Fara í efni

Byggðarráð Borgarbyggðar

589. fundur 24. febrúar 2022 kl. 08:15 - 12:15 í fundarsal að Digranesgötu 2
Nefndarmenn
  • Guðmundur Freyr Kristbergsson varamaður
  • Magnús Smári Snorrason áheyrnarfulltrúi
  • Lilja Björg Ágústsdóttir aðalmaður
  • Guðveig Eyglóardóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Grunnskóli Borgarfjarðar- Kleppjárnsreykjadeild - framkvæmdir á skólahúsnæði

2104092

Framlagt erindisbréf fyrir byggingarnefnd viðbyggingar fyrir kleppjárnsreykjadeild Grunnskóla Borgarfjarðar.
Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að stofnuð verði byggingarnefnd viðbyggingar fyrir Grunnskóla Borgarfjarðar, Kleppjárnsreykjum og tilnefnir Halldóru Lóu Þorvaldsdóttur, sem formann og Lilju Björg Ágústsdóttur, Loga Sigurðsson, Guðveigu Eyglóardóttur og Davíð Sigurðsson sem aðalmenn, Friðrik Asperlund, Sigurður Guðmundsson, Magnús Smári Snorrason, Orri Jónsson og Sigrún Ólafasdóttir verða varamenn. Ekki er þörf á að gera viðauka við fjárhagsáætlun vegna nefndarinnar, þar sem kostnaður við byggingarnefnd bókast á framkvæmd verkefnisins.

2.Íþróttahús - Frumhönnun

2110088

Framlagt erindisbréf fyrir byggingarnefnd fyrir uppbyggingu á íþróttaaðstöðu í Borgarnesi.
Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að stofnuð verði byggingarnefnd fyrir uppbyggingu á íþróttaaðstöðu í Borgarnesi og tilnefnir Silju Eyrúnu Steingrímnsdóttur, sem formann og Magnús Smára Snorrason, Guðveigu Eyglóardóttur, Davíð Sigurðsson og Brynju Þorsteinsdóttur sem aðalmenn, Lilja Björg Ágústsdóttir, Guðmundur Kristbergsson, Logi Sigurðsson, Orri Jónsson og Sigrún Ólafasdóttir verða varamenn. Ekki er þörf á að gera viðauka við fjárhagsáætlun vegna nefndarinnar, þar sem kostnaður við byggingarnefnd bókast á framkvæmd verkefnisins.

3.Framtíðaríbúðabyggð í Borgarnesi

2202108

Til fundarins koma fulltrúar Arkitektafélags Íslands til þess að kynna tilhögun á hönnunarsamkeppni um íbúabyggð handan Borgarvogs.
Byggðarráð þakkar áhugaverða kynningu og felur sveitarstjóra vinna drög að samningi við Arkitektafélag Íslands um aðkomu félagsins að hugmyndasamkeppni um heildarskipulagningu nýrrar íbúðabyggðar handan Borgarvogs. Byggðarráð felur sveitarstjóra að áætla kostnað vegna verkefnisins og gera drög að viðauka við fjárhagsáætlun.

4.Lækkun gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur

2004072

Kynnt staða beiðnar Borgarbyggðar um gögn í tengslum við minnisblað rýnihóps eigenda Orkuveitu Reykjavíkur sem falið var að leggja mat á áhrif þess að samræma gjald á öllu svæði Orkuveita Reykjavíkur á eignarhluti Borgarbyggðar, Akraness og Reykjavíkur.
Á fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur sem haldinn var 24. janúar 2022 var lögð fram fundargerð byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. janúar 2022, þar sem formlega var óskað eftir aðgangi að gögnum, útreikningum og sjóðstreymislíkönum sem vísað er til í minnisblaði rýnihópsins. Stjórn OR vísaði erindinu til eigenda OR. Gagnabeiðni Borgarbyggðar hefur nú verið samþykkt f.h. Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar. Ráðgjafi sveitarfélagsins er því kominn í samskipti við starfsmenn OR varðandi gagnaöflun og Eirík Ólafsson, fulltrúa Borgarbyggðar í rýnihópnum.

