Fara í efni

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd

77. fundur 05. apríl 2019 kl. 08:30 - 11:00 í fundarsal í ráðhúsinu að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Guðmundur Freyr Kristbergsson formaður
  • María Júlía Jónsdóttir varaformaður
  • Sigurður Guðmundsson aðalmaður
  • Orri Jónsson aðalmaður
  • Guðveig Eyglóardóttir varamaður
Starfsmenn
  • Hrafnhildur Tryggvadóttir verkefnisstjóri
  • Sigurður Friðgeir Friðriksson skipulagsfulltrúi
  • Ragnar Frank Kristjánsson forstöðumaður umhverfis- og skipulagssviðs
Fundargerð ritaði: Hrafnhildur Tryggvadóttir verkefnastjóri
Dagskrá

1.Hreinsunarátak í þéttbýli 2019

1903201

Hreinsunarátak í þéttbýli Borgarbyggðar er árvekniátak sem haldið er ár hvert til að hvetja íbúa til að snyrta til í kringum sig.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd samþykkir að hreinsunarátak í þéttbýli 2019 verði sem hér segir:
Hvanneyri, Varmaland, Kleppjárnsreykir og Bifröst: 30. apríl - 5. maí.
Ílát fyrir gróðurúrgang, málma, timbur og sorp verði á hverjum stað.
Borgarnes 7. - 12. maí
Ílát fyrir gróðurúrgang verði við Ugluklett, Klettaborg, Íþróttamiðstöð og Grunnskólann.
Því til viðbótar verði ílát fyrir sorp við íþróttamiðstöð.
Þá samþykkir nefndin að fela umhverfis- og skipulagssviði að kanna möguleika á samstarfi við félagasamtök um hreinsun strandlengjunnar umhverfis Borgarnes á norræna strandhreinsunardeginum 4. maí og hugsanlega fleiri verkefni.
Guðveig Eyglóardóttir vék af fundi vegna tengsla við aðila málsins.

2.Verndun bæjarlandslags í Borgarnesi

1705006

Umhverfis-, skipulags - og landbúnaðarnefnd leggur til að Náttúrustofu Vesturlands verði falið að gera úttekt á útbreiðslu ágengra tegunda í Borgarnesi.
Guðveig Eyglóardóttir kemur aftur inn á fundinn.

3.Fundargerð Sorpurðunar Vesturlands 1.3.2019

1903043

Byggðarráð samþykkir að vísa fundargerðinni til umhverfis - skipulags - og landbúnaðarnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd fagnar áformum um girðingu umhverfis urðunarsvæðið. Nefndin telur gríðarlega mikilvægt að hefta fok frá urðunarstaðnum.
Óskað verður eftir að fá fulltrúa Sorpurðunar Vesturlands á næsta fund nefndarinnar til að kynna áform Sorpurðunar Vesturlands í Fíflholtum.

4.Húsafell, verslunar- og þjónustusvæði - Breyting á deiliskipulagi

1903111

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi fyrir verslunar- og þjónustusvæði í landi Húsafells til grenndarkynningar. Breytingin varðar deiliskipulagsuppdrátt og skilmála. Ástæða breytingar er fyrirhuguð stækkun þjónustumiðstöðvar. Breyting á deiliskipulagi Húsafell, verslunar- og þjónustusvæði tekur til færslu á lóðarmörkum á lóð þjónustumiðstöðvar (L:134503), ásamt byggingarreit hennar. Lóðarmörk eru hliðruð frá hnitapunkti 50 og 51 að austan- og sunnanverðu. Byggingarmagn viðbyggingar þjónustuhúss er breytt úr 100 m² í að heimilt sé að auka byggingarmagn innan byggingareits í allt að 200 m² byggingu. Lóð þjónustumiðstöðvar er undir hverfisvernd er varðar birkiskóga og kjarr og undir aðrar náttúruminjar á Náttúruminjaskrá 1996. Byggingarreitur þjónustumiðstöðvar er staðsettur á röskuðu svæði, við uppbyggingu þjónustumiðstöðvar skal öllu raski haldið í lágmarki. Fyrirhuguð breyting er í samræmi við Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022. Málsmeðferð verður samkvæmt 2. mgr. 43. grein Skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Hraunsnef, breyting á aðalskipulagi

1902167

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við Sveitarstjórn Borgarbyggðar að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 fyrir Hraunsnef í Norðurárdal til auglýsingar. Fyrirhugað er að breyta aðalskipulagi, bæta við frístundabyggð (F148) á um 21 ha svæði í landi Hraunsnefs, innan frístundasvæðisins verða 12 frístundahús. Haldin var kynningarfundur er varðar aðalskipulagsbreytingu í mars 2019. Tekið var tillit til umsagna frá lögaðilum í aðalskipulagstillögu. Málsmeðferð var samkvæmt 36. grein Skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Bifröst - óveruleg breyting á deiliskipulagi

