Fara í efni

Eldri borgarar

Þann 27. mars 2018 samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar stefnu í málefnum aldraðra í Borgarbyggð. í henni má finna framtíðarsýn sveitarfélagsins og þar koma fram helstu markmið og áherslur ásamt hlutverki og ábyrgð þeirra aðila sem koma að málefnum aldraðra. Til að fylgja stefnunni eftir er unnin árlega aðgerðaráætlun ásamt kostnaðaráætlun þar sem skilgreindir ábyrgðaraðilar eru að einstökum verkefnum.

Hægt er að panta eða fá upplýsingar um alla þjónustu sveitarfélagsins við eldri borgara í síma 433 - 7100.

Ráðgjöf

Eldri borgarar hafa aðgang að félagslegri ráðgjöf hjá félagsþjónustu sveitarfélagsins og geta leitað þangað eftir aðstoð varðandi réttindi sín eða mögulega þjónustu. Eins er hægt að fá upplýsingar um mögulega þjónustu hjá heimahjúkrun. Þjónusta við eldri borgara er í stöðugri þróun og markmiðið alltaf að mæta þörfum þeirra er þurfa á henni að halda. Eldri borgarar eru hvattir til að koma með ábendingar og kanna möguleika á aðstoð hvort sem er varðandi almenna þjónustu eða þeirra eigin aðstöðu.

Heimsendur matur – mötuneyti

Sótt er um heimsendan mat á íbúagátt Borgarbyggðar. Þar er hægt að velja þá daga sem óskað er eftir. Borgarbyggð er með samning við Brákahlíð sem sér um að elda matinn sem eldri borgarar og öryrkjar innan Borgarbyggðar geta fengið sendan heim í hádeginu. Sveitarfélagið sér um akstur og innheimtu vegna þessarar þjónustu. Nánari upplýsingar er hægt að fá í þjónustuveri Borgarbyggðar í síma: 433-7100.

Í félagsstarfinu á Borgarbraut 65a er boðið upp á hádegismat alla virka daga.

Ferðaþjónusta

Boðið er upp á akstur í og úr félagsstarfi, í reglubundna þjálfun eða til læknis.

Heimahjúkrun

Heimahjúkrun er alfarið á hendi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, símanúmer Heilsugæslustöðvarinnar í Borgarnesi er 432-1430.

 Afsláttur af fasteignaskatti

Tekjulágir elli- og örorkulífeyrisþegar sem eiga lögheimili í Borgarbyggð eiga rétt á afslætti af fasteignaskatti skv. reglum og ákvörðun sveitarstjórnar hvert ár, sbr. heimild í 5. gr. laga 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Hjá hjónum og sambýlisfólki ræður aldur þess er fyrr verður 67 ára.

Afsláttur nær einungis til íbúðarhúsnæðis sem viðkomandi býr sjálfur í.

Afsláttur ræðst af tekjum undanfarandi árs. Afslátturinn er reiknaður til bráðabirgða við álagningu út frá öllum skattskyldum tekjum einstaklings eða hjóna/sambúðarfólks, þ.m.t. eigna- og fjármagnstekjum samkvæmt síðasta skattframtali, en þegar staðfest skattframtal liggur fyrir vegna
tekna síðasta árs er afsláttur endurskoðaður og leiðréttur.

Tekjumörk eru ákveðin af byggðarráði Borgarbyggðar í desember á hverju ári og birtist á heimasíðu Borgarbyggðar undir gjaldskrár.

 Heilsu- og menningarstyrkur

Borgarbyggð styrkir frístunda- og menningariðkun öryrkja og eldri borgara með framlagi í formi árskorta í íþróttamannvirki Borgarbyggðar og í Safnahúsið. Markmið framlagsins er að hvetja öryrkja og eldri borgara til að taka þátt í menningarlífi Borgarbyggðar og í heilsueflandi athöfnum.

Hægt er að nýta heilsu- og menningarstyrkinn í:

  • Árskort í sund og líkamsrækt í íþróttamiðstöðvum Borgarbyggðar
  • Aðgang að sýningum í Safnahúsi Borgarfjarðar

Árskort í sund og líkamsrækt eru aðgengileg í íþróttamiðstöðvum Borgarbyggðar. Aðgangur að Safnahúsi er ókeypis fyrir öryrkja og eldri borgara gegn framvísun skilríkja.

Reglurnar gilda frá 1. júní 2020.