Fara í efni

Samþætt leiðakerfi í Borgarbyggð hefst formlega 19. október nk.

Samþætt leiðakerfi í Borgarbyggð hefst formlega 19. október nk.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa hlotið styrk frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til að hefja tilraunarverkefni í Borgarbyggð. Verkefnið snýr að samþættu leiðarkerfi í sveitarfélaginu. Styrkurinn er sem nemur 12.000.000 kr. og deilist á tvö ár.

Tilraunaverkefnið er samstarfsverkefni milli Borgarbyggðar, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Menntaskóla Borgarfjarðar og Vegagerðarinnar. Til þess að gera þetta verkefni að veruleika þurfti Borgarbyggð að breyta reglum um skólaakstur, þ.e. nú geta aðrir en grunnskólabörn nýtt skólabílana í uppsveitum Borgarfjarðar og Mýrum. Útfærslan verður kynnt íbúum síðar. Vegagerðin hætti við að leggja niður leið 81 líkt og stóð til og Strætó hefur bætt við leiðum í leiðarkerfinu sínu þannig að ekið verði alla virka daga yfir vetrartímann. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi halda utan um verkefnið og Menntaskóli Borgarfjarðar og Borgarbyggð styðja við verkefnið með fjárframlagi.

Mikil samstaða hefur myndast á milli samstarfsaðila og samningaviðræður hafa gengið vonum framar. Það er því mikil ánægja að nú sé loksins hægt að bjóða upp á þessa þjónustuviðbót fyrir íbúa sveitarfélagsins. Fyrst um sinn verður boðið upp á ferðir frá Kleppjárnsreykjum og Varmalandi í Borgarnes alla virka morgna kl. 08:20. Um er að ræða fyrsta áfanga verkefnisins en það mun þróast í takt við eftirspurn og nýtingu akstursleiðarinnar.

Fyrsta formlega ferðin verður farin, við hátíðlega athöfn kl. 08:20 frá Kleppjárnsreykjum þann 19. október nk. en nánari upplýsingar um miðakaup, leiðarkerfi og annað verður birt á heimasíðu Borgarbyggðar.

Íbúar eru hvattir til þess að kynna sér leiðarkerfið og nota almenningssamgöngur í sveitarfélaginu.