Byggðarráð Borgarbyggðar
Byggðarráð Borgarbyggðar, fundur nr. 143
Dags : 03.02.2010
Mættir voru:
Aðalfulltrúar: Sveinbjörn Eyjólfsson
Finnbogi Rögnvaldsson
Bjarki Þorsteinsson
Sveitarstjóri: Páll S. Brynjarsson
Skrifstofustjóri: Eiríkur Ólafsson sem ritaði fundargerð
Eftirfarandi var tekið fyrir:
1. Þriggja ára áætlun Borgarbyggðar 2011-2013
Rætt um þriggja ára áætlun fyrir árin 2011-2013.
Teknar fyrir tillögur um breytingu á framkvæmdaáætlun.
2. Skólamál
Rætt um skólamál og lögðu Bjarki og Sveinbjörn fram svohljóðandi bókun:
"Undanfarið hafa verið til umræðu í sveitarstjórn Borgarbyggðar mögulegar hagræðingarleiðir í rekstri grunnskóla sveitarfélagsins. Sú vinna hefur leitt í ljós að umtalsverðum sparnaði má ná með lokun starfsstöðva án þess að sá sparnaður bitni á faglegu skólastarfi. Á sama hátt má með töluverðum breytingum reka allar starfsstöðvar áfram en þá verður að fjölga nemendum í bekkjum, auka samkennslu og spara enn frekar í mannahaldi, þjónustu og vörukaupum.
Ákvörðun um lokun starfsstöðvar skóla myndi hafa áhrif á skipulagningu skólahalds, hagi starfsfólks og nemenda. Hagsmunir nemenda þurfa þó að vera öðru framar. Varðandi slíka aðgerð þarf að vera skilningur og samstaða innan sveitarstjórnar og á meðal íbúa. Hugmyndir um lokun starfsstöðva hafa einungis verið til umfjöllunar með það í huga að ná fram hagræðingu í rekstri, án þess að skerða skólastarf. Fullur skilningur er á afstöðu íbúa varðandi þau áhrif sem talin eru fylgja lokun á nærumhverfi viðkomandi skóla.
Í ljósi þeirrar vinnu og umræðu sem undanfarna mánuði hefur verið hjá sveitarstjórn um málefni grunnskóla er eðlilegt að unnin verði skýrsla um framtíðarhorfur í rekstri og skipulagi skólanna þar sem m.a. verði horft til rekstrar, skólahverfa og gæða skólastarfs. Einnig verði horft til þeirra möguleika sem gætu orðið til að auðvelda nemendum úr dreifbýli aðgengi að Menntaskóla Borgarfjarðar að loknu grunnskólanámi. Í kjölfarið þarf að fylgja fagleg umræða og umfjöllun um framtíð grunnskólahalds í Borgarbyggð.
Með vísan í ofanritað hefur verið ákveðið að leggja til eftirfarandi aðgerðir í málefnum grunnskóla í Borgarbyggð á árinu 2010.
- Dregið verður úr fjárveitingum til allra starfsstöðva grunnskólanna samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun.
- Viðmiðunum um fjölda nemenda í bekkjum verður breytt og það hækkað.
- Samkennsla verður aukin.
- Fækkun stöðugilda.
- Varmalandsskóli og Grunnskóli Borgarfjarðar verði sameinaðir undir eina stjórn.
- Fimmti bekkur á Hvanneyri verður fluttur að Kleppjárnsreykjum.
- Samið við Eyja – og Miklaholtshrepp um slit á byggðasamlagi um Laugargerðisskóla og gerður þjónustusamningur við sveitarfélagið um skólavist barna úr Kolbeinsstaðarhrepp.
- Miklar upplýsingar liggja fyrir um rekstur grunnskóla í sveitarfélaginu. Þær upplýsingar ásamt öðrum gögnum verða dregnar saman í heilstæða skýrslu og hún nýtt í umræðu um skipulag skólamála í Borgarbyggð þar sem m.a. þarf að ræða:
- Gæði skólastarfs
- Hagræðingu í rekstri stofnana.
- Áhrif hugsanlegra breytinga á samfélagið
- Samvinnu skólastofnana hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli
- Samspil skólastiga."
Finnbogi lagði fram svohljóðandi bókun:
"Ég fagna framkominni bókun".
Samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að fylgja tillögum í bókuninni eftir og afla lögboðinna umsagna.
Framlagðir undirskriftarlistar frá íbúum í Borgarbyggð þar sem skorað er á sveitarstjórn að leggja ekki niður starfsstöðvar grunnskóla í Borgarbyggð.
3. Erindi frá rekstrarfélagi Reiðhallarinnar .
Framlagt erindi frá Selási ehf. rekstrarfélagi reiðahallarinnar í Borgarnesi þar sem óskað er eftir stuðningi sveitarfélagsins við sýninguna “Heilsa og sport” sem fyrirhugað er að halda í reiðhöllinni dagana 11. til 13. júní n.k.
Samþykkt að styrkja sýninguna með kr. 100.000 vegna auglýsinga og færist kostnaður á 13-01 í fjárhagsáætlun. Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa var falið að semja við rekstrarfélagið um afnot af íþróttamannvirkjum Borgarbyggðar í tengslum við sýninguna.
4. Verksamningur
Framlagður verksamningur við Farfuglaheimilið Borgarnesi um rekstur tjaldsvæðis í Borgarnesi sumarið 2010.
Byggðarráð samþykkti samninginn.
5. Unglingalandsmótið í Borgarnesi 2010
Framlagt bréf frá Ungmennasambandi Borgarfjarðar dags. 26.01.10 þar sem óskað er eftir því að Borgarbyggð skipi fulltrúa í landsmótsnefnd.
Samþykkt að Bjarki Þorsteinsson verði fulltrúi Borgarbyggðar í nefndinni.
6. Sérstakar húsaleigubætur
Framlagt erindi frá félagsmálastjóra um tillögu félagsmálanefndar um hækkun á viðmiði um lágmarkskostnað leigjenda af húsaleigu.
Afgreiðslu frestað og félagsmálastjóra falið að afla samanburðar við önnur sveitarfélög.
7. Umsögn um starfsendurhæfingu
Framlögð umsögn félagsmálanefndar um stofnun starfsendurhæfingar á Vesturlandi.
8. Gamla leikskólahúsið á Hvanneyri
Framlagður tölvupóstur frá PJ byggingum þar sem fyrirtækið dregur til baka tilboð sitt í gamla leikskólann á Hvanneyri.
9. Menntaborg ehf.
Rætt um Menntaborg ehf.
Framlögð drög að bréfi til Íslandsbanka vegna skólahússins.
10. Stofnun lóða
Framlagt erindi frá Guðmundi Magnússyni og Sigurði Magnússyni um stofnun sumarhúsalóða í landi Gilsbakka samkv. meðfylgjandi uppdrætti.
Samþykkt að verða við beiðninni.
11. Gatnamót ehf.
Á fundinn mættu Hallgrímur Óskarsson og Sigurgeir Heiðar Sigurgeirsson frá Gatnamótum ehf. til viðræðna um fyrirspurn fyrirtækisins um lóðir í Borgarnesi.
12. Laun sveitarstjórnar
Finnbogi lagði fram tillögu um að laun sveitarstjórnarmanna og byggðarráðsmanna lækki um 5% frá áramótum til loka kjörtímabilsins.
Samþykkt að vísa tillögunni til afgreiðslu sveitarstjórnar og sveitarstjóra falið að afla upplýsinga frá öðrum sveitarfélögum um launakjör sveitarstjórnarmanna.
Fleira ekki gert.
Fundargerðin upplesin og samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 10,30.