Fara í efni

Gagnlegar upplýsingar fyrir nýja íbúa

Fjölskylduskemmtun

Borgarbyggð leggur áherslu á fjölskylduvænt samfélag þar sem menntunarframboð og aðstaða til íþrótta- og tómstundaiðkunar er til fyrirmyndar.

Skólar

Leikskólar

Í Borgarbyggð eru starfandi fimm leikskólar, tveir í Borgarnesi, einn á Bifröst, einn á Hvanneyri og einn á Kleppjárnsreykjum, en þar hófst bygging nýs og glæsilegs leikskóla árið 2019.

Sótt er um leikskóladvöl á vef Borgarbyggðar (Þjónustugátt). 

Grunnskólar

Tveir starfandi grunnskólar eru í sveitarfélaginu á fjórum stöðum, Grunnskólinn í Borgarnesi og Grunnskóli Borgarfjarðar sem er starfræktur á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Um þessar mundir standa yfir framkvæmdir í Grunnskólanum í Borgarnesi, en unnið er að stækkun og miklum endurbótum á húsnæðinu. Grunnskólinn í Borgarnesi er einkar vel staðsettur, en íþróttasvæðið, sundlaugin og tónlistarskólinn eru í einungis 100-200 m fjarlægð.

Sótt er um skólavist í grunnskóla Borgarfjarðar hér.

 

Sótt er um skólavist í grunnskólanum í Borgarnesi hér.

Menntaskóli

Borgarbyggð státar af fyrirtaks menntaskóla (MB) sem stofnaður var árið 2006 í Borgarnesi. Skólinn fer ótroðnar slóðir í starfsháttum og námsframboð er fjölbreytt. Í boði er félagsfræðibraut, íþróttafræðibraut, náttúrufræðibraut, opin braut, framhaldsskólabraut og starfsbraut. Nýlega bættist við braut sem nefnist náttúrufræðibraut – búfræðisvið sem er samstarf á milli MB og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Háskólar

Tveir háskólar eru starfræktir í sveitarfélaginu, Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri. Fá sveitarfélög bjóða upp á jafn fjölbreyttar námsleiðir á háskólastigi.

Tónlistarskóli

Öflugur tónlistarskóli hefur verið rekinn í Borgarnesi frá árinu 1967. Tekið er við nemendum á öllum aldri og kennt er á öll helstu hljóðfæri auk söngs.

Símenntun

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi starfar í Borgarnesi. Símenntunarmiðstöðin stendur fyrir ýmsu námsframboði í fullorðinsfræðslu, auk náms- og starfsráðgjafar o.fl. Símenntunarmiðstöð þjónustar einnig fjarnema í háskólanámi, en þeir geta tekið próf í heimabyggð.

Húsnæði

Lausar eru íbúðarlóðir til úthlutunar, bæði í Borgarnesi, á Hvanneyri, Varmalandi og í Bæjarsveit. 

Fasteignir á söluskrá má skoða á fasteignasíðum Morgunblaðsins og Vísis. Jafnframt eru starfandi fasteignasölur í Borgarnesi.

Íþróttir og tómstundir 

Frístundaheimili eru starfrækt við báða grunnskóla Borgarbyggðar (Frístund í Borgarnesi, Selið á Hvanneyri). Þar er 6-9 ára börnum boðið upp á fjölbreytt tómstundastarf eftir að skóladegi lýkur. Í félagsmiðstöðinni Óðali er boðið upp á uppbyggilegt félagsstarf fyrir 10-16 ára börn og unglinga í frítímanum. Borgarbyggð styrkir frístundaiðkun barna og ungmenna á aldrinum 6-18 ára með framlagi að upphæð kr.  40.000 á ári.