1903202

Tillagan gerir ráð fyrir sameiningu lóðar fyrrum stúdentagarðsbyggingarinnar Hamragarðs sem nú er hótel og lóðar þar sem verslun var áður. Ný viðbótarlóð kemur á núverandi aðkomu 2341, sem tengir lóðirnar tvær saman, en hluti af eldri lóð fyrir kennarabústað sem minnkar um 45m² sameinast viðbótarlóð. Heildarstærð nýrrar lóðar er 2.369m². Heimilt er að byggja tengibyggingu á einni hæð að hámarki 125m². Hámarks nýtingarhlutfall á lóðinni er 0,5. Tengibygging er á milli Hamragarðs og fyrrum verslunarbyggingar, sem mun hýsa móttöku og sali. Hönnun nýbyggingarinnar skal taka tillit til og mið af viðkvæmu umhverfinu og útlit byggingarinnar skal samrýmt öðrum byggingum á nýrri sameinaðri lóð. Tillagan gerir ráð fyrir nýjum aðkomuvegi í framhaldi af Víðihrauni, norðaustur af leikskóla, sem tengir norðurbyggð við háskólasvæðið. Vesturhluti vegar er að hluta til á lóð leikskólans.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd metur að hér sé um verulega breytingu á deiliskipulagi að ræða. Nefndin telur að vegurinn muni hafa áhrif á nærliggjandi aðila, þ.m.t. leikskólann Hraunborg, og raski á umhverfi sem er undir hverfisvernd.
Málsmeðferð verði samkvæmt 1. mgr. 43. grein Skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem opinberar stofnanir og stjórnvöld sem sinna lögbundnum verkefnum á sviði skipulagsmála og leyfisveitingum þeim tengdum, koma að málum.

7.Litla Brekka, óveruleg breyting á deiliskipulagi

1902166

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi fyrir Litlu-Brekku í Borgarbyggð. Í breytingartillögu er lóð nr. 02 stækkuð og færð lítillega til. Fyrirhuguð breyting er í samræmi við Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022. Umhverfis- og skipulagssvið hefur kynnt málið nágrönnum og hagsmunaaðilum fyrirhugaða framkvæmd. Engar athugasemdir voru gerðar við grenndarkynningu. Málsmeðferð verður samkvæmt 43. grein Skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Brákarbraut 27 lnr. 191759 - Umsókn um byggingarleyfi, viðbygging

1903172

Umhverfis-,skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu Grímshúss í Borgarnesi við Brákarbraut 27. Engar athugasemdir voru gerðar við grenndarkynningu. Umhverfis- og skipulagssvið hefur kynnt málið nágrönnum sem hagsmuna eiga að gæta, fyrirhugaða framkvæmd. Málsmeðferð var samkvæmt 44. grein Skipulagslaga nr. 123/2010. Hagsmunaaðilar hafa lýst skriflega yfir með áritun sinni á kynningargögn að þeir geri ekki athugasemd að byggingarleyfi verði veitt.

Umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefnd er heimilt að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta, sbr. 1. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, hafa lýst skriflega yfir með áritun sinni á kynningargögn áður en fjórar vikur eru liðnar.

9.Bæjargil lnr.221570 - umsókn byggingarleyfi, legsteinaskáli

1901130

Umhverfis- og skipulagssvið hefur kynnt fyrirhugaða framkvæmd fyrir nágrönnum sem hagsmuna eiga að gæta, sbr. grenndarkynningu dags. 27.02.2019, en málsmeðferð var samkvæmt 44. grein Skipulagslaga nr. 123/2010. Af þeim fimmtán aðilum sem sveitarfélagið mat sem svo að ættu hagsmuni í málinu, og sem fengu grenndarkynningu senda, gerðu fjórtán ekki athugasemd við að hið kynnta byggingarleyfi verði veitt. Einn aðili gerði athugasemdir við grenndarkynningu og var erindi hans þar um lagt fram á fundinum ásamt svarbréfi. Nefndin áréttar að aðeins er verið að afgreiða umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddan legsteinaskála en ekki önnur mannvirki eða framkvæmdir á lóð umsækjanda.

Umhverfis-,skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerðar efnislegar breytingar á kynntum gögnum og að samþykkja umrætt byggingarleyfi. Sveitarstjórn sendir þeim aðila sem gerði athugasemd, umsögn um hana ásamt niðurstöðu.

10.Niðurskógar (Hraunbrekkur 36), óveruleg breyting á deiliskipulagi

1903211

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Niðurskóga í Húsafelli til grenndarkynningar. Tillagan nær yfir lóðina Hraunbrekkur 36. Breytingartillagan felur í sér að heimilt er að reisa tvö hús á lóðinni. Auk frístundarhúss er heimilt að byggja gesta og geymsluhús innan byggingarreitsins. Gesta- og geymsluhús skal vera samtengt við aðalhús með verönd. Heimilt er að gera frístundarhús úr timbri og/eða steypu. Stærð frístundarhúss skal ekki vera stærra en 150 m² og gesta- og geymsluhús skal ekki vera stærra en 65m² samtals. Fyrirhuguð breyting er í samræmi við Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022. Málsmeðferð verður samkvæmt 43. grein Skipulagslaga nr. 123/2010.

11.Brákarey - íbúafundur um skipulagsmál, rammaskipulag

1902164

Lagt fram til kynningar.
Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd lýsir ánægju með vel heppnaðan fund og þakkar íbúum fyrir góða þátttöku. Umræður og þeir punktar sem fram komu á íbúafundinum verða nýtt við áframhaldandi vinnu að rammaskipulagi í Brákarey.

12.Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 157

1903016F

Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 11:00.