Leikskólinn Hnoðraból
Leikskólinn Hnoðraból er á Kleppjárnsreykjum í Reykholti í Borgarbyggð. Hann er tveggja deilda leikskóli og að jafnaði eru rúmlega 20 börn á aldrinum frá 12 mánaða til 6 ára. Starfsemi leikskólans heyrir undir fræðslunefnd og starfar eftir settum verklagsreglum fyrir starfsemi leikskóla í Borgarbyggð, sjá verklagsreglur hér.
Leikskólinn Hnoðraból starfar eftir lögum um leikskóla (nr.90/2008) og Aðalnámskrá leikskóla 2011. Þar kemur fram að leikskólar séu fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Leikskólinn skal annast uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri.
Markmið Hnoðrabóls er að hafa velferð og hag barna að leiðarljósi samkvæmt lögum. Nám á að fara fram í leik og skapandi starfi og starfshættir byggja á umburðarlyndi, jafnrétti, kærleika, ábyrgð, lýðræðislegu samstarfi, virðingu og umhyggju.
Þegar ný börn hefja sína skólagöngu á Hnoðrabóli ganga þau í gegnum þátttökuaðlögun með sínu foreldri.
Hún fer þannig fram að fyrst er haldinn fundur með foreldrum og starfsfólki þar sem starfsfólkið kynnir sig, deildina og segir frá því sem framundan er. Næst mætir foreldri með barnið og fylgir því fyrstu þrjá dagana. Á fjórða degi mætir barnið og kveður foreldri sitt.
(Kristín Dýrfjörð, 2009)
Á Hnoðrabóli er unnið eftir þessum kenningum fræðimanna, hugmyndir John Dewey um nám og reynslu, kenningar Rudolf Steiners sem Waldorfuppeldisfræðin byggir á, hugmyndum Steven Covey um Venjurnar sjö/Leiðtoginn í mér og síðast en ekki síst um stefnu og hugmyndafræði Grænfánans og Skóla á grænni grein.
Árið 2019 hófust framkvæmdir við byggingu nýs húsnæðis sem hýsa mun Hnoðraból. Mun húsnæði leikskólans verða hluti af húsnæði Grunnskóla Borgarfjarðar-Kleppjárnsreykjum og gefur það möguleika á öflugu samstarfi þessara skóla sem hafa marga sameignlega fleti í starfi sínu.