Fara í efni

Borgarbyggð innleiðir Barnasáttmálann

Borgarbyggð innleiðir Barnasáttmálann

Mikil eftirvænting ríkti í Borgarbyggð í gær þegar Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Magnús Smári Snorrason formaður fræðsluráðs Borgarbyggðar, undirrituðu samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. En með undirskriftinni bætist Borgarbyggð í ört stækkandi hóp sveitarfélaga sem hefja innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi. 

Það voru nemendur og starfsmenn Kleppjárnsreykjadeildar Grunnskóla Borgarfjarðar sem lögðu fram erindi til sveitarstjórnar fyrr á árinu, þar sem skorað var á Borgarbyggð að hefja formlegt innleiðingarferli á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Tók sveitarstjórn vel í erindið og byggir þátttaka Borgarbyggðar í verkefninu þannig á frumkvæði barna sem búa í sveitarfélaginu.

Þátttaka Borgarbyggðar í Barnvænum sveitarfélögum er liður í að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga.