Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

390. fundur 29. september 2016 kl. 08:15 - 10:35 í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi
Nefndarmenn
  • Geirlaug Jóhannsdóttir formaður
  • Guðveig Eyglóardóttir aðalmaður
  • Ragnar Frank Kristjánsson áheyrnarfulltrúi
  • Jónína Erna Arnardóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Kristján Gíslason
Dagskrá

1.Stöðvunarkrafa v. Borgarbraut 57 - 59.

1605099

Framlagður úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis - og auðlindarmála í máli nr. 47/2016 og 92/2016 dags. 23.9.2016 varðandi kæru Borgarlands ehf. á þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar að Borgarbraut 55, 57 og 59 .
Úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var á þá leið að felld var úr gildi breyting á deiliskipulagi fyrir byggingarreitinn sem samþykkt var af sveitarstjórn þann 14. apríl sl. að teknu tilliti til athugasemda og ábendinga Skipulagsstofnunar. Kæru Borgarlands ehf. vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 26. apríl 2016 og 8. Júlí um að veita leyfi fyrir jarðvegsvinnu og sökkulvinnu var aftur á móti vísað frá úrskurðarnefndinni. Fundur var haldinn með starfsmönnum Borgarbyggðar, formanni byggðarráðs og formanni USL nefndarinnar og fulltrúum framkvæmdaaðila þriðjudaginn 27. september.
Byggðarráð ræddi þá stöðu sem komin er upp vegna úrskurðar Úrskurðarnefndarinnar vegna framkvæmda við Borgarbraut 55-59.
Byggðarráð hvetur til að leitað sé leiða til að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp v. framkvæmda v. Borgarbrautar 55-59 á sem skilvirkasta og faglegasta hátt.

GE og RFK lögðu fram eftirfarandi bókun. "
Fulltrúar VG og Framsóknarflokksins lýsa yfir þungum áhyggjum á þeirri stöðu sem upp er komin varðandi deiliskipulag á Borgarbraut 57-59 í framhaldi af niðurstöðu ÚUA. Undirrituð leggja áherslu á mikilvægi þess að faglega verði staðið að allri ákvarðanatöku í framvindu málsins til að forða sveitarfélaginu frá fjárhagslegum skaða vegna málsins. Fyrir liggur að framkvæmdaraðila og sveitarfélaginu var kunnugt um framkomna kæru þegar ákvörðun var tekin um frekari framkvæmdir á lóðinni. Mikilvægt er að allir málsaðilar sýni því skilning að ferlið sem framundan er þurfi eðlilegan málshraða og geti ekki verið hraðað á kostnað ábyrgrar stjórnsýslu."

2.Kæra v. deiliskipulags Borgarbrautar 55 - 59

1604035

Framlagður úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis - og auðlindamála í máli nr. 37/2016, dags. 23.9.2016 þar sem Arinbjörn Adlawan Hauksson, Helgugötu 10 Borgarnesi. kærir er ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl sl. um breytingu deiliskipulags v. Borgarbrautar 55 - 59. Kærunni var vísað frá þar sem kærandi var ekki talinn eiga lögvarða persónulega hagsmuni í málinu.

3.Legsteinasafn - kæra v. útgáfu byggingarleyfis

1608005

Framlagður úrskurður Úrskurðarnnefndar umhverfis - og auðlindarmála dags. 23.9.2016 í máli nr. 105/2016, Legsteinasafnið Húsafelli þar sem Sæmundur Ásgeirsson, landeigandi að Húsafelli 1 kærir þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2016 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells Borgarbyggð. Kröfu kærenda um að ógilda byggingarleyfi var hafnað. Að öðru leyti var kærunni vísað frá.

4.Viðbygging Grunnskólans í Borgarnesi - samningur

1609104

Framlagður tölvupóstur Pálma Sævarssonar, formanns byggingarnefndar GB þar sem hann óskar eftir að byggðarráð heimili að undirbúa samninga við hönnuði viðbyggingarinnar og gera verðkönnun hjá verkfræðistofum vegna verksins.
Byggðaráð samþykkti að fela sveitarstjóra í samráði við byggingarnefnd GB að vinna,í samstarfi við Ríkiskaup, að gerð samninga um verkfræðihluta fyrirhugaðra framkvæmda.

5.Ljósleiðari í Borgarbyggð - samningar

1609105

Framlagður samningur sveitarstjóra Borgarbyggðar, dags. 23.9.2016, við Guðmund Daníelsson f.h. Snerru ehf kt. 460916-0460 um frumhönnun og kostnaðarmat ljósleiðarakerfis í Borgarbyggð. Byggðarráð samþykkti samninginn og lýsti ánægju sinni með það skref sem stigið hefur verið í þessu efni. Fyrirhugaðir eru kynningarfundir í héraðinu um verkefnið í október.

6.Körfuknattleiksdeild Skallagríms - beiðni um stuðning.

