Fara í efni
23. mar 2022
Breiðabólsstaður 2 og Litlu-Tunguskógur í Borgarbyggð
Í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér með auglýstar skipulagslýsingar að breytingu á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022.

Breiðabólsstaður 2 í Borgarbyggð

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti þann 10. febrúar 2022 að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir íbúðabyggð á Breiðabólsstað 2 í Reykholti, Borgarbyggð.

Fyrirhugað er að breyta landnotkun svæðis í landi Breiðabólsstaðar úr landbúnaðarlandi (L) og athafnasvæði (A1) í íbúðarsvæði (Í4). Breytingin á við um 30,5 ha svæðis og mun þéttbýlissvæði Reykholts stækka sem um þessu nemur. Stefnt er að því að á svæðinu verði 85-100 einbýlis-, par- og raðhúsalóðir auk einnar lóðar fyrir verslun og þjónustu (S2) á þegar skilgreindum reit á aðalskipulagi. Aðkoma er um Hálsasveitarveg (518).

Litlu-Tunguskógur, Húsafelli III í Borgarbyggð

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti þann 10. mars 2022 að auglýsa lýsingu að breytingu á aðalskipulagi fyrir frístundasvæðið Litlu-Tunguskógur í Húsafelli í Borgarbyggð.

Fyrirhugað er að breyta landnotkun landsvæðis Litlu-Tunguskóga (L219075) í Húsafelli úr frístundabyggð í íbúðarsvæði. Svæðið er staðsett 600m austan þjónustumiðstöðvarinnar í Húsafelli, á milli Hálsasveitarvegar og Hvítár. Í gildi er deiliskipulag frá árinu 2007 sem gerir ráð fyrir 54 frístundalóðum og einni þjónustulóð. Gerð verður breyting á deiliskipulagi samhliða. Þar verði gert ráð fyrir að 40 lóðir verði að íbúðahúsalóðum en 14 lóðir austast á svæðinu verði áfram skilgreindar sem frístundalóðir. Aðkoma er um Hálsasveitarveg (518).

Ofangreindar lýsingar eru aðgengilegar á heimasíðu Borgarbyggðar www.borgarbyggd.is frá 23. mars til og með 10. apríl 2022. Ef óskað er eftir nánari kynningu á ofangreindum skipulagslýsingum þarf að panta tíma hjá skipulagsfulltrúa.

Hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma með ábendingar við auglýstar skipulagslýsingar og er frestur til að skila inn ábendingum til 10. apríl 2022. Ábendingum skal skila skriflega í Ráðhús Borgarbyggðar, Bjarnabraut 8, 310 Borgarnesi, b.t. skipulagsfulltrúa eða á netfangið skipulag@borgarbyggd.is eða thjonustuver@borgarbyggd.is.

Vakin er athygli á að athugasemdir teljast til opinberra gagna í allri skipulagsmeðferð og geta meðal annars nöfn íbúa birst í fundargerðum skipulags- og byggingarnefndar.

Borgarbyggð, 23. mars 2022

Skipulagsfulltrúi Borgarbyggðar