Fara í efni

Tónlistarskólinn 55 ára

Tónlistarskólinn 55 ára

Tónlistarskóli Borgarfjarðar tók til starfa haustið 1967 og á því stórafmæli þetta haust. Til stendur að hafa opinn dag í skólanum þann 8.nóvember næstkomandi og halda upp á afmælið um leið. Fyrsta veturinn sem skólinn starfaði stunduðu 39 nemendur nám við skólann og voru kennarar 4 auk skólastjóra. Nemendum hefur fjölgað og hafa verið yfir 200 nemendur stundað tónlistarnám á hverju vetri síðustu ár. Þrettán kennarar starfa nú við skólann í misstórum hlutföllum auk skólastjóra.

Tónlistarnámið

Námið er opið öllum aldurshópum og nemendur stunda nám við skólann á öllum stigum þess þó flestir séu eðlilega í grunnnámi á sitt hljóðfæri. Vinsælustu hljóðfærin í tónlistarnáminu eru píanó og gítar, en 81 nemandi stundar píanónám og 27 nemendur stunda gítarnám. Það er einnig kennt á ukulele, trompet, flautu og fleiri blásturshljóðfæri, rafmögnuð hljóðfæri (gítar og bassa) og svo tókum við aftur upp fiðlukennslu innan Borgarbyggðar þetta haust. Slagverk og söngur eru líka vinsælar námsgreinar og hóptímar, fyrir elstu börn leikskóla og söngleikjadeild skólans, fyllast á hverju hausti.

Þróun og breytingar

Allir skólar þurfa að stunda einhverjar tilraunir og Tónlistarskóli Borgarfjarðar þar engin undantekning. Núna í haust bauðst í fyrsta skipti nám sem kallað er „stúdíóið sem hljóðfæri“. Við búum svo vel að þrír af kennurum okkar eru fagmenn á sviði hljóðversvinnu og einn þeirra stígur þetta fyrsta skref í haust, en skapist vinsældir þá ættum við að geta mætt því í rólegum skrefum.

Borgarbyggð stendur að rekstri tónlistarskólans og einnig greiða nemendur skólagjöld sem samkvæmt lögum er varið í annan kostnað við reksturinn en launakostnað. Uppbygging aðstöðu til fjölbreyttrar tónlistariðkunar er stöðugt verkefni og spennandi. Nú síðast má nefna stúdíóið sem komið hefur verið á fót í Borgarnesi, en stefnt að því að slík aðstaða verði í boði víðar. Sú aðstaða er forsenda þeirrar tilraunar sem áður var nefnd.

Foreldrar mikilvægir

Samstarf við foreldra er mikilvægt og sannað að stuðningur heimila við tónlistarnámið skiptir sköpum. Samstarf við foreldra er líka mikilvægt fyrir skólann sjálfan sem stofnun í sífelldri þróun. Foreldrafélag Tónlistarskóla Borgarfjarðar er í burðarliðnum og verður með því formgert það samstarf sem lengi hefur staðið og verið heillaríkt.

Sýnileiki starfsins og árangur

Starf skólans hefur verið fjölbreytt í gegnum árin og það heldur áfram. Covid setti svip á starfið síðustu tvö ár og við hlökkum til að stíga aftur inn í óheft tækifæri til tónlistarsamveru. Auk hefðbundinna tónleika og tónfunda skólans koma nemendur fram við ýmis tækifæri, heimsækja aðra skóla og héruð og taka einnig á móti gestum. Nemendur eru einnig hvattir til þátttöku í stærri tónlistarverkefnum á landsvísu og hefur gengið vel. Stofnanir og fyrirtæki í Borgarbyggð hafa tekið vel á móti nemendum okkar og höfum við fengið að halda tónleika við bestu mögulegu aðstæður. Starf tónlistarskólans er mikilvægt og lyftistöng fyrir menningarlífið í héraðinu.

Útvíkkað starfssvið – fleiri listgreinar

Ákveðið var að víkka út starfssvið tónlistarskólans með það markmið að bjóða tækifæri til vandaðs listnáms í fleiri listgreinum í Borgarbyggð. Fyrsta verkefnið var unnið í samstarfi við Menntaskóla Borgarfjarðar og endaði með leiksýningu vorið 2022. Síðla sumars var haldið myndlistarnámskeið fyrir börn og gekk það vel. Í haust er í boði grunnnámskeið í leiklist fyrir elstu unglinga grunnskólans og þá sem eru á fyrstu árum í menntaskóla. Jafnfram er í boði 2ja vikna myndlistarnámskeið á haustdögum fyrir aðeins yngri aldurshóp. Einnig eru í bígerð örnámskeið en þau mál skýrast smám saman.

Við þökkum traustið og velvildina og höldum ótrauð áfram að bjóða vandað tónlistarnám um alla Borgarbyggð og bætum svo stöðugt í tilboð til listnáms á fleiri sviðum fyrir alla aldurshópa.