1609086

Framlagt bréf Körfuknattleiksdeildar Skallagríms dags. 19.9.2016 þar sem farið er fram á stuðning vegna starfsemi deildarinnar. Sérstaklega er vísað til að Skallagrímur á í vetur í fyrsta sinn lið í efstu deild bæði karla og kvenna í körfuknattleik.
Byggðarráð samþykkti að fela sveitarstjóra að ganga frá auglýsingasamningi við deildina í ljósi frábærs árangurs á árinu í samræmi við umræður á fundinum.

7.Brákarhlíð, ósk um hækkun á framlagi árið 2017

1609089

Framlagt bréf framkvæmdastjóra Brákarhlíðar dags. 21.9.2016 þar sem farið er fram á að aðildarsveitarfélög Brákarhlíðar greiði 7.000 krónu framlag til heimilisins á hvern íbúa sveitarfélagsins eins og íbúafjöldi er þann 1. desember 2017. Í júnílok 2016 voru íbúar Borgarbyggðar 3620.
Byggðarráð samþykkti að fresta afgreiðslu málsins og telur nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um áhrif samkomulags um yfirtöku ríkisins á lífeyrisskuldbindingum og viðbótarframlags ríkis til reksturs hjúkrunarheimila á rekstur Brákarhlíðar.

8.Póstdreifing á Hvanneyri

1609036

Framlagt svar Póstsins ohf dags. 21.9.2016 vegna fyrirspurnar um tíðni póstdreifingar á nokkrum þéttbýlisstöðum á landinu.
Óskað var eftir upplýsingum þessa efnis vegna lakrar tíðni póstdreifingar á Hvanneyri en pósti er dreift þar annan hvern dag. Fram komu eftirfarandi upplýsingar í málinu: Hellissandur - 5 sinnum í viku, Rif - 5 sinnum í viku, Kirkjubæjarklaustur - 5 sinnum í viku, Drangsnes - annan hvern dag, Búðardalur - 5 sinnum í vikur, Hafnir - annan hvern dag, Bakkafjörður - annan hvern dag. Byggðarráð samþykkti að fela sveitarstjóra að vinna að því að þéttbýlið á Hvanneyri njóti sambærilegrar þjónustu og aðrir þéttbýliskjarnar af sambærilegri stærð, ekki síst í ljósi þess að á Hvanneyri eru fjórar opinberar stofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu.

9.Alþingiskosningar okt. 2016

1609004

Framlagt bréf Þjóðskrár dags. 23.9.2016 vegna komandi alþingiskosninga þann 29.okt. 2016. Byggðarráð samþykkti að auglýsa kjörstaði sem sama formi og gert hefur verið.

10.Þróun fasteignamats atvinnuhúsnæðis og álagning fasteignaskatta

1609093

Framlagt bréf Félags atvinnurekenda, dagsett 22. September 2016, þar sem félagið vekur athygli á ályktun félagsins frá 14. Júní 2016 þar sem skorað er á sveitarfélög landsins að endurskoða álagningarprósentu fasteignagjalda í ljósi mikilla hækkana á fasteignamati atvinnuhúsnæðis undanfarin ár. Byggðarráð samþykkti að vísa erindinu til fjárhagsáætlanagerðar.

11.Tónlistarskólinn og Óðal - viðhald

1607147

Framlagt á nýjan leik erindi Önnu Magneu Hreinsdóttir, sviðsstjóra fjölskyldusviðs og Kristjáns Finns Kristjánsson, verkefnastjóra framkvæmdarsviðs þar sem farið er yfir viðhaldsmál í Óðali og tónlistarskóla Borgarfjarðar. Byggðarráð samþykkti að vísa erindinu varðandi viðhaldsmáls Óðals til fjárhagsáætlanagerðar.

12.Breytingar á lífeyrismálum 2016

1609087

Framlagðar til kynningar glærur dags. 2.9.2016, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga varðandi breytingar á lífeyrismálum opinberra starfsmanna.
Glærurnar skýra út efni samkomulags þess sem sambandið gerði ásamt fleiri aðilum við fjármálaráðuneytið um breytingar á lífeyrismálum opinberra starfsmanna. Í samkomulaginu felst að jafna skuli lífeyrisréttindi á opinberum og almennum vinnumarkaði. Eins skal unnið að því að jafna kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði eins og kostur er. Byggðarráð lýsti ánægju sinni með að samkomulag hefur náðst milli ríkis og sveitarfélaga í þessu mikilvæga málefni. Ýmis atriði eru enn óljós varðandi útfærsluna eins og gefur að skilja í svo stóru máli. Unnið skal að því að fá skýringar þar um eftir því sem mögulegt er. Meðal annars eru áhrif samkomulagsins á launasetningu starfsfólks óljós.
Byggðarráð óskar eftir minnisblaði frá fjármálastjóra um áhrif samkomulagsins á rekstur Borgarbyggðar í tengslum við fjárhagsáætlunargerð.

13.Björgun fólks úr fjölbýlishúsinu að Borgarbraut 57, og 59 - erindi

1607124

Framlögð umbeðin umsögn umhverfis - og skipulagssviðs Borgarbyggðar dags. 20.9.2016 vegna erindis slökkviliðsstjóra um brunavarnir á Borgarbraut 57 - 59.

Fundi slitið - kl. 10:35.