Fara í efni

Viðmiðunarreglur um snjómokstur

Snjómokstri og hálkueyðingu í Borgarbyggð er stjórnað af Umhverfis-og framkvæmdadeild Borgarbyggðar og Vegagerðinni.

Markmið með snjómokstri og hálkueyðingu er að minnka þau óþægindi sem snjór og ís veldur einstaklingum, fyrirtækjum, fyrirtækjum og skólahaldi. Vetrarþjónusta miðar að því að halda opnum helstu stofn- og tengibrautum, skólabílaleiðum og aðgengi að neyðarþjónustu eins og kostur er. Ef veður eða veðurútlit er með þeim hætti, er áskilinn réttur að fella niður snjómokstur eða skerða þjónustu, s.s. meðan óveður gengur yfir. 

Sveitarfélagið greiðir ekki kostnað vegna snjómoksturs sem til hefur verið stofnað án samþykkis, nema ef beiðni um mokstur kemur frá lögreglu, slökkviliði, læknum eða sjúkraflutningsmönnum vegna neyðartilvika. Ofantöldum er heimilt að kalla út tæki án samþykkis sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið annast ekki snjómokstur: 

 • Á bílastæðum eða plönum einstaklinga og fyrirtækja
 • Frá sorpílátum og bílskúrum einstaklinga og fyrirtækja
 • Á einkavegum að húsnæði sem skilgreint er sem sumarhús í fasteignaskrá Þjóðskrár
 • Á einkavegum í og að sumarhúsahverfum
 • Þar sem einstaklingur er skráður með lögheimili en hefur ekki fasta búsetu allt árið á staðnum
 • Að einstökum ferðamannastöðum
 • Á hlöðum eða plönum við útihús í dreifbýli

Snjómokstur í dreifbýli

Full þjónusta  er á þeim leiðum sem er skólaakstur grunnskólabarna. Snjómokstursfulltrúar eru tengiliðir við íbúa, Vegagerðina og snjómokstursverktaka á hverju svæði. Þeir hafa ekki upplýsingar um veður eða færð á öllum vegum. Íbúar eru beðnir um að hafa samband við snjómokstursfulltrúa á sínu svæði þegar þörf er á snjómokstri. Þegar óskað er eftir heimreiðamokstri þarf að panta hann með sólarhrings fyrirvara til að unnt sé að skipuleggja hann með öðrum mokstri. Skólabílstjórar hafa heimild til að hafa beint samband við vaktmenn hjá Vegagerðinni og óska eftir mokstri. 

Vegagerðin hefur skilgreint vegi þar sem heimilt er að beita helmingamokstursreglu, allt að þrisvar í viku þar sem kostnaður skiptist til helminga á Vegagerð og Borgarbyggð. Sjá upplýsingar um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar.

Snjómokstursfulltrúar í dreifbýli eru eftirfarandi:
 • Hraunhreppur, Álftaneshreppur: Finnbogi Leifsson, Hítardal, s. 437-1715/862-1715
 • Kolbeinsstaðahreppur: Ólafur Sigvaldason, Brúarhraun, s. 661-9860
 • Borgarhreppur, Stafholtstungur, Norðurárdalur og Þverárhlíð: Kristín Kristjánsdóttir , Bakkakoti, s. 862-8310
 • Hálsasveit, Hvítársíða, Reykholtsdalur, Flókadalur, Lundarreykjadalur, Bæjarsveit og Andakíll: Jón Pétursson, Kleppjárnsreykjum, s. 693-4832
Heimreiðar

Einungis er full þjónusta á þeim heimreiðum þaðan sem er skólaakstur vegna skólagöngu grunnskólabarna. Þó eru heimreiðar mokaðar ef nauðsynlegt er vegna sorphirðu og/eða félagsþjónustu.

Allt að 2 sinnum á almanaksári greiðir Borgarbyggð fyrir snjómokstur á heimreiðum íbúðarhúsa í dreifbýli þar sem er föst búseta allt árið. Aðeins er um að ræða mokstur þannig að fært sé að bílastæðum við íbúðarhús. Ekki er um að ræða hreinsun á hlöðum eða plönum eða að útihúsum. Mokstur á innansveitarvegum skal njóta forgangs umfram mokstur heimreiða.

Snjómokstur í þéttbýli

Verkstjóri Áhaldahúss og snjómokstursfulltrúar á viðkomandi svæðum forgangsraða verkefnum í snjóhreinsun og hálkueyðingu í samræmi við götukort. Þeir kalla út verktaka sem fylgja skulu fyrirmælum hvað varðar fyrirkomulag og gæði hreinsunar. Sjá kort undir nafni þéttbýlis.

Þjónustuflokkar snjómoksturs í þéttbýli

Unnið er eftir ákveðnu skipulagi moksturs sem hér segir:

Rauðar götur eru þær götur og vegir þar sem þjónustu er alfarið sinnt af Vegagerðinni.

1. Þjónustuflokkur - Bleikar götur

Allar stofnbrautir og aðaltengigötur m.a. að neyðarþjónustu, skólum og fjölförnum safngötum. Lögð áhersla á að þær séu alltaf greiðfærar. Hreinsun á þessum götum skal vera lokið fyrir kl. 08:00 að morgni virka daga. Bílastæði og plön við skóla, leikskóla, íþróttamiðstöðvar, heilsugæslustöð og slökkvistöð og björgunarsveitarhús eru í forgangi og skulu vera hreinsuð fyrir 08:00 virka daga.

2. Þjónustuflokkur- bláar götur

Safngötur með minni umferð, aðalgötur gegnum hverfi. Hreinsun hefst þegar hreinsun er lokið á bleikum götum. Bílastæði og plön við Tónlistarskóla, Ráðhús, Safnahús og aðrar stofnanir og bílastæði á vegum sveitarfélagsins skulu hreinsuð samhliða.

3. Þjónustuflokkur – gular götur

Húsagötur og fáfarnar safngötur. Húsagötur eru ekki mokaðar nema þær séu orðnar þungfærar einkabílum sem eru útbúnir til vetraraksturs, eða ef von er á hláku.

Þau tilfelli geta komið upp að ekki er hreinsað frá innkeyrslum fyrr en nokkru eftir að gata hefur verið hreinsuð.Við snjóhreinsun gatna er þó líklegt að snjóruðningar eða –kögglar geti orðið eftir við innkeyrslur sem ekki næst að hreinsa og þurfa íbúar það sjáum þá hreinsun sjálfir.

Göngustígar

Gert er ráð fyrir að gangstéttar og stígar að skólum, leikskólum og íþróttamiðstöð séu hreinsaðar.

Verktakar annast mokstur gatna í þéttbýli og í dreifbýlinu þar sem mokað er á vegum Borgarbyggðar en starfsmenn Borgarbyggðar annast mokstur stíga og annarra áþekkra svæða.

Nánari upplýsingar hér. 

Hafa ber í huga að reglur þessar eru viðmiðunarreglur og bera að líta á þær sem slíkar.

Mikilvægt er að þeim sem annast snjómokstur sé sýnd tillitssemi við störf sín. Þeir leggja á sig mikla vinnu, oft við erfiðar aðstæður, við að halda akstur- og gönguleiðum í sveitarfélaginu greiðfærum.