Samkvæmt drögum að tímaáætlun er það lagt upp að í september gera sviðsstjórar og forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins drög að fjárhagsáætlun. Farið er yfir drögin með viðkomandi nefndum. Á fundi Usl nefndar 28. september sl. var farið yfir vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Byggðarráð tekur tillögur forstöðumanna og sviðsstjóra til afgreiðslu og forgangsraðar einnig framkvæmdum og fjárfestingum. Tillaga að fjárhagsáætlun er svo tekin til fyrri umræðu í sveitarstjórn. Eftir það er unnið við breytingar ef þörf er á t.d. vegna ákvarðana byggðarráðs/sveitarstjórnar eða að forsendur (t.d. verðlagsþróun eða tekjuspá) hafa breyst. Í desember er tillaga að fjárhagsáætlun tekin til síðari umræðu í sveitarstjórn og vinnunni þar með lokið. Á þessu tímabili barst nefndinni ekki endanleg áætlun sviðsins til umræðu. Það er eðlilegur hlutur að usl þarf að fjalla um fjárhagsrammann, það eru augljós mistök að sú umræða hefur ekki farið fram annarsstaðar en í byggðarráði. Fara þarf enn frekar yfir verkferla í þessu.
Fulltrúar meirihlutans leggja til að haldinn verði aukafundur um fjárhagsáætlun."
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir
María Júlía Jónsdóttir
Sigurður Guðmundsson

Nefndin ákveður að haldinn verði aukafundur í USL- nefnd þann 4. desember.

13.Stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands - kynning

1706053

Lögð fram greining tækifæra með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Skýrsla þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Athugasemdafrestur við skýrsluna er til 21. des. 2018.
Ákveðið að fresta málinu til aukafundar 4. des.

14.Kynning á verkefni

1808186

Vísað til USL nefndar af fundi byggðaráðs 30. ágúst 2018.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd tekur vel í innsendar hugmyndir. Nefndin óskar eftir kynningu forsvarsmanna verkefnisins.

15.Rafveita í hesthúsahverfinu í Borgarnesi

1808149

Vísað til USL nefndar af fundi byggðaráðs 30. ágúst 2018.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn Borgarbyggðar að taka jákvætt í breytingu á fyrirkomulagi á götulýsingu við hesthúsahverfið í Borgarnesi.

16.Fjallgirðing yfir Kvíafjall - Endurnýjun

1811127

Vísað til USL - nefndar af fundi byggðaráðs 29. nóvember 2018.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til að samþykkt verði að fjármagna endurnýjun fjallgirðingar yfir Kvíafjall, á sambærilegan hátt og áður hefur verið gert með svipuð verkefni.

Fundi slitið - kl. 12:45.