Fara í efni

Byggingarleyfi

Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir

Í 2.3. kafla byggingarreglugerðar kemur fram hvaða framkvæmdir eru háðar byggingarleyfi. Almenna reglan er að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir öllum nýjum mannvirkjum, viðbyggingum og breytingum til dæmis á útliti, burðarkerfi og lagnakerfum. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.

Nýjustu útgáfu byggingarreglugerðar má nálgast á vef Mannvirkjastofnunar.

Leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar og málsmeðferð vegna byggingarleyfisskyldra framkvæmda má nálgast hér.

Sótt er um byggingarleyfi í gegnum Þjónustugátt Borgarbyggðar. 

Leiðbeiningar byggingarfulltrúa

Nánari leiðbeiningar vegna rafrænna umsókna má nálgast hér.

Hverjir geta sótt um byggingarleyfi?

Húseigandi, lóðarhafi eða umboðsmaður hans, t.d. hönnunarstjóri verksins.

Hvernig er sótt um byggingarleyfi? 

Umsóknir  skal  leggja  inn  rafrænt  í  gegnum Þjónustugátt Borgarbyggðar. Hönnunargögnum er einnig skilað inn í gegnum Þjónustugáttina, en má jafnframt senda teikningar á PDF-formi á netfangið bygg@borgarbyggd.is. Ath. undirritaðar teikningar á pappír þarf jafnframt að senda til byggingarfulltrúa. Sjá nánar í leiðbeiningum byggingarfulltrúa (slóð hér að ofan).

Meðferð umsókna um byggingarleyfi

Þegar umsókn berst í gegnum Þjónustugátt Borgarbyggðar er hún sjálfkrafa skráð í gagnagrunn embættisins. Umsóknin er yfirfarin af starfsmönnum byggingarfulltrúa og gengið úr skugga um að hún uppfylli ákvæði skipulags- og byggingarlaga, byggingarreglugerðar, skipulagsskilmála og annarra laga og reglna er málið varða. 

Byggingarfulltrúi afgreiðir allar umsóknir um byggingarleyfi og tilkynningaskyldar framkvæmdir á afgreiðslufundum sem haldnir eru einu sinni í mánuði. Að fundi loknum fá allir umsækjendur tilkynningu um afgreiðslu málsins. Fundargerð er jafnframt færð inn á vef Borgarbyggðar strax að fundi loknum. Ef byggingaráform eru ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag er umsókn lögð fyrir til umfjöllunar hjá skipulags- og  byggingarnefnd til afgreiðslu. Fundir skipulags- og byggingarnefndar  að jafnaði haldnir fyrsta föstudag hvers mánaðar.