Fara í efni

Sveitarstjórn Borgarbyggðar

196. fundur 24. mars 2020 kl. 16:00 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Lilja Björg Ágústsdóttir Forseti
  • Magnús Smári Snorrason 1. varaforseti
  • Guðveig Eyglóardóttir aðalmaður
  • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir aðalmaður
  • Silja Eyrún Steingrímsdóttir aðalmaður
  • Davíð Sigurðsson aðalmaður
  • Guðmundur Freyr Kristbergsson aðalmaður
  • Sigrún Sjöfn Ámundadóttir aðalmaður
  • Orri Jónsson varamaður
Starfsmenn
  • Eiríkur Ólafsson sviðsstjóri fjármála - og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði: Eiríkur Ólafsson
Dagskrá
Forseti bar upp tillögu um að taka á dagskrá tillögu um breytingu á tímasetningu næsta fundar sveitarstjórnar og var það samþykkt samhljóða.

1.Tillaga um notkun fjarfundabúnaðar

2003157

Lögð var fram svohljóðandi tillaga um heimild til að nota fjarfundabúnað á fundum sveitarstjórnar, byggðarráðs og annarra fastanefnda Borgarbyggðar:

"Til að bregðast við aðstæðum sem hafa skapast vegna Covid-19 kórónaveirufaraldursins hefur Alþingi samþykkt breytingar á sveitarstjórnarlögum sem ætlað er að skapa sveitarfélögum svigrúm til að bregðast við neyðarástandi og tryggja að sveitarstjórnir verði starfhæfar. Breytingarnar kveða á um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að sveitarstjórn sé starfhæf
við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að rétt þyki að rýmka reglur um fjarfundi til að bregðast við tilmælum yfirvalda um sóttvarnir, án þess að það torveldi ákvarðanatöku innan stjórnkerfis sveitarfélaga.
Á grundvelli þess að ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna á Íslandi vegna farsóttar af völdum Covid-19, hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tekið svofellda ákvörðun, með vísan til VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
Til að tryggja starfhæfi sitt og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélags er öllum sveitarstjórnum heimilt að taka eftirfarandi ákvarðanir fela m.a. í sér tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr., 5. mgr. 35. gr., 1. mgr. 40. gr., 1. og 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga og 5. gr. leiðbeininga innanríkisráðuneytisins, frá 4. desember 2013, um leiðbeiningar um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna, nr. 1140/2013.
Sveitarstjórnum er heimilt að taka framangreindar ákvarðanir á fundi þar sem allir fundarmenn taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað. Heimildin gildir til 18. júlí 2020.
Á grundvelli þessa samþykkir sveitarstjórn Borgarbyggðar að heimila fjarfundi sveitarstjórnar, byggðarráðs og annarra fastanefnda sveitarfélagsins án þess að fjarlægðir séu miklar, samgöngur innan sveitarfélagsins erfiðar eða að mælt sé fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum sveitarfélagsins.
Einnig samþykkir sveitarstjórn Borgarbyggðar að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar, byggðarráðs og annarra fastanefnda verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 10 og 11. gr. leiðbeininga innanríkisráðuneytisins, frá 15. janúar 2013, um ritun fundargerða, nr. 22/2013."

Tillagan var samþykkt samhljóða.

2.Viðbrögð sveitarfélagsins vegna covid-19 veirunnar

2003158

Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
"Sveitarstjórn hefur ákveðið að dvalar- og fæðisgjöld í leikskólum og matargjald í grunnskólum verði endurreiknuð frá og með 17. mars þegar samkomubann tók gildi og skerða þurfti skólagöngu nemenda í grunnskólum og leikskóladvöl barna í leikskólum. Greiða foreldrar gjöldin eingöngu þá daga sem barnið sótti skólann samkvæmt upplýsingum frá kennurum. Einnig munu mánaðar- og árskort í sund og líkamsrækt verða framlengd um þann tíma sem lokanir standa yfir. Ákvörðunin gildir til loka maí nema annað verði gefið út en verði endurskoðuð reglulega með hliðsjón af aðstæðum í samfélaginu.
Sveitarstjórn vinnur að frekari tillögum til að bregðast við aðstæðum vegna Covid-19 í samvinnu við Samband íslenskra Sveitarfélaga og SSV."

Tillagan var samþykkt samhljóða

3.Tillaga um breytingu á fundartíma sveitarstjórnar

2003172

Sveitarstjórn samþykkir að næsti fundur sveitarstjórnar Borgarbyggðar verði miðvikudaginn 08. apríl n.k. kl. 16,00.

Fundi slitið.