5.Lífeyrisskuldbindingar - breyttar forsendur - hækkun 2021

2202053

Til fundarins kemur Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi frá KPMG og fer yfir þær breytingar sem orðið hafa á útreikningi lífeyrisskuldbindinga, sem hafa veruleg áhrif á fjárhag sveitarfélagsins.
Enn fremur er lagt fram minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 22. febrúar 2022, um ástæður hækkunar lífeyrisskuldbindinga 2021.
Byggðarráð þakkar Haraldi Erni fyrir yfirferðina. Eins og fram kemur í framlögðu minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 22. febrúar 2022, er um að ræða verulegar breytingar á forsendum sem ekki lágu fyrir við gerð fjárhagsáætlana sveitarfélaga vegna nýrrar reglugerðar sem samþykkt var í desember árið 2021 og notuð er til grundvallar útreikninga það ár. Byggðarráð leggur áherslu á að það þurfi að fá meiri fyrirsjáanleika í útreikning lífeyrisskuldbindinga. Byggðarráð telur jafnframt brýnt að þetta sé tekið upp á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem þær breytingar sem hafa verið gerðar á útreikningi lífeyrisskuldbindinga hafa áhrif á nær öll sveitarfélög landsins. Um frávik er að ræða sem var ekki fyrirséð hjá sveitarfélögunum og er því óvæntur skellur sem hefur veruleg áhrif á rekstrarlega niðurstöðu sveitarfélaga.

Útlit er fyrir að hækkun lífeyrisskuldbindinga sveitarfélagsins ársins 2021 umfram áætlun ársins 2021 séu um 200 milljónir króna.

6.Bifreiðakaup í áhaldahús

2202153

Framlagt minnisblað deildarstjóra umhverfis-og framkvæmdadeildar, dags. 18. febrúar 2022, þar sem óskað er heimildar byggðarráðs á endurnýjun bifreiðar í áhaldahúsi. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar áhaldahúss.
Óskað er eftir að keypt verði bifreið fyrir áhaldahúsið sem hægt sé að nota við öll helstu verkefni áhaldahúss, s.s. snjómokstur, hálkueyðingu og flutning tækja vegna verkefna áhaldahússins með drætti stórra kerra. Gert var ráð fyrir endurnýjuninni í rekstrarreikningi áhaldahússins.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að gera viðauka við fjárhagsáætlun þar sem kr. 6.990.000,- eru fluttar úr rekstraráætlun sveitarfélagsins yfir í fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins, þar sem fjárfesting í nýrri bifreið skal áætluð. Þar sem ekki er um viðbótarfjárútlát að ræða, heldur aðeins flutning fjármuna milli liða, samþykkir byggðarráð kaup bifreiðarinnar.

7.Fyrirkomulag snjómoksturs

2012032

Fram eru lagðar upplýsingar um reynsluna af snjómokstursútboði frá hausti 2020 til ákvörðunar um hvort gera þurfi breytingar á fyrirkomulagi snjómoksturs.
Flosi Sigurðsson, sviðsstjóri stjórnsýslu- og þjónustusviðs, kom inn á fundinn til að taka þátt í umræðum.

Byggðarráð þakkar upplýsingagjöfina og felur sveitarstjóra og sviðsstjóra að vinna tillögur að fyrirkomulagi snjómoksturs í sveitarfélaginu og leggja að nýju fyrir byggðarráð.

8.Sólbakki 4 - leigusamningur og framkvæmdir

2111111

Framlagður undirritaður leigusamningur, dags. 21. janúar 2022, vegna Sólbakka 4, Borgarnesi.
Áætlað er að fyrsti hluti húsnæðisins að Sólbakka 4 afhendist sveitarfélaginu í byrjun mars 2022, þegar áhaldahúsið og dósamóttakan taka í gagnið húsnæði sem hefur verið aðlagað að starfsemi stofnanna. Síðar á árinu mun hæfing Öldunnar fá aðstöðu undir sín verkefni sem aðlagað hefur verið að starfsemi Öldunnar. Um er að ræða mikið framfararskref í húsnæðismálum þeirra stofnana sem munu taka til starfa í húsnæðinu og fagnar byggðarráð því að lausn sé fundin á þeim vanda sem hefur verið til staðar frá ársbyrjun 2021. Leigusamningur hefur verið undirritaður með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar vegna húsnæðisins. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja leigusamninginn.

9.Vatnsveitur A í Hraunahreppi, starfsleyfi

2202166

Framlagt erindi Halldórs J. Gunnlaugssonar, Sigurðar Jóhannssonar og Unnsteins S. Jóhannssonar, dags. 20. febrúar 2022, vegna starfsleyfis fyrir vatnsveitu Hraunhrepps.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma á fundi með starfsfólki sveitarfélagsins og forseta sveitarstjórnar með fulltrúum vatnsveitu Hraunhrepps.

10.Nauðsynleg viðbrögð sveitarfélaga vegna breytinga á barnaverndarlögum

2202023

Til fundarins kemur Inga Vildís Bjarnadóttir, og kynnir fyrirhugaðar breytingar á stjórnsýslu barnaverndarmála, sem ganga eiga í gegn á komandi hausti.
Byggðarráð þakkar Ingu Vildísi fyrir góða umfjöllun um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á stjórnsýslu barnaverndarmála. Inga Vildís mun vinna að þeim breytingum sem ræddar voru í samráði við sviðsstjóra fjölskyldusviðs og sveitarstjóra.