Íþróttamannvirki og sundlaugar eru á þremur stöðum; í Borgarnesi, á Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Sparkvellir hafa verið settir upp á skólalóðum í Borgarnesi, á Hvanneyri og á Bifröst. Fjölbreyttar hjóla- og gönguleiðir má finna í Borgarbyggð og unnið er að frekari uppbyggingu göngustíga m.a. í Borgarnesi. Víða eru góð leiksvæði fyrir börn og sífellt verið að bæta við. Þar má nefna að nýlega var settur upp ærslabelgur á íþróttasvæðinu í Borgarnesi. Ekki má gleyma Einkunnum, skógræktarsvæðinu rétt fyrir ofan Borgarnes, sem er kjörið til útivistar og samveru.

Í Borgarbyggð eru frábærir golfvellir með öflugu ungmennastarfi.  Fyrir hestafólk er að finna góða aðstöðu til hestamennsku í nánd við þéttbýliskjarnana. Stangveiði er mikið stunduð í sveitarfélaginu yfir sumarmánuðina, jafnt af íbúum sem gestum. Áhugi íbúa sjósporti, svo sem á sjósundi og kajakróðri, fer vaxandi og áhugamannafélög hafa verið stofnuð.

Menningarlíf

Menningarlíf í Borgarbyggð er með eindæmum blómlegt. Ýmis konar klúbbar, samtök og áhugamannafélög eru með virka starfsemi og standa fyrir reglulegum viðburðum. Kórastarf í sveitarfélaginu er öflugt og það sama má segja um leikfélögin.  Árið um kring er hægt er að sækja sér nýja þekkingu á námskeiðum og fyrirlestrum af ýmsum toga í Borgarbyggð. 

Safnahús Borgarfjarðar er staðsett í Borgarnesi. Þar er boðið upp á ýmsa viðburði árið um kring og þar er Héraðsbókasafn Borgarfjarðar til húsa auk skjalasafns og munasafna. Á bókasafninu er fjölbreytt úrval bóka og annars afþreyingarefnis auk aðgangs að tölvu, lesaðstöðu og aðstöðu fyrir börn. Í húsinu eru einnig tvær grunnsýningar, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna og tímabundnar sýningar á sviði byggðasögu auk listsýninga. Sjá má nánar um þjónustu hússins á heimasíðu Safnahúss, www.safnahus.is.

Verslun og þjónusta

Við Borgarbraut í Borgarnesi er verslunarkjarninn Hyrnutorg. Þar er Nettó-verslun, Lyfja, Vínbúðin, íþróttavöruverslun, gjafavöruverslanir, hárgreiðslustofa og fleira.

Bónusverslun er að finna í útjaðri Borgarness, við Borgarfjarðarbrúna. Í sama húsi er Geirabakarí. Byggingarvöruverslanir er jafnframt að finna í bænum.

Úrval veitingastaða í Borgarbyggð er gott og hefur aukist mikið á undanförnum árum.

Olís, N1, Orkan og Atlantsolía reka þjónustu á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu.

Heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðisstofnun Vesturlands rekur heilsugæslustöð á Borgarbraut 65, 310 Borgarnes.

Sorphirða og endurvinnsla

Í Borgarbyggð er úrgangur frá öllum heimilum flokkaður til endurvinnslu og förgunar. Þá er úrgangur frá sumarhúsum í stærstu sumarhúsahverfum flokkaður. Flokkun úrgangs er mikilvægur þáttur til verndunar umhverfis og ætti að vera sjálfsagður hluti af starfsemi heimilis og fyrirtækja. Úrgangur er auðlind.

Regluleg sorphirða er til allra heimila í sveitarfélaginu, gámavellir eru á nokkrum stöðum auk þess sem móttökustöð er við Sólbakka í Borgarnesi sem er opin alla daga.  Þar er og hægt að skila heimilisúrgangi utan opnunartíma. Þjónustuaðili Borgarbyggðar er Íslenska Gámafélagið.

Hagnýtar upplýsingar

Innritun í leikskóla, frístundastarf o.fl. fer fram á þjónustugátt Borgarbyggðar.

Flutningstilkynningar eru afgreiddar af Þjóðskrá Íslands.

RARIK ohf. sér um rafveitu í Borgarbyggð.

Veitur ohf. sjá um hitaveitu í Borgarbyggð.

Arion banki rekur útibú í Borgarnesi.