Fara í efni

Bætt starfsumhverfi leikskóla í Borgarbyggð

Bætt starfsumhverfi leikskóla í Borgarbyggð

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 12. september sl. tillögu fræðslunefndar um að breyta útreikningi á barngildum í leikskólum Borgarbyggðar frá áramótum. Með ákvörðun sinni er tekið fyrsta skrefið í að bæta starfsumhverfi leikskóla Borgarbyggðar samkvæmt þeim tillögum sem fram koma í skýrslu leikskólastjóra og sviðsstjóra fjölskyldusviðs þess efnis.

Með breytingum á barngildum fækkar börnum á hvern kennara/starfsmann. Hópastærð barna og fjöldi barna á hvern kennara hefur töluverð áhrif á hversu árangursrík leikskóladvöl þeirra er og hefur áhrif á mönnun leikskóla, stjórnun þeirra og ekki síst gæði starfsins. Fámennir barnahópar tryggja að hvert barn fái nægilega athygli sem er mikilvægt fyrir félags- og tilfinningaþroska ungra barna, líkamlega vellíðan og alhliða nám þeirra. Náin samskipti kennara og barns hjálpa börnum að öðlast öryggi og dregur úr kvíða bæði fyrir börn og kennara.