11.Bréf EFS til allra sveitarfélaga um almennt eftirlit á árinu 2022

2202165

Lagt er fram bréf Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 21. febrúar 2022, þar sem kynnt er starfsáætlun eftirlitsnefndarinnar fyrir árið 2022.
Lagt fram til kynningar.

12.Eigendastefna Faxaflóahafna

1511047

Kynningarfundur um drög að eigendastefnu Faxaflóahafna var haldinn þriðjudaginn 22. febrúar 2022 og drög að nýrri eigendastefnu lögð fram. Byggðarráð fjallar um tillögur að nýrri eigendastefnu.
Fulltrúar sveitarfélagsins mættu á kynningu á drögum að eigendastefnu Faxaflóahafna síðastliðinn þriðjudag, 22. febrúar. Byggðarráð þakkar vinnuhóp stjórnar Faxaflóahafna um rýni stjórnarhátta Faxaflóahafna og þá vinnu sem lögð hefur verið í verkefnið. Tillögurnar fela m.a. í sér að skipulag og stjórnarhættir félagsins skuli styrktir samkvæmt sameignarfélagssamningi, skerpt skuli á eigendavaldi og breyting gerð á skipan stjórnar félagsins. Sú breyting sem lögð er til að verði gerð á skipan stjórnar Faxaflóahafna er að stjórnarmönnum fækki úr 10 í 7, þar sem 3 aðilar verði óháðir stjórnarmenn. Samkvæmt tillögunum skal Byggðarráð, ásamt Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit skipa 1 óháðan stjórnarmann.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma sjónarmiðum byggðarráðs á framfæri við vinnuhópinn varðandi breytingar á skipan fulltrúa í stjórn Faxaflóahafna.

13.Barnaþing nóv.2021 - boðsbréf

2111026

Lagður er fram tölvupóstur til kynningar frá embætti Umboðsmanns barna, dags. 17. febrúar 2022, á Barnaþingið sem haldið verður 3.-4. mars n.k. í Hörpu. Umboðsmaður barna boðar fulltrúa sveitarfélagsins til að mæta á þingið.
Byggðarráð þakkar boðið. Svala Eyjólfsdóttir, tómstundafulltrúi, mun mæta á þingið fyrir hönd sveitarfélagsins og hvetur byggðarráð aðra starfsmenn stjórnsýslunnar til þátttöku.

14.Umsókn um stofnframlög ríkisins

2202167

Framlögð auglýsing Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna stofnframlaga fyrir íbúðarhúsnæði, frá 18. febrúar 2022.
Miðvikudaginn 23. febrúar 2022 var haldinn stofnfundur fyrir húsnæðissjálfseignarstofnun landsbyggðarinnar. Á fundinum var ákveðið að stofnunin myndi bera heitið Brák hses. Húsnæðissjálfseignarstofnun getur sótt um stofnframlög fyrir almennum íbúðum, sem eru byggðar eða keyptar með það að markmiði að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur. Byggðarráð telur mikilvægt að hefja undirbúning að byggingu almennra íbúða á næstu misserum, þó ekki verði sótt um stofnframlag í þessari úthlutun. Byggðarráð felur sveitarstjóra að skoða nánar samvinnu við þriðja aðila um uppbyggingu leiguhúsnæðis í Borgarbyggð.

15.Íbúaskrá 1.desember 2021

2202160

Framlögð íbúaskrá frá Þjóðskrá Íslands, dags. í janúar 2022. Þann 1. desember 2021 voru 3.875 íbúar skráðir í sveitarfélaginu.
Lagt fram til kynningar.

16.Aðalfundur SSV. 16.3 2022

2202159

Framlagt fundarboð á aðalfund Samtaka íslenskra sveitarfélaga sem haldinn verður 16. mars 2022. Seturétt á aðalfundi eiga sveitarstjórnarfulltrúar á Vesturlandi sem kosnir eru af sveitarfélögunum sem fulltrúar á aðalfund SSV.
Fulltrúar Borgarbyggðar á aðalfundi SSV og tengdra félaga eru kosnir aðalmenn eða varamenn þeirra.
Aðalmenn eru: Lilja Björg Ágústsdóttir, Magnús Smári Snorrason, Davíð Sigurðsson, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Þórdís Sif Sigurðardóttir
Varamenn eru: Silja Eyrún Steingrímsdóttir, Logi Sigurðsson, Finnbogi Leifsson, Orri Jónsson og Eiríkur Ólafsson.

Fundi slitið - kl. 12:15.