Fara í efni

Íþróttir og tómstundir

Stefna Borgarbyggðar í íþrótta- og tómstundamálum 2018-2025 var samþykkt í sveitarstjórn Borgarbyggðar í maí 2018. Þar er mótuð framtíðarsýn í íþrótta- og tómstundamálum í Borgarbyggð. Skýr stefna tryggir að allir sem starfa að íþrótta- og tómstundamálum stefni í sömu átt með það að markmiði að efla íþrótta- og tómstundastarf í sveitarfélaginu.

Fjölbreytt val í íþrótta- og tómstundastarfi er mikilvægt hverju samfélagi. Borgarbyggð hefur stutt við uppbyggingu íþrótta- og tómstundaaðstöðu auk aðstöðu til ýmiskonar útivistar í sveitarfélaginu. Sem dæmi má nefna uppbyggingu göngustíga í Borgarnesi, aðstöðu til útivistar í Einkunnum, uppbyggingu golfvallarins í Borgarnesi og aðstöðu hestamanna auk sparkvalla í Borgarnesi, á Hvanneyri og á Bifröst. Þá á sveitarfélagið og rekur þrjú íþróttahús og sundlaugar.

Samhliða mótun heildstæðrar stefnu og framkvæmd hennar er unnið að frekara samstarfi sveitarfélagsins við Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB) og grasrótina.

Stefnan er unnin á grunni tillagna og athugasemda sem komu fram á opnum íbúafundi um íþrótta- og tómstundamál sem tómstundanefnd Borgarbyggðar stóð fyrir haustið 2011 og einnig á afrakstri sameiginlegrar stefnumótunarvinnu sem Borgarbyggð og UMSB stóðu fyrir á haustdögum 2012. Drög að stefnunni voru send til fagnefnda sveitarfélagsins til umfjöllunar og skoðunar.

Stefnan er er í fjórum megin köflum; íþróttastarf barna og unglinga, almenningsíþróttir, afreksíþróttir og tómstundastarf. Sett eru fram markmið í hverjum kafla og leiðir til þess að ná markmiðunum.
Í öllu íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu verður leitast við að jafna tækifæri íbúanna, bæta upplýsingamiðlun, stuðla að almennri heilsueflingu, efla forvarnir og uppræta einelti.

Starfsmenn sem vinna að íþrótta- og tómstundastarfi í Borgarbyggð mega ekki hafa hlotið refsidóm fyrir kynferðisbrot eða önnur refsibrot sem eru af því tagi að þau þykja skipta máli í þessu sambandi, sbr. 2.mgr. 10.gr. æskulýðslaga nr. 70/2007.
Stefna í íþrótta- og tómstundamálum á að vera í stöðugri endurskoðun og skal tekin fyrir á fundi tómstundanefndar að hausti.

1. ÍÞRÓTTASTARF BARNA OG UNGLINGA

Markmið: Að börn og unglingar í Borgarbyggð geti stundað íþróttir óháð búsetu og fjölskylduaðstæðum og fái tækifæri til að kynnast fjölbreyttum íþróttagreinum.
Leiðir:

 1. Samræma stundatöflur grunnskóla, tónlistarskóla, íþróttafélaga og annarra tómstunda í áföngum.
 2. Koma upp miðlægri upplýsingaveitu fyrir tónlistarskóla, íþróttafélög og aðra tómstundastarfsemi fyrir börn og unglinga.
 3. Fjölga möguleikum barna og unglinga í dreifbýli með meiri tengingu þéttbýlis og dreifbýlis meðal annars með því að bjóða upp á samgöngur innan sveitarfélagsins þegar það á við.
 4. Að hvatapeningar eða annað þátttökuhvetjandi form niðurgreiðslna í íþróttum og tómstundastarfi standi öllum börnum og unglingum á grunnskólaaldri ára til boða.
 5. Að settur verði á stofn íþróttaskóli fyrir yngsta stig grunnskólans
 6. Að gera kröfur um menntun og hæfni þjálfara og leiðbeinenda.
 7. Að hvetja félög til að vinna eftir viðmiðum fyrirmyndarfélaga ÍSÍ.
 8. Að þátttaka barna og unglinga í íþróttastarfi sé könnuð reglulega.

2. ALMENNINGSÍÞRÓTTIR

Markmið: Að fólk á öllum aldri hafi góða aðstöðu til útivistar og almennrar heilsuræktar í sveitarfélaginu.
Leiðir:

 1. Uppbygging og viðhald íþróttamannvirkja verði unnið í samvinnu við íþróttahreyfinguna.
 2. Halda áfram uppbyggingu göngu- og hjólaleiða í Borgarbyggð.
 3. Fjölga æfingamöguleikum úti s.s með uppsetningu rimla og palla.
 4. Hvetja starfsmenn fyrirtækja og stofnana í Borgarbyggð til almennrar heilsuræktar.
 5. Áfram verði unnið að því að fólkvangurinn Einkunnir verði aðdráttarafl fyrir fólk á öllum aldri til útivistar allan ársins hring.

3. AFREKSÍÞRÓTTIR

Markmið: Að afreksfólk í íþróttum eigi kost á að stunda íþróttagrein sína í heimabyggð og verði um leið jákvæð fyrirmynd barna og unglinga.
Leiðir:

 1. Standa við bakið á deildum og einstaklingum sem standa í fremstu röð í sinni grein með styrkveitingum
 2. Bjóða upp á aðstöðu til þjálfunar eftir því sem hægt er.

4. TÓMSTUNDASTARF

Markmið: Að í sveitarfélaginu verði fjölbreytt tómstundastarf sem íbúar á öllum aldri geti tekið þátt í.
Leiðir:

 1. Að auka framboð skapandi greina í tómstundastarfi með því að efla samvinnu við fyrirtæki, félög, einstaklinga og stofnanir sveitarfélagsins.
 2. Að styðja við og styrkja almennt tómstundastarf.
 3. Að auka fjölbreytni í starfssemi félagsmiðstöðva.
 4. Að tryggja að tómstundastarf á vegum sveitarfélagsins höfði jafnt til beggja kynja
 5. 5. Að tryggja að í félagsmiðstöðvum starfi bæði konur og karlar.
 6. 6. Að þátttaka í tómstundastarfi sé könnuð reglulega.