Fara í efni

Nýir íbúar við Borgarbraut

Nýir íbúar við Borgarbraut

Glöggir vegfarendur í Borgarnesi hafa e.t.v. tekið eftir því að ný tré voru gróðursett við Borgarbraut, til móts við Hyrnutorg og Hótel B59, nú í byrjun maí.

 

Tegundin sem um ræðir nefnist silfurreynir (latneskt heiti: Sorbus intermedia) og er fengin frá gróðastöðinni Nátthaga í Ölfusi. Garðyrkjufræðingurinn Ólafur Njálsson í Nátthaga fékk vefjaræktaðar smáplöntur af silfurreyni frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur árið 1995 og eru trén sem gróðursett voru við Borgarbraut því orðin 24 ára gömul. Efniviðurinn var sóttur í elsta tré Reykjavíkur í Gamla kirkjugarðinum, Fógetagarðinum við Aðalstræti 9, en það tré var gróðursett af Georg Schierbeck landlækni árið 1883. Bakgrunnur trjánna er því allmerkilegur.

 

Trén sem gróðursett voru við Borgarbrautina eru á bilinu 5-7 metra há. Silfurreynir getur orðið allt að 400 ára gamall, svo íbúar í Borgarbyggð eiga vonandi eftir að fylgjast með vexti trjánna í margar kynslóðir, ef við berum gæfu til þess að hugsa vel um þau.

 

Á mynd með fréttinni má sjá slökkviliðsstjóra Borgarbyggðar vökva trén.

 

Fréttaskot Umhverfis-og skipulagssviðs nr. 13