Fara í efni

Stofnun Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs

Stofnun Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs

Stofnfundur Ferðafélags Borgarfjarðahéraðs var haldinn í Borgarnesi 1. mars s.l. Fjölmenni mætti á fundinn eða á annað hundrað manns. Vegna fjöldatakmarkana voru sett upp þrjú sóttvarnarhólf og að sjálfsögðu var vel hugað að sóttvörnum.

Félagið hefur það að markmiði að hvetja til gönguferða um Ísland en þó verður sérstök áhersla lögð á Borgarfjarðarhéraðið. Meginmarkmiðið er síðan að huga að uppbyggingu og merkingu gönguleiða sem og að stuðla að sem mestri þjónustu við göngufólk.

Undirbúningshópur fyrir stofnun FFB var skipaður eftirfarandi aðilum:

 • Björn Bjarki Þorsteinsson
 • Gísli Einarsson
 • Jónína Pálsdóttir
 • Jón Heiðarsson
 • Lára Kristín Gísladóttir
 • Olgeir Helgi Ragnarsson
 • Sólrún Fjóla Káradóttir.

Fyrstu stjórn hins nýja ferðafélags skipa:

 • Gísli Einarsson, forseti
 • Hrefna Sigmarsdóttir, varaforseti
 • Jónína Pálsdóttir, gjaldkeri
 • Olgeir Helgi Ragnarsson, ritari
 • Jón Heiðarsson, meðstjórnandi

Í stofnræðu sinni fjallaði Gísli Einarsson um mikilvægi gönguferða, en sennilega er engin hreyfing heilsusamlegri fyrir manninn en að ganga. Áhugi á gönguferðum, stuttum og löngum, léttum og erfiðum og allt þar á milli hefur örugglega aldrei verið meiri en nú. Jafnframt talaði hann um að allir eiga að geta fundið sér eitthvað við hæfi, hvort sem einstaklingar vilja ganga á gangstéttum eða einfaldlega af göflunum, allt rúmast þetta fyrir í einu ferðafélagi. Gísli telur að Vatnaleiðin hafi allt til brunns að bera til þess að verða ein af vinsælustum gönguleiðum landsins og því verður eitt af fyrstu verkefnum félagsins að vinna að uppbyggingu gönguleiðar Vatnaleiðar í samvinnu við landeigendur og Borgarbyggð.

Þess má geta að Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs verður deild innan Ferðafélags Íslands og mættu fulltrúar þess á fundinn.

Nánari upplýsingar um aðildarskráningu, verð og annað má nálgast hér.

 

 
Mynd tekin af Facebook-síðu Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs.